Greinasafn merkis: heilsa

Start as you mean to go on

morgunmatur

Morgunmatur: mikilvægasta máltíð dagsins, segja þeir. Og ég er loksins sammála. Eftir að hafa reynt að pína þennan þýðingarmikla málsverð ofan í mig árum saman, þrátt fyrir að algeran skort á matarlyst á morgnana, virðist gæfan hafa snúist mér í hag. Kannski er ég orðin fullorðin. Og kannski lærði ég bara að gera svo hrikalega girnilegan morgunverð að það er ógerningur að fúlsa við honum.

Ég sver að þetta er það besta í heimi og hlægilega þægilegt í framkvæmd líka. Gerðu hafragraut. Þegar hann er tilbúinn, taktu hann af hellunni og hrærðu út í hann einni matskeið af hnetusmjöri og smá kanilklípu. Sáldraðu yfir hann frosnum bláberjum (íslensk eru langsamlega best, en bónusberin duga). Stráðu því yfir sem þér finnst gott og gerir þér gott. Ég nota möluð hörfræ, því þannig nýtast þau líkamanum betur, chia-fræ, valhnetur og tvær döðlur sem ég klíp í sundur í hæfilega bita. Hollt og yfirgengilega gott.

Og þá getur dagurinn ekki annað en orðið góður, þegar maður byrjar hann á því að nostra svona við eigin líkama – ekki síst bragðlauka. Ekki satt?

Auglýsingar
Merkt ,

Náttúrulegur nammigrís

nammi5

Ég heiti Sunna og ég er gotteríisgrís. Ég er fyrir löngu búin að gefa þá von upp á bátinn að það muni nokkru sinni breytast. Í hvert skipti sem ég heyri tölur yfir hvað Íslendingar innbyrða af sælgæti, gosi og öðru sukki á ári hverju fæ ég sting í magann og kreisti aftur augun og fer að telja kindur eða rifja upp trúarjátninguna – allt til að forðast að hugsa um hversu stórum hluta þeirrar neyslu ég er ábyrg fyrir, svona prívat og persónulega! Í seinni tíð hef ég þó smátt og smátt fikrað mig fjær blandípokanu og nær náttúrulegri sætindum. Og hér er lausnin á sætindalöngun komin. Þetta náttúrulega nammi er svo gott að það skákar öllum bingókúlum og hlaupböngsum þessa heims.

nammi2

Grunnuppskriftin er héðan. Ég hef svo fiktað dálítið í henni eftir því hvað ég hef átt í skápunum hverju sinni.

Að þessu sinni var hún svona:

1 bolli blandaðar valhnetur og kasjúhnetur (líklega 70% valhnetur)

1 + 1/3 bolli ferskar döðlur

1 tsk vanilla

1 klípa sjávarsalt (smakkið til!)

3 msk gott kakó

2 msk kakónibbur

Aðferðin gerist ekki einfaldari: blandið öllu saman í matvinnsluvél þar til úr verður klístrað deig. Ég nota yfirleitt fersku döðlurnar með steinunum í – sem ég fjarlægi auðvitað – en hef líka notað þær í pokunum frá Himneskri hollustu. Þá þarf líklega að bæta smá vatni út í svo deigið loði saman, en bara örlitlu í einu. Annars skiptir höfuðmáli að nota gott kakó! Ég kaupi Green & Black’s í Heilsuhúsinu.

nammi4

Rúllið litlar kúlur úr deiginu og setjið í lítil konfektform. Eða, raðið á bökunarpappír og setjið í eitthvað geymsluílát, ef þið gleymduð að kaupa formin eins og ég. Geymið í ísskáp og laumist samviskulaust í dunkinn þegar sætindaþörfin lætur á sér kræla.

nammi3

nammi6

Bon appetit!

Merkt , , ,
Auglýsingar