Greinasafn merkis: hönnun

Mottur og merkilegheit

Motta, með höfuðstuðningi, eftir Charlotte Ackemar, nema við Konstfack í Svíþjóð.

Í tilefni þess að ég er ekki heima með eyrnabólguveikt barn, eins og ég var handviss um að myndi verða raunin miðað við slappleika umrædds barns í gærkvöldi, verður hér barasta skellt í eina bloggfærslu. Ég á  í einhverju stórskrýtnu sambandi við þetta litla blogg mitt. Ég hugsa oft í viku  að já, heyrðu, ég ætti nú að skrifa um þetta eða hitt… og svo fer ég að gera eitthvað annað. Leggja mig, oft. Fletta Pinterest. Íhuga að pússa á mér neglurnar (sem naglalakkið frá því í nóvember getur vottað að gerist heldur aldrei). En mér líður hins vegar alveg ofboðslega vel að vita af því hérna, litla horninu mínu. Sem verður kannski aðeins líflegra þegar dagarnir mínir fara aftur að hverfast um hvítvoðung (vonandi sofandi) og mjólkurbletti og vetrarsól og svona notalegt kóma.

En nú, í dag, þetta.

Blaðið Wallpaper hefur þrætt útskriftarsýningar og snuðrað í kennslustofum helstu hönnunarskóla heims og safnað saman yfirliti yfir mest spennandi útskriftarnema í hönnun og fleiri skapandi greinum árið 2014. Greinina má lesa hér.

Ég féll aðallega í stafi yfir hönnunarhlutanum, hlutum eins og mottunni hérna að ofan. Og þessum hér líka…

„Bagshelf“ eftir Grischa Erbe frá HFG Karlsruhe.

Þessi snilld hér að ofan er sem sagt hilla sem maður málar á vegginn hjá sér. Málningin inniheldur járnduft, svo seglar festast við hana. Og svo festir maður snagana og hólfin sem fylgja með alveg eftir sínu höfði. Brilljant.

Útimotta eftir Hönnu Anonen, Aalto University í Finnlandi.

Motta til útinotkunar, kjörin til að lífga upp á og gera kaldar finnskar (eða íslenskar!) svalir hlýlegri. Ég myndi ekki slá hendinni á móti einni svona á mínar – þegar ég er búin að ganga frá kössunum og draslinu sem enn prýðir þær eftir flutningana…

„A Mirror Darkly“ eftir Nick Ross í Konstfack í Svíþjóð.

Og þessi fegurð. Spegill sem sækir í kenningu um að á steinöld hafi vatnsskálar verið notaðar sem speglar. Hvað sér maður í svoleiðis spegli? Heillandi, ekki satt?

„Ceramic Stereo“ eftir Victor Johansson frá Central Saint Martins

Kannski fallegasta græja í heimi?

Auglýsingar
Merkt , ,

Óskalistinn og hið óvænta

Já jæja.

Þá eru ekki nema hvað, þrír mánuðir síðan ég ýjaði að því að hér væru einhver stórtíðindi sem ekki mætti segja frá. Sem var alveg rétt. Nú má ég kjafta – eða treysti mér til, öllu heldur. (Ekki það, ég hugsa að vel stærsti hluti lesendahóps þessa litla bloggs viti allt um málið nú þegar og hafi hlustað á mig kvarta og kveina síðustu vikur og mánuði.) En. Tata!

Haldiði ekki að Bessinn okkar Huginn sé að verða stóri bróðir? Ojújú. Lífið tekur stundum af manni völdin og þetta litla líf mætir í heiminn í mars. Meðgangan er rúmlega hálfnuð og ég get sagt að hún er gjörólík þeirri fyrri, af þeirri ástæðu einni að ég hef engan tíma til að hugsa sérstaklega um hana – ég er önnum kafin við að elta Bessa og skila skólaverkefnum. Og svo hef ég líka verið frekar upptekin í öðru persónulegu verkefni, sem ég vil ekki segja frá alveg, alveg, alveg strax, en felur líka í sér stórtíðindi. Og hefur heltekið mig þannig að mig dreymir ekki annað.

