Uppskrift að hamingju

Ströndin

 

Ég lifi. Og við öll.

Síðustu tvær vikur hafa verið ansi hreint viðburðaríkar og yfirmáta æðislegar, eiginlega. Bessinn er byrjaður á leikskóla, hjá dásamlegustu leikskólakennurum sem maður gæti óskað sér. Tíu sekúndna grátkastið þegar foreldrarnir skilja hann eftir á morgnana er samt ekki beint til þess fallið að efla geðheilsuna neitt sérstaklega, en þá er gripið til möntrunnar þettaverðuralltílagiþettaverðuralltílagimammafóraðvinnaþegarégvarþriggjamánaða. Vonum að hún haldi áfram að virka og að grátköstin hætti. Sem fyrst, takk.

Bessinn kominn á leikskóla, og ég (enn og) aftur í minn skóla. Ætli ég gangi ekki aftur í Árnagarði þegar að því kemur. Og þessar tvær vikur hafa verið dásamlegar. Ég er sem sé ekki kona sem gæti verið heima með barn árum saman. Eða, jú, gæti eflaust, en það er ekki uppskrift að minni hamingju. Þetta, að fá að verja deginum í eitthvað krefjandi og erfitt og fyrir vikið hrikalega skemmtilegt, og fá svo að sækja Bessann minn og njóta hverrar einustu mínútu sem eftir lifir dags með honum, frá því að við vinkum bless á leikskólanum og þangað til augun í honum ranghvolfast í mömmufangi á meðan við syngjum bíum bíum bambaló. Það er mín uppskrift.

Í öðrum fréttum verð ég þrítug eftir tíu daga. Spes.

Jájá.

Ég ætla að nýta tímann og læra ögn á meðan Bessinn lúrir. Áður en ég tek aftur til við að njóta hans, slúbbertsins míns með leikskólahorið, sem streðar nú við að standa upp við allt og ekkert og er orðinn sérlegur áhugamaður um uppþvottavélar. Molinn minn.

 

 

 

Auglýsingar
Merkt , ,

Lífið er það sem gerist

Það er svo margt sem ég vil segja; núna, núna strax. En ég verð að sitja á mér enn um sinn. Þið vitið hvað Kaninn segir: Life’s what happens while you’re busy making other plans. Sá sannleikur hefur bara aldrei átt jafn óskaplega vel við mig og mitt líf.

Sem er gott. Lífið, sko. Og margt, margt spennandi framundan.

Eftir þrjár vikur förum við til Svíþjóðar, litla fjölskyldan. Ég hlakka barnslega mikið til. Bessa bíður lítil buslulaug í ömmugarði, og mín og Atla bíður hengirólan. Stór tré með laufi sem bærist í golunni, svignandi matjurtir, ilmandi gróðurhús og dásamlegur félagsskapur. Kannski, ef við erum hugrökk og veðrið er ennþá sumarheitt, verður fleiru en tám dýft í sjóinn.

Þegar við komum heim tekur uppáhaldsárstíðin mín við. Haustið. Ég elska haustið. Sérstaklega elska ég að byrja í skóla að hausti. Og ég er einmitt að byrja í skóla í haust. Ég komst inn í draumanámið mitt, meistaranám í ritlist. Í tvö ár fæ ég að „vinna“ við að skrifa, lesa, lifa og hrærast í bókmenntum og skrifum og pælingum og hræringum. Hvílík forréttindi. Ég fæ bæði fiðrildi og pínu illt í magann af að hugsa um það, og það er allra besta tilfinningin. Að vera bæði yfir mig spennt og ofboðlítið smeyk. Þá veit maður að það er þess virði.

Í sömu viku byrjar Bessi á leikskóla. Litli, stóri strákurinn minn. Miðað við taumlausa gleði hans og áhuga í hvert skipti sem á vegi okkar verður barn á svipuðum aldri og hann held ég að það verði ekki stórt vandamál. Að minnsta kosti ekki fyrir hann. Ég á kannski eftir að eiga erfiðara með mig…

Í lok september verð ég þrítug. Eftir nokkra umhugsun hvarf ég frá plönum um stórbrotna veislu með besta næntís-playlista sögunnar. Í staðinn pökkum við Atli niður í töskur og látum okkur hverfa yfir helgi í október, leyfum ömmum og öfum að hamast við að dekra við Bessa á meðan við dólum okkur um Parísarstræti, nýtum öll tækifæri til að setjast niður og gæða okkur á einhverju góðgætinu og tölum frá okkur allt vit við Signu. Og sofum. Í hótelrúmi. Frameftir!

