Greinasafn merkis: janúar

Kórall og smoky bay

Reykjavík 18 jan - smoky bay

Ég er að færa mig upp á skaftið í myndavélarmálum og farin að fikta við manúal-stillinguna á vélinni. Það held ég nú. Þessar eru svipmyndir frá dásamlegu langalúrsrölti í blíðviðri í síðustu viku. Það var næstum því vor í lofti, sól og sjávarlykt. Dásemd.

Reykjavík 18 jan sign

Reykjavík 18 jan rakari

Reykjavík 18 jan hús

Reykjavík 18 jan gata

Reykjavík 18 jan fönix

Reykjavik 18 jan kerra

Reykjavik 18 jan hlið

Mikið er Vesturgatan annars orðin hundrað sinnum huggulegri eftir að hún varð einstefna. Næsta aðsetur mitt í borginni, þegar að því kemur að við verðum að yfirgefa Klapparstígshöllina, má gjarnan vera á þeim slóðum.

Auglýsingar
Merkt , ,

Grænn janúar: litaglatt grjónasalat

Grjónasalat 2
Það tókst! Ég náði mynd af kvöldmatnum mínum. Þremur, meira að segja. Þessi var reyndar líka af hvað-er-til-í-ísskápnum týpunni, en með hýðishrísgrjónum í stað hins hefðbundna pasta. Þar sem sambýlingurinn vinnur kokkavaktir er ég oftar en ekki ein heima með Bessann á kvöldin og því ekki alltaf mikill tími til stefnu til að elda og borða kvöldmat. Að fenginni reynslu reyni ég ekki lengur við rétti sem krefjast viðveru við eldavélina (já, ég er að horfa á þig, brennda lasagna/pizza/grautur). Helst verður eitthvað af salatætt fyrir valinu, því hvað sem öllu líður er ómögulega hægt að brenna það við. Þetta hér er alveg tilvalinn réttur fyrir grasekkjukvöldin mín. Hann er útúrsnúningur á Besta linsusalati í heimi (af bloggi sem ég gersamlega dái og dýrka – stútfullt af fáránlega góðum, hollum uppskriftum og fróðleik); ég notaði grjón í stað linsubauna af illri nauðsyn.

Grjónasalat

Ég gerði þennan rétt fyrst í sumar. Þá útbjó ég stóra uppskrift og borðaði yfir fjóra daga. Mig minnir að það hafi svo liðið tveir dagar áður en ég gerði aðra risauppskrift. Þetta er það gott. (Mögulega var ég með eilítið skrýtnar óléttutengdar matarvenjur, en ég skrifa þetta alfarið á gæðin!) Það góða við þetta salat er að það er hægt að snúa út úr því á alla vegu – bæta því grænmeti út í sem maður er hrifinn af eða á til hverju sinni – og svo geymist það líka alveg ljómandi vel ef maður setur ferska grænmetið bara út í jafnóðum.

Þið finnið upphaflegu uppskriftina á MyNewRoots – blogginu (sjá link að ofan). Ég gerði eftirfarandi: Skipti linsunum út fyrir soðin hýðishrísgrjón. Bætti út í þurrkuðum trönuberjum og kapers, en sleppti lauknum í þetta skiptið af ótta við að Bessinn mótmælti. Svo hreinsaði ég grænmetisskúffuna: henti út í snjóbaunum, gulri papriku, gúrku, tómat, sellerí, nokkrum ólífum, graskersfræjum og saxaðri steinselju. Þar sem litli maðurinn var farinn að ókyrrast aðeins slumpaði ég á dressinguna, en ég mæli með því að þið mælið í hana, að minnsta kosti í fyrsta skiptið. Hún er svo brjálæðislega góð! Mína vantaði örlítið upp á í þetta skiptið, en hún var ljúffeng engu að síður. Grunnurinn er ósköp einföld vinaigretta með sinnepi, en út í hana er svo bætt broddkúmeni, möluðum kóríander, túrmeriki og cayenne-pipar. Ég hef yfirleitt látið þar við sitja, en í upphaflegu uppskriftinni er líka smá negull, múskat og kanill. Guðdómlegt.

Grjónasalat 3

Ég hvet ykkur til að prófa – og skrolla aðeins í gegnum síðuna ef ykkur vantar heilsusamlegan innblástur. Verðukkuraðþví.

