Greinasafn merkis: flateyri

Ljúfa líf, ljúfa líf

Hvað haldiði, ég er komin aftur. Í borgina, í netsamband, í hversdaginn. Og ég nýt þess alla leið fram í fingurgóma. Ég sver það, ég er með svona vellíðunartilfinningu í öllum líkamanum. Meira að segja táneglurnar eru einhvern veginn malandi af sælu.

Ég er algjörlega sannfærð um að það gerir manni ekkert nema gott að fara aðeins út fyrir þægindarammann. Lifa án alls þess lúxus sem við erum orðin svo vön í okkar daglega lífi að við gerum okkur ekki grein fyrir því að hann sé einmitt, lúxus. (Þetta hljómar voðalega heilagt, en ég tók  með mér bæði matvinnsluvél og blandara vestur, bara svo því sé haldið til haga. Ég er enginn jógi sko.) Ég meina það. Dvöl okkar fyrir vestan núna var öll í sumarbústaðafíling, eins og sumarbústaðir voru þegar ég var lítil. Sem sé ekki með leðursófasetti og flatskjá, heldur gömlu leirtaui úr öllum áttum, engri brauðrist og sængurfötum sem það var einhvern veginn alltaf einhver smá bústaðalykt af. Þannig stemning. Ekkert útvarp, engin brauðrist, ekkert internet, engin þvottavél. Sem þýddi að ég hlustaði meira á tónlist, eða sat úti á palli og hlustaði á sönginn í fjöllunum og gjálfrið í öldunum, og bauð mér í þvottavélakaffi hingað og þangað. Í staðinn fyrir að hanga á internetinu á kvöldin hékk ég yfir garðvegginn á tali við nágrannana, með kaffibolla eða rauðvínsglas. Og fann upp hugtakið rústaðbrauð, yfir sneiðarnar sem voru ristaðar undir grillinu í ofninum.

En jafn hollt og gott og það er að vera þvottavélar- og internetlaus í tvo mánuði get ég ekki lýst því hvað það er yndislegt að koma heim aftur. Í internet, samstætt leirtau, velilmandi þvott, fjölskyldumyndir, bókahillurnar… Neglurnar syngja, ég er að segja ykkur það. Það þrátt fyrir að Klapparstígurinn sé eitt flakandi sár vegna vegavinnu og gröfur og loftpressur hamist fyrir utan gluggann minn allan daginn. Og þrátt fyrir að á framkvæmdalista dagsins sé að fara með bílinn í bremsuklossaskipti og sækja sendingu í flugfraktina. Ekki mest spennandi í heimi, en ég brosi nú samt hringinn.

Ah, ljúfa líf, ljúfa líf.

Myndin er ein af grilljón sem ég hef pinnað á Pinterest, en upphaflega héðan.

Auglýsingar
Merkt , , ,

Sumar í skál

Ég er á Flateyri. Hér er enn snjór í sköflum. Jess.

Ég er opinberlega komin með nóg af þessu vetrarveseni og til í sumarið. Núna. Mig langar í nýjar freknur og að svitna aðeins á nefinu undan sólgleraugunum, sitja á pallinum við Sveinshús og spjalla og sötra svaladrykk eða sleikja í mig ís eins og makindalegur köttur.

Mmm. Ís. Sumar í skál.

Tveimur dögum áður en við fórum úr Reykjavíkinni uppgötvuðum við Atli að það er svona frosin-jógúrt-sjoppa í göngufæri við okkur. Við grétum bitrum tárum ofan í dásamlega jógúrtina yfir því að við værum að fara og yrðum að vera án hennar í sumar. Eftir að hafa fundið afsökun til að fara þangað þrisvar á þessum tveimur dögum ákvað ég snarlega að líta á það blessun að við værum að fara – annars værum við bæði líklega nú þegar búin að bæta á okkur eins og fimm kílóum.

Roasted Strawberry Coconut Milk popsicle

Og nú sit ég hér, í snjónum á Flateyri, og læt mig dreyma um frosna jógúrt og heimagerða kókosmjólkuríspinna og bananabláberjaís og allt þetta fáránlega girnilega sem ég hef pinnað eða búkkmarkað í gegnum tíðina og skrolla nú í gegnum og slefa yfir. 

Ég hugsa að ég splæsi í ísvél á eldhúshjálpina mína þegar við komum heim aftur. Já.

Myndir eru linkaðar við upprunafærslur. Hvert og eitt þessara blogga er svo alveg gjörsamlega þess virði að týna sér í. Hvað hafið þið betra við tímann að gera? Ég er í þessum skrifuðum orðum límd við Oh, Ladycakes. (Ekki bara svona áhugavert-límd, meira svona æ-úps-tungan–föst-við-tölvuskjáinn límd. Eða næstum því. Ég meina, hvaða rugl er þetta?)

Ís.

Mmmm.

Merkt , , , ,

Ég ♥ Flateyri

Flateyri 4

Flateyri 6

Flateyri 7

Á sunnudaginn pökkum við í bílinn, sendum smá bæn til æðri valda þess efnis að Bessinn haldi sönsum, og leggjum í hann á Flateyri, þar sem við ætlum að vera út júní. Ég og Bessi förum reyndar í húsmæðra&barnaorlof til mömmu í Svíþjóð í tvær vikur, en annars er það eyrin. Elsku eyrin.

Flateyri 8

Flateyri 5

Flateyri 1

Nú eru þrjú ár síðan ég kom þangað fyrst, eftir að hafa ráðið mig í sumarvinnu í gamalli bókabúð þar sem notaðar bækur eru seldar eftir vigt og loftið ilmar af menningu. Þið vitið, svona rykfallinni menningu. Og Gufan er alltaf á. Þrjú sumur sat ég í bókabúðinni á daginn, drakk kaffi og hlustaði á útvarp og prjónaði og talaði við gesti sem elska líka bækur; sýndi þeim íbúðina þar sem kaupmannshjónin bjuggu og tíminn hefur staðið í stað; rýndi í litbrigði himinsins; talaði meira og kynntist fastagestum sem ég á eftir að sakna; lærði á gólfið og hvar það brakar; rak nágrannakettina reglulega út þegar þeir höfðu gert sig heimankomna í dýrmætum sófa; og las, las, las, las.

Flateyri 2

Massastaðagrill2

Þetta sumar verður dálítið öðruvísi. Ég verð til dæmis ekki í bókabúðinni, heldur í næsta húsi. Atli verður að vinna á Vagninum og ég verð í Bessaleyfi (get it?). Og ég verð ekki á Vagninum öll kvöld, að súpa á bjór og ræða heimsmálin úti á palli á meðan miðnætursólin neitar að fara að sofa. En ég verð á Flateyri. Þar sem júní er svo bjartur að það er nóg til að halda á manni hita yfir alla hina mánuðina. Þar sem ég þekki hverja holu á veginum út að Klofningi, klettinum þar sem álfarnir hópast að manni og fylla mann orku. Þar sem loftið er ferskast, vatnið tærast, fjöllin sönnust. Og allir dagar eru góðandaginndagurinn.

Massastaðagrill3

Massastaðagrill5

Massastaðagrill

Ó, ég hlakka til. Björtu nætur, fersku vindar, syngjandi strá, skemmtilega fólk, ilmandi blóðberg  – hér kem ég.

Flateyri 9

Merkt , , , ,
Auglýsingar