Greinasafn merkis: design

Mottur og merkilegheit

Motta, með höfuðstuðningi, eftir Charlotte Ackemar, nema við Konstfack í Svíþjóð.

Í tilefni þess að ég er ekki heima með eyrnabólguveikt barn, eins og ég var handviss um að myndi verða raunin miðað við slappleika umrædds barns í gærkvöldi, verður hér barasta skellt í eina bloggfærslu. Ég á  í einhverju stórskrýtnu sambandi við þetta litla blogg mitt. Ég hugsa oft í viku  að já, heyrðu, ég ætti nú að skrifa um þetta eða hitt… og svo fer ég að gera eitthvað annað. Leggja mig, oft. Fletta Pinterest. Íhuga að pússa á mér neglurnar (sem naglalakkið frá því í nóvember getur vottað að gerist heldur aldrei). En mér líður hins vegar alveg ofboðslega vel að vita af því hérna, litla horninu mínu. Sem verður kannski aðeins líflegra þegar dagarnir mínir fara aftur að hverfast um hvítvoðung (vonandi sofandi) og mjólkurbletti og vetrarsól og svona notalegt kóma.

En nú, í dag, þetta.

Blaðið Wallpaper hefur þrætt útskriftarsýningar og snuðrað í kennslustofum helstu hönnunarskóla heims og safnað saman yfirliti yfir mest spennandi útskriftarnema í hönnun og fleiri skapandi greinum árið 2014. Greinina má lesa hér.

Ég féll aðallega í stafi yfir hönnunarhlutanum, hlutum eins og mottunni hérna að ofan. Og þessum hér líka…

„Bagshelf“ eftir Grischa Erbe frá HFG Karlsruhe.

Þessi snilld hér að ofan er sem sagt hilla sem maður málar á vegginn hjá sér. Málningin inniheldur járnduft, svo seglar festast við hana. Og svo festir maður snagana og hólfin sem fylgja með alveg eftir sínu höfði. Brilljant.

Útimotta eftir Hönnu Anonen, Aalto University í Finnlandi.

Motta til útinotkunar, kjörin til að lífga upp á og gera kaldar finnskar (eða íslenskar!) svalir hlýlegri. Ég myndi ekki slá hendinni á móti einni svona á mínar – þegar ég er búin að ganga frá kössunum og draslinu sem enn prýðir þær eftir flutningana…

„A Mirror Darkly“ eftir Nick Ross í Konstfack í Svíþjóð.

Og þessi fegurð. Spegill sem sækir í kenningu um að á steinöld hafi vatnsskálar verið notaðar sem speglar. Hvað sér maður í svoleiðis spegli? Heillandi, ekki satt?

„Ceramic Stereo“ eftir Victor Johansson frá Central Saint Martins

Kannski fallegasta græja í heimi?

Auglýsingar
Merkt , ,

Fallega óreiðan og agustav

Á  daglegum lesrúnti mínum um uppáhaldsbloggin mín (sem ég er með í sérstakri bókamerkjamöppu hérna hjá mér, af því að mér finnst allt of framúrstefnulegt að nota til þess gerðar þjónustur til að fylgjast með framvindu mála í bloggheimum – og þá kæmi heldur ekkert skemmtilega á óvart þegar uppáhaldsbloggarinn er akkúrat búinn að birta nýja færslu… já, ég er kannski dálítið eftir á) hnaut ég um færslu á A Beautiful Mess.  Þær systur Elsie og Emma (ásamt fríðu föruneyti) skrifa þetta litríka blogg, sem er óþrjótandi uppspretta diy-hugmynda og augnayndis. 

Þær efna þarna til happdrættis í samvinnu við hönnunarmerkið agustav, þar sem lesendur geta unnið þetta fína bókahengi. Þar sem augu mín liðu yfir myndina tók einhver lasburða minnisfruma í afkimum heila míns lítinn kipp: „Noh, er þetta ekki bara alveg eins og kápan á… Bíddu… Og…“ Áttablaðarósin, Sakleysingjarnir og Myrká. Ég finn lykt af íslenskri hönnun. Eins og nafnið agustav hefði ekki átt að ýta aðeins við mér. 

