Greinasafn merkis: paleo

Hellisbúabrauð

Hér er ætlunin að skrifa um hellisbúabrauð. Brauðið af framkvæmdalistanum sem ég er búin að baka, ekki bara einu sinni heldur tvisvar! Hipp hipp og margfalt húrra fyrir mér. Og brauðinu. En fyrst verð ég bara að koma því á framfæri hvað ég er ofboðslega alsæl með að hvorki ég né Atli vinnum hefðbundna 9 til 5 vinnu. Ég er vissulega í fæðingarorlofi núna, en svona alla jafna meina ég. Eftir að hafa fórnað laugardagsfríkvöldi til að redda einhverjum málum í vinnunni bauðst Atla að fá frí á mánudag og þriðjudag, sem þýddi að fyrirvaralaust var hann kominn í fimm daga frí. Mér líður eins og það hafi verið mánuður. Við erum búin að koma alls konar í verk, hvíla okkur, knúsast, hitta skemmtilegt fólk og hafa það dásamlegt. Þessi tvö ár sem ég var hefðbundin níutilfimm launamanneskja gerðist það að minnsta kosti ekki oft að fólk fengi alveg óvart svona bónusfrí. Onei.

En brauð var það, já. Gott brauð. Svakalega gott brauð.

IMG_4561

Uppskriftin er fengin af uppáhaldsheilsublogginu. Ég hef áður smakkað svona hellisbúabrauð – sem hentar sem sagt þeim sem aðhyllast paleo-mataræðið og neyta því ekki kornmetis (ef ég skil þetta rétt. Ég er allt of mikill kolvetnafíkill til að detta í hug að reyna að sleppa þeim…). Uppistaðan í því var sú sama og hér, fræ og hnetur, en það var hins vegar bundið saman með eggjum. Það var mjög gott, en eggjabragðið fór samt ekkert fram hjá manni. Og ég er að minnsta kosti ekkert alltaf í stuði fyrir egg. Í þessu brauði er það hins vegar psyllium-fræskurnin sem heldur herlegheitunum saman.

Já, psyllium. Einnig þekkt sem Husk. Náttúrulega hægðatregðulyfið. Jebb. Að þessu komst ég þegar ég mundi loks eftir því að koma við í Heilsuhúsinu á leið minni heim og versla það eina sem mig vantaði til bakstursins. Psyllium-fræskurnin er sem sagt afskaplega góð fyrir meltinguna og sé hún tekin inn svona ein og sér er mælt með því að fólk drekki afar vel af vatni með. Þessu brauði fylgdu nú ekki sömu fyrirmæli, en í því er reyndar ansi vel af vatni. Og ég get vottað að brauðið hefur ekkert sett meltingu heimilismeðlima hér á bæ úr skorðum.

IMG_4565

Ég var eflaust páfagaukur í fyrra lífi því mér finnast fræ og hnetur með því betra í heimi hér. Það þarf þess vegna ekki að koma mikið á óvart að mér finnist brauðið gott. Sérstaklega ristað. Það er unaðslegt ristað. Ég hef hingað til prófað að gera það með heslihnetum og brasilíuhnetum og heslihneturnar höfðu vinninginn í þeirri viðureign, en mig grunar að möndlurnar komi ansi sterkar inn líka. Mig grunar líka að það sé hægt að leika sér ansi mikið með þessa uppskrift svona eftir því sem er til í skápunum hverju sinni. Næst ætla ég að prófa að setja eitthvað krydd í það. Kannski broddkúmen. Mmm. 

Hér er uppskriftin, aðferð fyrir neðan. Ég mæli eindregið með því að þið prófið. Það tekur tíu mínútur að hræra í það og svo er bara að bíða á meðan vatnið vinnur vinnuna sína, bindur allt saman og leysir næringarefnin enn betur úr læðingi. Ég mæli svo líka með því að þið gefið mér háa fimmu í hugskeyti fyrir að geta strokað eitt atriði út af listanum.

Hellis-stærra

Blandið öllum þurrefnum saman í sílikonbrauðformi. Blandið vatni, olíu og hlynsírópi saman í öðru íláti og hellið svo yfir þurrefnablönduna. Hrærið varlega þar til allt er orðið blautt og „klesst“. Jafnið út með skeið og látið standa í allt frá tveimur tímum upp í heila nótt. Ég lét mitt bara standa á eldhúsborðinu í nokkra tíma og gekk úr skugga um að brauðið héldi lögun sinni þegar ég togaði formið aðeins frá. Hitið ofn í 175°C og bakið í 20 mínútur, takið þá úr forminu og bakið áfram í 30-40 mínútur, eða þar til holt hljóð heyrist úr brauðinu þegar bankað er í það. Látið kólna áður en það er skorið.

Bon appetit!

Auglýsingar
Merkt , , ,
Auglýsingar