Það var nú það sko! Og skýringin á fallega tanntökuleikfanginu á myndinni hér að ofan. Sem er einn af ótal nýjum munum sem ég hef hnotið um á Etsy upp á síðkastið, þegar ég lýg því að sjálfri mér að ég þurfi nú nauðsynlega smá pásu frá lærdómi og að það sé tilvalið að sækja mér jólagjafainnblástur… Hér á eftir fylgja fleiri dæmi – allar myndir linkaðar við uppsprettuna!

 

Dásemdar fiftís náttlampi.

Plakat með mynd af metrókerfinu í Moskvu. Ég elska þessa liti!

Blóma- eða fjaðravasi úr gömlum tilraunaglösum og tilheyrandi statífi. Því miður ekki heimsendur út fyrir Bandaríkin, annars væri ég líklega búin að kaupa hann…

Einn af mörgum dásamlegum, útskornum fuglum í þessari verslun. Myndi sóma sér gríðarvel í barnaherberginu…

Gamaldags stjörnukort. Mér finnst þetta óskaplega fallegt . Og hægt að velja um ljósan eða dökkan við.

Ég er svolítið viðkvæm fyrir of væmnum – eða uppþvottalögslegum – ilmkertum. Þetta finnst mér hljóma ofboðslega vel. Því miður ekki sent út fyrir Bandaríkin. Bú!

Og loks, þessi armbönd, með mikilvægum dagsetningum í rómverskum tölustöfum.

Ég var rétt í þessu að uppgötva að fæðingardagur Bessa yrði ansi snotur: XX X MMXII. Næsti áætlaði dagur, öllu flóknari: XIV III MMXIV.

Ef einhver er jafn Etsy-sjúkur og ég má sá hinn sami auðvitað fylgjast með mér þar sem ég fer hamförum á favortite-takkanum. Hér er ég.

En þið? Og eigið þið uppáhöld á Etsy?

 

Merkt , ,

Fallega óreiðan og agustav

Á  daglegum lesrúnti mínum um uppáhaldsbloggin mín (sem ég er með í sérstakri bókamerkjamöppu hérna hjá mér, af því að mér finnst allt of framúrstefnulegt að nota til þess gerðar þjónustur til að fylgjast með framvindu mála í bloggheimum – og þá kæmi heldur ekkert skemmtilega á óvart þegar uppáhaldsbloggarinn er akkúrat búinn að birta nýja færslu… já, ég er kannski dálítið eftir á) hnaut ég um færslu á A Beautiful Mess.  Þær systur Elsie og Emma (ásamt fríðu föruneyti) skrifa þetta litríka blogg, sem er óþrjótandi uppspretta diy-hugmynda og augnayndis. 

Þær efna þarna til happdrættis í samvinnu við hönnunarmerkið agustav, þar sem lesendur geta unnið þetta fína bókahengi. Þar sem augu mín liðu yfir myndina tók einhver lasburða minnisfruma í afkimum heila míns lítinn kipp: „Noh, er þetta ekki bara alveg eins og kápan á… Bíddu… Og…“ Áttablaðarósin, Sakleysingjarnir og Myrká. Ég finn lykt af íslenskri hönnun. Eins og nafnið agustav hefði ekki átt að ýta aðeins við mér. 

Ég er ekkert merkilegri en aðrir sem fá svona smá sæluhroll yfir því sem vel er gert íslenskt. Og þetta finnst mér afskaplega vel gert. Bókahengin eru til í ýmsum útgáfum; styttri og lengri, úr eik, beyki og hnotu til viðbótar við viðinn hér að ofan sem kallast wenge og ég hef ekki hugmynd um hvað er. 

 

Mikið finnst mér þetta fallegt (Og sjáðu, Málverkið!). Nú á ég náttúrulega slíkt magn af bókum að ef ekki væri fyrir umtalsverða og yfirgripsmikla tetrisþjálfun mína á yngri árum (sko mamma, það kom að því að tölvuhangsið nýttist mér!) væri ekki séns að koma þeim fyrir í bókahillunum mínum. Þannig að ég get alveg gleymt þessari útfærslu held ég.

En! Ekki er öll von úti. Agustav gerir nefnilega líka þessi dásamlegu fatahengi. 