Merkt ,

Grænn janúar

Bessi 9 jan

Hér í Klapparstígshöllinni, eins og á svo mörgum öðrum bæjum, er hafið janúarátak eftir lystisemdir aðventunnar og hátíðanna. Í kjólinn eftir meðgöngu og jólin, svo að segja. Ég fer mér nú samt afar rólega og miða svona frekar að því innbyrða meira af káli og minna af konfekti en að ætla að hrista af mér sjö kíló á kortéri. Brauð og pasta var líka sent í frí í bili, að ósk sambýlingsins sem innbyrðir ansi mikið magn af brauði-með-einhverju-á þegar hann vantar orku í vinnunni. Þar sem við settumst niður að snæðingi eitthvert kvöldið um daginn og áttuðum okkur á því að við höfðum ekkert kjöt innbyrt í nokkra daga, án þess að taka eftir því, ákváðum við að eiga grænan janúar. Hér heima verður sumsé ekkert eldað nema grænmetisfæði.

Ég er þrælspennt fyrir þessu, aðallega þeirri áskorun að fara að elda aðeins meðvitaðri grænmetisrétti. Þó hér sé oft kjötlaust fæði á borðum er það oft eftir uppskriftinni hvað-er-til-í-ísskápnum plús pasta. Nú langar mig að verða nýjungagjarnari. Í gær gerði ég útgáfu af þessu hér. Mitt varð að avókadó-byggottó með sólþurrkuðum tómötum og klettasalati, borið fram með alltmúlígt-salati. Nú hlakka ég til að fara að skoða fleiri uppskriftir. Eitthvað tvist á vetrarsalatinu hennar Rachel Khoo úr The Little Paris Kitchen (sem er æði!) verður eflaust gert fljótlega. Uppskriftin hennar (sem er númer 21 á þessum playlista) kallar að vísu á geitaostsrjóma sem samræmist ekki endilega aðhaldinu, en það hlýtur að vera hægt að komast einhvern veginn í kringum það…

Hvernig tengist myndefnið þessu, spyrjið þið? Jú, ég gerði tilraun til að mynda þessa byggottó-matseld mína. Hún fór ekkert allt of vel; í fyrsta lagi var birtan eins og í meðalsvartholi og í öðru lagi ákvað barnið að þetta pjatt væri ekki að hans skapi og heimtaði athygli. Valið stóð því á milli þess að taka myndir af matnum eða klára hann. Þar sem ég hafði lítinn áhuga á að verða hungurmorða var myndataka flautuð af. Í staðinn er því boðið upp á mynd af Bessa að borða dýr, sem hann ætlar að halda áfram í janúar. Vonandi gengur myndataka betur næst.

Ég get einnig splæst í eina rándýra af absúrd góða morgunmatnum, sem hefur leyst ristaða brauðið af hólmi: hafragrautur með hör- og chiafræjum, döðlum, valhnetum og önfirskum bláberjum. Nammigott.

Grautum þetta í gang!

Merkt , ,

Janúarrölt, ljósmyndabrölt

Reykjavík 6 jan

Ég stóð við óformlegt áramótaheiti og tók myndavélina með mér í göngutúr gærdagsins; spásseraði um miðbæinn á meðan Bessinn svaf værum svefni í vagninum. Ef ekki hefði verið fyrir jólaljósin sem enn hanga víða uppi hefði þetta allt eins getað verið apríldagur og þrettándinn, miðað við hitastig og svona.

Ég vil helst ekki strengja áramótaheiti, en ég hef nú samt sett mér það markmið að vera duglegri að taka myndir í ár og fikta í bæði vél og fótósjopp, sem ég kann ekki baun á. Ennþá. Í lok ársins verð ég vonandi orðin allavega smá flink.

Reykjavík 6 jan 4

Reykjavík 6 jan 3

Reykjavík 6 jan 2

Hér er samt eitt heiti: ég heiti því að passa að hlaða myndavélina reglulega, svo batteríið klárist ekki eftir hálftíma labb eins og í dag. Ef það hefði ekki gerst hefðu hér líklega fylgt myndir af afskaplega huggulegri stund með enn huggulegri vinum á Snaps í eftirmiðdaginn. Batnandi konu er best að lifa. Segjum það.

Merkt , ,
Auglýsingar