Lífið. Það er gott. Gottgottgott.

Nú ætla ég út í sólina.

Ps. Myndin er eftir Irene Suchocki, hverrar etsy-verslun má skoða hér. Hún er draumur. Og myndina sjálfa má kaupa hér.

Merkt , , , , , ,

Wanderlust: Seattle til San Francisco

Rainier National Park [EXPLORED #279]

Fyrir utan vinnu hefur síðustu vikuna verið lítill tími aflögu til annars en að sinna hnybbnum dreng (sem hefur hlotið viðurnefnið hákarlinn vegna fjölda tanna sem spýtast nú niður úr gómnum). En annríkið kemur ekki í veg fyrir að hugurinn reiki, ónei. Og minn hugur hefur reikað sérstaklega í eina átt, yfir hálfan hnöttinn hérumbil. Í hjáverkum er ég þess vegna búin að plana fjölskylduferð sem vonandi verður að veruleika á næsta ári. Eða þarnæsta.

Mig hefur lengi langað að fara í road trip um Bandaríkin, eins og svo ótalmarga. Ég nenni hins vegar engan veginn að þeysast áfram og hafa ekki tíma til að bregða út frá ferðaplani, mér alveg hreint svínleiðast þannig ferðir. Atla sömuleiðis. (Bessi hefur ekki tjáð sig um málið þegar þetta er ritað). Við erum þess vegna sammála um að það væri hreinasta bilun að ætla að ná öllum Bandaríkjunum í einu – ja, nema þá við vinnum í sitt hvoru lottóinu og getum tekið ársfrí frá störfum. Sem ég er einmitt alltaf að bíða eftir.

Þessi draumaferð hér yrði því bara fyrsti leggur af mörgum. Mér reiknast til að hægt væri að dóla sér þessa leið í mjög maklegum takti á þremur vikum, með góðum stoppum í borgunum (og jafnvel millilendingu í New York? Hmm.) Planið er svona, en hafa ber í huga að það er enn mjög grófstappað: Flogið til Seattle. Nokkrir dagar í af-jetlöggun og borgarskoðun. Þá er pakkað niður og haldið út í náttúrufegurðina í einhverjum af þjóðgörðum svæðisins. Við gætum skoðað Rainier-þjóðgarðinn (sjá mynd að ofan), til dæmis, og San Juan eyjarnar, sem virðast alveg hreint frekar dásamlegar.

 Og ef maður er á ferðinni í Washingtonríki í maí, mætti jafnvel stoppa á Sasquatch! tónlistarhátíðinni. Hún hljómar eins og eitthvað alveg temmilega frábært. Og staðsetningin, maður, með útsýni yfir Columbia-ánna. Fallegt.

Svo gætum við skoðað hellana við ströndina í Oregon áður en við færum til Portland. Ég veit ekki af hverju, en ég er alveg búin að bíta í mig að það sé borg að mínu skapi. Kannski af því þar er að finna stærstu bókabúð í heimi, Powell’s. Og víðfræga kaffibrennslu, Stumptown. Og Ace-hótelið sem ég væri til í að búa á, bara alltaf. Hljómar nokkuð vel, ekki satt?

Næsta alvöru stopp, samkvæmt þessu grófa plani, væri heimsókn í Redwood þjóðgarðinn í norður-Kaliforníu, til að klappa risafurunum. Ó, risafururnar. Ég verð að fá að hitta þær einhvern tíma á ævinni, þessa ævafornu, þöglu risa. Ég fæ eiginlega gæsahúð bara af því að hugsa um þær.

Del Norte Redwoods - 4x5 HP5+

Og svo Napa-dalurinn og vínsmökkun og lokaáfangastaðurinn sem er ekki síður heillandi, San Francisco. Fisherman’s Wharf og Haight og Mission-hverfin og góður matur og sporvagnar og pastellit hús og brattar götur… Já.
San Francisco

Draumur í dós. Flugmiðarnir eru alls ekki svo dýrir, og svo er þá bara að útvega sér fararskjóta á staðnum. Við höllumst að bílaleigubíl og jafnvel tjaldi meðferðis, þá gætum við gist í einhverjum þjóðgarðanna. Ódýrara en hótelnótt og skemmtileg tilbreyting. Ég hef held ég bara hvergi gist í tjaldi nema á Íslandi, en ku víst vera hægt utan landssteinanna líka.

(Og já, ég er búin að fletta því upp að mýtan um eilífa rigningu í Washington (og jafnvel Oregon) er sönn – en yfir vetrartímann. Ef maður er á ferðinni yfir sumarmánuðina ætti bara að sjást alveg helling til sólar!)