 

Hengið kemur með fimm hönkum – fjórum viðarlitum og einum í lit, en mér sýnist nú að það megi líka alveg koma með séróskir um litasamsetningu – sem er hægt að færa fram og til baka að vild.

 

Agalega fínt, þykir mér. 

Fariði svo og gleymið ykkur aðeins hjá þeim systrum. Þar er gott að vera, í fallegu óreiðunni. 

Merkt , , , ,

Ljúflingurinn Paul

sweet1

Ljúflingurinn Paul, eða Sweet Paul eins og hann kallar sig, heldur úti ansi hreint fagurri heimasíðu. Hún byrjaði sem öllu umsvifaminna blogg fyrir nokkrum árum síðan, og mig rámar í hana þannig. Paul, sem er norskur að uppruna en býr og starfar í New York, er „craft“- (hvað heitir það á íslensku?) og matarstílisti og byrjaði að blogga til þess að geta deilt verkum sínum með aðeins stærri hóp en annars fékk notið þeirra. Bloggið vatt upp á sig þannig að úr varð ársfjórðungslegt rit, Sweet Paul Magazine, þar sem hann fær til liðs við sig fjöldann allan af hæfileikaríku fólki. Afraksturinn er svona þokkaleg innblásturssprengja fyrir fólk eins og mig, sem kann að meta punt og fínerí, blóm og kökur og allt sem er huggulegt í lífinu.

Nýjasta ritið kom út nú fyrir helgi. Það má lesa á netinu hér, eða, ef maður er alveg æstur, panta í áþreifanlegra formi. Ég mæli með því, svona með rjúkandi kaffibolla og helst einhverju sætu við höndina. Annars þolir maður ekki við. Ekki ég, að minnsta kosti. En svo er ég líka týpan sem vil helst fá eftirrétt eftir morgunmatinn.

sweet2

springdesk1imac

Merkt , , , , , ,

Allir elska ull

 

 

Það jaðrar við að vera ósmekklegt hvað mig langar í þessa tölvutösku. Sú sem ég læt mig hafa að stinga djásninu mínu í svona dags daglega er úr einhverju sægrænu frauðplastsdrasli og skartar, eftir um fjögurra ára notkun, bæði  kaffiblettum og puttaförum sem fara ekki fet, sama hvað ég reyni að losna við þau. Þetta djásn, aftur á móti, er gert úr gömlu Pendleton-ullarteppi, en ég er agalega hrifin af þeim. Svo er hún fóðruð að auki til að tryggja öryggi tölvunnar. Fæst í þessari Etsy-búð hér, sem er reyndar líka með frekar snotur pennaveski úr Pendletonum. Já, og hulstur fyrir iPad og Kindle og svo framvegis og framvegis… Allir elska ull, er það ekki? Líka tæknin!

Merkt , ,

Artifact Uprising: gerðu ljósmyndabók á netinu

Ég hef lengi ætlað mér að búa til ljósmyndabók úr einhverjum af þeim skrilljón og þremur ljósmyndum sem ég á hérna í tölvunni minni. Mér líður stundum eins og hún sé tifandi tímasprengja: hvað ef einhver brýst inn og stelur henni eða hún bara geispar golunni, eins og tölvur gera jú stundum? Þar með myndu tvö löng Asíuferðalög og fyrstu fjórir mánuðir Bessa bara hverfa. Það er hörmuleg, hræðileg tilhugsun.

Það er ár og öld síðan ég halaði niður Blurb-forritinu með það í huga að fara að klambra saman bók, en svo varð einhvern veginn aldrei af því. Kannski af því að ég opnaði forritið og skildi ekki strax hvernig það virkar. Nú held ég að ég hafi fundið enn betri kost. Artifact Uprising gerir manni kleift að hanna bækurnar beint á netinu, verðið sýnist mér vera alveg hreint ágætt og miðað við það sem maður sér af lokaútkomunni á síðunni þeirra eru þetta mjög fallegar bækur.

Það er hægt að panta hefðbundnar ljósmyndabækur, en svo er líka boðið upp á sérstakar instagram-bækur, sem er nú ekki ósniðugt. Ég held að ég sé ekki ein um að teygja mig  frekar í símann en myndavélarhlunkinn, þó ég sé nú stöðugt að reyna að taka mig á í þeim efnum.