Ég er ekkert merkilegri en aðrir sem fá svona smá sæluhroll yfir því sem vel er gert íslenskt. Og þetta finnst mér afskaplega vel gert. Bókahengin eru til í ýmsum útgáfum; styttri og lengri, úr eik, beyki og hnotu til viðbótar við viðinn hér að ofan sem kallast wenge og ég hef ekki hugmynd um hvað er. 

 

Mikið finnst mér þetta fallegt (Og sjáðu, Málverkið!). Nú á ég náttúrulega slíkt magn af bókum að ef ekki væri fyrir umtalsverða og yfirgripsmikla tetrisþjálfun mína á yngri árum (sko mamma, það kom að því að tölvuhangsið nýttist mér!) væri ekki séns að koma þeim fyrir í bókahillunum mínum. Þannig að ég get alveg gleymt þessari útfærslu held ég.

En! Ekki er öll von úti. Agustav gerir nefnilega líka þessi dásamlegu fatahengi. 

 

Hengið kemur með fimm hönkum – fjórum viðarlitum og einum í lit, en mér sýnist nú að það megi líka alveg koma með séróskir um litasamsetningu – sem er hægt að færa fram og til baka að vild.

 

Agalega fínt, þykir mér. 

Fariði svo og gleymið ykkur aðeins hjá þeim systrum. Þar er gott að vera, í fallegu óreiðunni. 

Merkt , , , ,

Sestu hjá mér

Síðustu daga hef ég hangið á Blandinu (sem ég kalla ennþá Barnaland, er ég ein um það?) í von um að finna þar sófa fyrir risið okkar huggulega. Eða sko, risið sem verður vonandi huggulegt núna alveg á næstunni, þegar það fær loksins einhverja lágmarks athygli. Það mætti algjörum afgangi þegar við hreiðruðum um okkur á Klapparstíg. Þar er núna einhvers konar óskilgetið afsprengi sófa og sumarbústaðabedda með ljótasta áklæði sem ég hef á ævi minni séð, keyptur á þrjú þúsund krónur í algjörri skítareddingu kortér í fæðingu. Eða svona hérumbil. Ég er hins vegar á höttunum eftir kúrisófa sem við fjölskyldan litla getum kúldrast og knúsast í næstu árin, og hann má gjarnan vera aðeins meira fyrir augað en þessi vanskapnaður sem nú á heima í risinu. Kúrisófann hef ég ekki enn fundið á Blandinu.

Í staðinn hef ég fundið sófa sem mig langar í niður í borðstofu/stofu/altmúligt rýmið okkar á neðri hæðinni. Þennan fína gula hérna að ofan fann ég á heimasíðu verslunarinnar Módern, sem ég hef reyndar aldrei gerst svo fræg að heimsækja. Coogee heitir gripurinn, frá franska merkinu Sentou. Hann er líka til gullfallega blár og grár, tveggja og þriggja sæta.

Ég asnaðist til að halda svo áfram að skoða svona puntsófa, sem myndu smellpassa niður í opna rýmið okkar, þar sem við verjum bróðurparti daganna. Hugsiði ykkur bara, að hreiðra um sig í einhverjum af þessum sófum, með morgunkaffibollann og blaðið á meðan Bessi æfir sig í að velta sér á alla kanta á teppi á gólfinu. Og sólin skín og helgarblómin standa enn keik og það er plata á fóninum sem snýr sér sjálf við og nuddkonan mín er á leiðinni upp stigann og barnið er farið að sofa í ellefu tíma samfleytt á nóttunni. Hvað, ég er að láta mig dreyma hérna! Puntsófi er að minnsta kosti engan veginn í forgangi á innkaupalista heimilisins, svo ég fæ bara útrás hér í staðinn…

Þessi er frá Ilvu, líka til skærbleikur (ólíklegt að ég fái það í gegn…) og fjólublár. Hann er samt þriggja sæta og því líklega ívið stór.

Wilmot-sófinn frá Habitat finnst mér ægilega fínn.

Þessi er líka ansi snotur, með líflegri púðum en þessum litlu pullum þarna, en hann er uppseldur hjá Tekk Company. Sem ég hef nota bene ekki heldur heimsótt síðustu tíu árin eða svo. Ég ætti kannski að fara að víkka sjóndeildarhringinn út fyrir Ikea og flóamarkaðina? Jæja, aftur í blandið.

Merkt , , ,
Auglýsingar