Ah já. Að ári. Eða tveimur.

Og pssst. Myndirnar eru linkaðar við upprunalegar síður.

Merkt , , , ,

Einn og tveir og þrír

IMG_3049

Ég er að vinna, hamast í vinnu, les les les og leiðrétti leiðrétti leiðrétti og deadlænið nálgast og ég má ekkert vera að stela mér fimm mínútum í að blogga en ég er samt að því (ekki skamma mig, mamma!). Bara til að segja þrennt, örstutt.

Í fyrsta lagi: Ég á flugmiða til Svíþjóðar. Ég hef óbeit á ofnotkun upphrópunarmerkja, en þið getið ímyndað ykkur svona eins og góðan tug þarna, slík er ánægjan. Og það er ekki bara ég sem á miða, heldur líka Atli og Bessi. Fjölskylduferð til Nangijala í lok ágúst. Ó, draumur.

Í annan stað: Það er ótrúlega, ólýsanlega góð tilfinning að vinna við eitthvað sem manni finnst bæði krefjandi og sjúklega skemmtilegt. Í mínu tilfelli að prófarkarlesa þýðingu – og fá meira að segja að hafa puttana svolítið í þýðingunni. (Það er svo öllu verri tilfinning að það er svo illa borgað að ég væri betur sett á Bónuskassa. Can’t win them all eins og þeir segja.) Að því sögðu er umrætt deadline alveg skuggalega nærri og ég fer því  líklega huldu höfði næstu daga.

Í þriðja lagi: Mér finnst hryllilega gaman að fá komment. Alveg svona skríki-eins-og-smástelpa-gaman. Svo ef þið viljið gera góðverk megið þið gjarnan segja hæ hérna einhvers staðar. (Nema þið ætlið að segja mér hvað ég sé ljót og leiðinleg, þá megið þið svo sem alveg halda því út af fyrir ykkur.)

Áfram veginn!

Merkt , , ,

Bleikt

Eitt orð: vá. Hér má sjá vatnið Hutt Lagoon í vestur-Ástralíu, sem er svona fallega bleikt. Liturinn kemur til vegna náttúrulegra þörunga sem eru reyndar ræktaðir í vatninu og notaðir til framleiðslu á litarefnum í mat. Ljósmyndarinn Steve Back  hefur fangað fegurðina á filmu þannig að úr verða abstrakt listaverk.

Náttúran er ótrúleg. Og náttúran þegar maðurinn hefur aðeins farið um hana höndum ekki svo slæm í öllum tilfellum heldur…

Hutt Lagoon kemur fyrir á fleiri myndum Backs, frá öðru og ekki síðra sjónarhorni. Mikið er þetta óskaplega fallegt.

Varð á internetvegi mínum hér.

Merkt , , ,

Hversdagslúxus og dekadens

Image

Nei, getur þetta verið? Tvær færslur á sama degi? Nú er mál að krossa sig held ég bara, því heimurinn hlýtur að vera að farast.

IMG_3011

Við erum í Hveragerðinu góða, gistum í nótt og förum að dóla okkur heim á leið. Að vanda var boðið upp á frábæran félagsskap, dýrindis mat og besta spa í bænum og þótt mjög, mjög víðar væri leitað. Þriggjafasagufan er og verður besta hressingarlyf í heiminum. Hún er framkvæmd svona: Þvo af sér mögulega andlitsmálningu. Svo: heitur pottur – gufa – köld sturta. Endurtekið tvisvar, eða þar til húðin er orðin fallega grísableik og manni líður eins og maður hafi nuddað mentóli í hársvörðinn.

IMG_3013

Sirka svona.

Í öðrum fréttum finnst mér ég hafa himin höndum tekið að hafa uppgötvað Sóleyjarvörurnar. Ég hef engar betri andlitsvörur prófað. Vinkona mín sver að skrúbburinn Glóey sé sá besti á markaðnum, en ég á enn eftir að prófa hann. Og leirmaskann. Og svo er spurning hvort maður splæsi ekki í líkamsskrúbbinn Mjúk fyrst maður er að þessu á annað borð. Ég er ekki á launum hjá þeim, ég sver. Ég bara elska þetta dót og styn eiginlega af vellíðan bæði kvölds og morgna þegar ég þvæ mér í framan, og svo er svona extra gott fyrir sálina að það sé líka lífrænt og íslenskt og ekki stútfullt af erfðabreyttum parabenum og geimverufrumum. Þið vitið.