 

Ég kíkti á kennslumyndböndin þeirra tvö á Vimeo (hér og hér) og fæ ekki betur séð en að sýstemið sé afskaplega aðgengilegt og auðvelt í notkun. Þá er það ákveðið. Ég SKAL ganga í þetta mál.

Merkt , , ,

Sestu hjá mér

Síðustu daga hef ég hangið á Blandinu (sem ég kalla ennþá Barnaland, er ég ein um það?) í von um að finna þar sófa fyrir risið okkar huggulega. Eða sko, risið sem verður vonandi huggulegt núna alveg á næstunni, þegar það fær loksins einhverja lágmarks athygli. Það mætti algjörum afgangi þegar við hreiðruðum um okkur á Klapparstíg. Þar er núna einhvers konar óskilgetið afsprengi sófa og sumarbústaðabedda með ljótasta áklæði sem ég hef á ævi minni séð, keyptur á þrjú þúsund krónur í algjörri skítareddingu kortér í fæðingu. Eða svona hérumbil. Ég er hins vegar á höttunum eftir kúrisófa sem við fjölskyldan litla getum kúldrast og knúsast í næstu árin, og hann má gjarnan vera aðeins meira fyrir augað en þessi vanskapnaður sem nú á heima í risinu. Kúrisófann hef ég ekki enn fundið á Blandinu.

Í staðinn hef ég fundið sófa sem mig langar í niður í borðstofu/stofu/altmúligt rýmið okkar á neðri hæðinni. Þennan fína gula hérna að ofan fann ég á heimasíðu verslunarinnar Módern, sem ég hef reyndar aldrei gerst svo fræg að heimsækja. Coogee heitir gripurinn, frá franska merkinu Sentou. Hann er líka til gullfallega blár og grár, tveggja og þriggja sæta.

Ég asnaðist til að halda svo áfram að skoða svona puntsófa, sem myndu smellpassa niður í opna rýmið okkar, þar sem við verjum bróðurparti daganna. Hugsiði ykkur bara, að hreiðra um sig í einhverjum af þessum sófum, með morgunkaffibollann og blaðið á meðan Bessi æfir sig í að velta sér á alla kanta á teppi á gólfinu. Og sólin skín og helgarblómin standa enn keik og það er plata á fóninum sem snýr sér sjálf við og nuddkonan mín er á leiðinni upp stigann og barnið er farið að sofa í ellefu tíma samfleytt á nóttunni. Hvað, ég er að láta mig dreyma hérna! Puntsófi er að minnsta kosti engan veginn í forgangi á innkaupalista heimilisins, svo ég fæ bara útrás hér í staðinn…

Þessi er frá Ilvu, líka til skærbleikur (ólíklegt að ég fái það í gegn…) og fjólublár. Hann er samt þriggja sæta og því líklega ívið stór.

Wilmot-sófinn frá Habitat finnst mér ægilega fínn.

Þessi er líka ansi snotur, með líflegri púðum en þessum litlu pullum þarna, en hann er uppseldur hjá Tekk Company. Sem ég hef nota bene ekki heldur heimsótt síðustu tíu árin eða svo. Ég ætti kannski að fara að víkka sjóndeildarhringinn út fyrir Ikea og flóamarkaðina? Jæja, aftur í blandið.

Merkt , , ,

Vaknaðu

Þetta. Er. Snilld. Vekjaraklukku-dock (er til íslenskt orð fyrir það?) fyrir iPhone. En ofboðslega snoturt! Því miður uppselt, sýnist mér, en það má vonast eftir nýrri sendingu…

Við gerðum heiðarlega tilraun til að nota aktúal vekjaraklukku í staðinn fyrir símana okkar hérna um daginn. Hún fór þannig að klukkan flaug í gólfið og laskaðist aðeins og allir fengu vægar hjartsláttartruflanir sökum hávaða. Klukkan sú hefur nú það eina hlutverk í lífinu að leiða mig í allan sannleika um á hvaða ókristilega tíma ég er að vakna um miðjar nætur til að gefa bolludreng að drekka. Hann er sem betur fer orðinn svo snöggur að ég er hætt að telja mínúturnar með grátstafinn í kverkunum. Ég hugsa einhvern veginn að þegar fram líða stundir muni ég þróa með mér óbeit á blessaðri klukkunni. Þetta dokk má þá alveg leysa hana af.

p.s. Í öðrum fréttum er þetta algerlega dásamlegur pistill frá Láru Björg, fyndnustu konu Íslands? Hóhóhó hvað ég hló.

