Greinasafn merkis: Indland

Silki

silki

Síðustu vikur hefur lestur góðra bóka heldur setið á hakanum hjá mér. Mér finnst einhvern veginn svolítið erfitt að sökkva mér í lestur þegar ég veit að það er bara tímaspursmál hvenær barnið galar á athygli mína og þegar drengurinn er sofnaður að kvöldi hafa bíómyndir og internetið haft vinninginn. Illska Eiríks Arnar, sem ég fékk í jólagjöf og hlakka mikið til að lesa, bíður því enn í plastinu heilum tveimur mánuðum eftir jól  – örlög sem ég get ábyrgst að jólabók hefur aldrei hlotið á mínu heimili áður. Þessir tímar stuttra frístunda og örlítillar athyglisröskunar (hæ, brjóstaþoka) hafa hins vegar haft þau jákvæðu áhrif að ég hef enduruppgötvað ljóðabækurnar mínar. Það er enginn vandi að ná að lesa ljóð – og njóta þess – á meðan barnið skoðar sig í leikspeglinum eða tekur stutta kríu.

Í jólagjöf fékk ég líka ljóðabók Gerðar Kristnýjar, Strandir, og ég er búin að lesa hana gjörsamlega upp til agna. Næst á dagskrá er ferð á bókasafnið til að ná mér í Blóðhófni og fleira góðgæti úr hennar smiðju – ég var stormandi hrifin af ljóðunum hennar og langar í meira. Eitt þeirra, sem ættað er frá indverskum ströndum, fékk mig til að lygna aftur augunum og brosa. Ég er hrifnust af ljóðum sem kalla fram skýra mynd í huganum, og það er sko nóg af þeim í bókinni hennar Gerðar Kristnýjar. Þetta færði mig á svipstundu aftur til Jodphur eða Varkala, ég fann lyktina af reykelsisbúntunum, heyrði kliðinn af markaðinum og skerandi flautið í einhverju rikshawinu. Og sá litina liðast fyrir augum mér, allt silkið og saríana í einni stórri flóðbylgju af leikandi litum.

Ljóðið er svona:

Silki

Sjölin svífa
niður úr hillum
og setjast í
lófa mína

„Ekta silki,“
segir kaupmaðurinn
Hann bregður upp eldspýtu og svíður af kögri

„Sko! Lyktar eins og brennt mannshár – alveg ekta!“

Hann skrökvar aldrei, trúir á Jesú
– bendir á kross
fyrir aftan sig –
og ólst upp á munaðarleysingjahæli
móður Teresu

Það var hún sem
kenndi honum að
segja satt

Hún gleymdi samt að
temja honum kurteisi
því þegar ég
hleypi sjölunum
aftur upp í hillur
steypast yfir mig
bengölsk blótsyrði

En nú get ég
hvenær sem er
brennt lokk
úr hári mínu
og fundið angan af
indversku silki

– Gerður Kristný,
úr ljóðabókinni Strandir

Mæli hiklaust með henni!

Auglýsingar
Merkt , , , ,

Grænn janúar: granateplagrín

Granatmyntukínóa

Ég þarf ekki að vera ólétt til að fá skyndilega óstjórnlega löngun í einhvern ákveðinn mat. (Ég er að horfa á ykkur, grænu frostpinnar.) Um daginn varð ég allt í einu illa haldin af granateplaþrá. Ég hafði held ég aldrei borðað granatepli fyrr en þau dúkkuðu upp í hverju einasta ávaxtasalati sem við pöntuðum okkur á Indlandi í fyrra. Og ég borðaði svona þrjú salöt á dag síðustu vikurnar okkar, á ströndinni í Góu. Mögulega tengdist það því að ég var einmitt ólétt, án þess að vita af því, og þar sem ég hafði að mestu leyti lifað á hvítu hveiti og brasolíu vikurnar þar á undan hafði líkaminn mögulega smá þörf fyrir bætiefni. Ég fékk hreinlega ekki nóg af ferskum ávöxtum, og granateplin voru algerlega punkturinn yfir i-ið. Þegar þau eru fersk eru þessir litlu gimsteinar alveg passlega fastir undir tönn, sætsúrir og safaríkir. Og svo gera þeir bókstaflega allan mat girnilegan.

Ég gerði mér þess vegna sérstaklega ferð í Hagkaup, birgði mig upp af granateplum og át svo þetta kínóasalat í öll mál í nokkra daga. Það varð eitthvað svona rauð-grænt jólaþema, alveg óvart. Spínat, gúrka, mynta, granetepli og radísur og svo nokkrar ristaðar möndlur og smá vinagretta (gott orð). Dýrlegt. Og nú þarf ég ekki að borða annað granatepli fyrr en á næsta ári.

Er ég annars ein um svona æði? Eða eru fleiri sem fá svona dillur?

Merkt , ,

Fyrir ári síðan…

Cochin krydd jan 12

… tók ég þessa mynd í Cochin í Kerala á Indlandi. Það var um það bil fjörutíu stiga hiti, við höfðum verið á ferðinni í tæpan mánuð og áttum enn næstum tvo eftir í ryki og hita og mannmergð og áreiti. Tvo mánuði enn af hælsærum og svita og kuldaskjálfta í næturlestunum og chai-drykkju og thali-áti og ævintýrum og uppákomum, árekstrum og átökum og, svo, í lokin, óléttu.

Ó, Indland. Mikið ertu langt í burtu núna.

Það sem er hins vegar ekki langt í burtu eru myndirnar 930 sem ég á eftir að sortera og gera eitthvað við. Ja, 929 núna. Það væri kannski ráð að fara að gera eitthvað í þeim efnum.

Merkt , , ,
Auglýsingar