IMG_3012

Nú. Og af því að dekur er ekki dekur ef matur kemur ekki við sögu fær mynd af kjúklingasalatinu sem Atli bókstaflega hristi fram úr erminni á fimm mínútum í hádeginu að fljóta með. Og pínkulitlu blómabollakökurnar sem við fengum að smakka í stuttri heimsókn til frænku á Selfossi. Æt blóm. Það er eitthvað. Mín vegna má allt smjörkrem heimsins taka sig til og gufa upp, ég þarf ekkert á mína bollaköku annað en litla fjólu, stjúpu eða begóníu.

IMG_3016

IMG_3015

Æ og að lokum fær ein frá því á föstudaginn að fljóta með. Þá fórum við út að borða með frábæru fólki, á opnun myndlistarsýningar Söru Riel í Listasafni Íslands (sem er óstjórnlega flott, takk fyrir. Bæði sýningin og Sara.), út í drykk  og sprengdum hamingjuskalann bara. Í tilefni dagsins fengum við kampavínsglas og ostru í forrétt og mér hefur bara aldrei fundist ég jafn raffíneruð. Dekadent. Heimskona, sko.

IMG_2979

(Og svo fór ég heim og leysti barnapíuna af og fékk mér ristað brauð og fór að sofa, rétt upp úr miðnætti. En. Dásamlegt kvöld í alla staði).

Merkt , , , ,

Brúðkaupablætið

Ég er með smá brúðkaupablæti. Svona smá. Laumuskoða brúðarkjóla á Pinterest og dáist að skreytingum á bloggum og rissa upp lagalista í hausnum á meðan ég bíð eftir strætó. Þetta er allt mjög þeoretískt samt, ég er í rauninni ekki beint að hugsa um sjálfa mig í þessum aðstæðum heldur meira svona hvað þetta er nú allt voðalega skemmtilegt og gaman. Ef eða þegar að mér kemur á ég eflaust eftir að verða svo illa þjökuð af valkvíða að athöfnin fer fram í kyrrþey í hesthúsi einhvers staðar.

Það eina sem ég er búin að bíta í mig að ég myndi vilja gera er að einmitt afþakka mjög pent öll kaffistell og blómavasa en skrá mig (ókei þá, okkur!) á eina af þessum bráðsniðugu hveitibrauðsdagasíðum. Óskaplega er hveitibrauðsdagar annars óþjált orð. Hunangstunglið hljómar nú betur, er það ekki?

Ég sá hugmyndina fyrir einhverjum árum síðan hjá henni Joönnu (sem ég virðist nú vísa í í hverri færslu, sorrí með það) og fannst hún framúrskarandi. Miklu skemmtilegra og persónulegra en að gefa bara peninga upp í ferð.

Síðurnar (eins og til dæmis þessi hér) virka þannig að parið skráir sig og tínir síðan til ýmislegt sem það vill gera í brúðkaupsferðinni sinni. Segjum að áfangastaðurinn sé Ítalía. Gestir geta þá til dæmis valið að gefa hálfan flugmiða, eða skoðunarferð um Róm, leigu á vespum í einn dag, tvær chianti-flöskur, tvo gelato-ísa, lestarmiða, nótt á hótelsvítu, ilmkerti til að taka með… Jú neim itt. Fólk kaupir eitthvað af þessu á síðunni og parið fær aurana, en líka persónuleg skilaboð frá gefanda. Svo fer það í draumaferðina sína og upplifir eitthvað nýtt í boði vina og fjölskyldu á hverjum degi.

Ef þetta er ekki brilljant hugmynd þá veit ég ekki hvað. Og fyrir mína parta myndi ég miklu, miklu heldur vilja fara í ógleymanlega ferð sem allir sem ég elska eru einhvern veginn innviklaðir í, en að eignast stell af Iittalaglösum.

(Þetta ber þó ekki að túlka sem svo að ég taki ekki á móti Iittalaglösum svona alla jafna, ef einhver er ólmur í að gefa mér slík. Ég er alveg til í þau sko. Ha?)

Merkt , , , ,

Átta mánuðir og gleymdar konur

Bessi1

Viðvörun: Hér kemur maraþonfærsla. Reimið skóna.

Það er svolítið síðan Bessi minn Huginn sýndi sig á Hugskotinu. Það er mál að bæta úr því, ekki satt?