Merkt , , ,

Elsku Etsy, pt.1

Þær eru ófáar, tímagleypasíðurnar á internetinu góða. Ég get týnt nokkrum tímum í einu í að rápa á milli verslana á Etsy. Þegar ég finn verslun sem mér finnst æði kíki ég nefnilega alltaf á hvaða vörur og verslanir hún hefur merkt sem uppáhalds – og þannig koll af kolli þangað til ég ranka allt í einu við mér og á að vera löngu farin að sofa. Þessir gripir hafa ratað í mín uppáhöld á Etsy upp á síðkastið – og sumt jafnvel á Pinterest, sem er önnur og ekki síðri tímagleypasaga. (Hér er ég annars á Pinterest)

Juniper Green Leather Bangles with Gold or Silver Tubes - Leatherwraps

Leðurarmbönd frá versluninni Leatherwraps.

Expired Two - InTheGreyprintshop

Draumalandslag frá InTheGreyprintshop.

Cosmos Two Pack Ursa Major and Ursa Minor - lovecalifornia

Bjarnarpúðar með stjörnumerkjunum Litla birni og Stóra birni frá versluninni love, california. Ég er nefnilega orðin frekar veik fyrir öllu bangstengdu síðan sonur minn fékk nafnið Bessi.

Gemstone Nail Polish Black Onyx - GemstoneNailPolish

Naglalakk með ónyx frá Gemstone Nail Polish. Þessi seljandi býr til naglalökk með muldum eðalsteinum! Mér finnst það magnað. Þetta væri mjög skemmtileg gjöf, maður gæti þá valið bæði lit og stein með eiginleikum sem henta viðtakandanum.

Crow 16 k gold beak - Porcelainskulls

Krákukúpa úr postulíni með 18k gull-goggi frá Beetle and Flor.

Anatolian Turkish Rug Pillow Cover - mothersatelier

Púði úr endurunninni (hvað eru mörg n í því?) tyrkneskri kilim-mottu frá mother’s atelier.

Merkt , , ,

Moderna Museet og Svíafílía

Það er kannski rétt það komi fram hér og nú að ég er Svíafíll. Hvað það er? Jú, ég er með Svíafílíu – elska flest allt sem sænskt er. Já, líka Ikea. Og að vera svo sjúklega skipulagður að maður býður fólki í þrítugsafmælið sitt þegar það er að reima á sig skóna á leiðinni úr tuttugu og níu ára gillinu. Nú er ég reyndar ekki svo skipulögð, en mér hlýnar um hjartaræturnar yfir því að það sé til svona fólk. Ég bjó í landinu í fjögur ár og mamma mín og bróðir búa þar enn, svo Svíafílíunni er vel við haldið.

Formála lokið.

Moderna Museet í Stokkhólmi er á meðal þess fjölmarga góða sem sænskt samfélag hefur getið af sér (Hafið þið smakkað Marabou-súkkulaði með karamelliseruðum möndlum og sjávarsalti? Ég býst fastlega við því að nýjum flokki Nóbelsverðlauna verði hleypt af stokkunum á næstunni). Safnið sjálft er flott, en vefverslunin höfðar sérstaklega til mín. Þar fást og hafa fengist hrikalega mörg fín plaköt í gegnum tíðina. Þessi, til dæmis:

Svo væru þessi nú ekki ljót í barnaherbergið þegar fram líða stundir og Bessi flytur út úr svefnherberginu okkar, en þau eru öll eftir Ingelu P. Arrhenius:

Efst á óskalistanum er þó eiginlega kakóaugnaplakatið góða. Ég hélt það fengist í vefversluninni, en svo er víst ekki. Það er hins vegar hægt að panta það frá þessari verslun hér og fá sent í pósti innan Svíþjóðar. Kannski senda þau líka út fyrir landssteinana.

Merkt , , ,
Auglýsingar