Bessi3

Draumadrengurinn minn með djúpu augun er orðinn átta mánaða og eiginlega fullorðinn. Finnst mér, þegar ég hugsa um allt sem hefur gerst á síðustu vikum. Hann situr hnarreistur á gólfinu, bröltir í sífellu upp á hnén en lyppast þó enn sem komið er alltaf niður á magann aftur. Ég er ekkert með skeiðklukkuna á lofti hvað varðar framvindu skriðmála – mér segir svo hugur að þegar drengurinn komist á ferð komist ég ekki á klóið í næði næstu mánuðina, svo mér liggur ekkert á. Mín vegna má hann alveg sitja á bossanum aðeins áfram.

Unaðsbolla Ottesen skartar nú tveimur tönnum í efri gómi og þær litu dagsins ljós með furðulitlum pirringi og raski. Hann hámar í sig graut, ávaxtamauk, grænmetismauk og nú síðast grænmetis- og kjötmauk af mikilli áfergju. Japlar á rískökumolum og bruðum eins og enginn sé morgundagurinn, hallar undir flatt, hefur mikinn húmor fyrir bjánaganginum í móður sinni og fer allur á ið um leið og pabbi hans birtist í dyragættinni.

Eftir Svíþjóðarferð okkar mæðginanna í maílok, og hvatningarræðu frá ömmunni,  voru svefnmálin tekin föstum tökum. Það tók heilar tvær nætur að venja barnið á að sofa í 11 tíma án þess að rumska. Og jeminn hvað það birti til í heiminum við þær breytingar! Móðirin er töluvert mikið skemmtilegri manneskja eftir 8 tíma samfelldan svefn en 6 tíma svefn með þremur vöknum.

Í stuttu máli er Bessinn okkar fullkomnasta og dásamlegasta og fyndnasta og skemmtilegasta barn í veröldinni.

Bessi2

Hann er átta og hálfs mánaðar gamall, ég elska hann út af lífinu. Og. Mér líður loksins eins og mér aftur.

Hér kemur játning: Síðasta eina og hálfa ár var líklega erfiðasti tími ævi minnar. Unglingssunna myndi kannski mótmæla þeirri staðhæfingu og minna á tímabilið þegar sálin var voðalega aum og allt var ómögulegt, lærin svo þykk og hakan svo skrýtin og allt það. En ég blæs á það.

Ég var ekki ein af konunum sem finnst meðgangan það allra dásamlegasta sem fyrir þær hefur komið, verður tíðrætt um bleik ský, kvenleika og einn og annan einhyrning. Ég var frekar í nashyrningagírnum. Pirruð, þung á mér, orkulaus og viðkvæm. Mér fannst vægast sagt óþægilegt að allt í einu var eins og líkami minn væri orðinn einhver almenningseign. Það þótti sjálfsagt að horfa á hann og tala um hann eins og hann tilheyrði ekki mér lengur. „Voðalega ertu stór, ertu viss um að þau séu ekki tvö, jeminn þú ert alveg að springa,“ er rulla sem ég þarf ekkert að heyra aftur í bráð. Þessi skipti þarna á síðustu mánuðunum dugðu mér alveg.

Og svo kom hann, Bessi, dásemdin mín eina.

Bessi nýr

Ég las þessa grein hérna í gær (eftir að hafa rekist á hana á Cup of Jo), um hvernig maður virðist vera líffræðilega prógrammaður til þess að gleyma því hvað fyrstu mánuðirnir með kornabarn eru  erfiðir. Ég get tekið heilshugar undir það, því ég finn þetta gerast hjá mér núna. Minningarnar frá fyrstu vikunum og mánuðunum eru orðnar ansi bleiktóna, eru að renna saman í snoturt mjólkurilmandi collage með mjúkri lýsingu. Fullkomni drengurinn minn sefur í vöggu, liggur á bringu mér, svo smár og ilmandi og yndislegur. Hinar eru samt þarna ennþá, að dofna og hverfa; þessar erfiðu, dökku, dauðdauðdauðdauðþreyttu.

Ég segi eins og greinarhöfundur: ég vissi alveg að fyrstu mánuðirnir yrðu erfiðir, bara ekki hvernig. Svefnleysið. Ó, svefnleysið. Það er andstyggilegt. Algjörlega andstyggilegt. Ég var svo þreytt að dagana sem Atli var að vinna, og þeir eru um 14 tíma langir, borðaði ég stundum ekki. Ég var of þreytt til að höndla að búa mér til mat. Of þreytt til að fara niður í þvottahús að sækja þvottinn. Of þreytt til að svara í símann. Of þreytt. Sumar nætur vakti ég töluvert meira en ég svaf og fyrstu vikurnar svaf barnið ekki meira en nokkrar mínútur hér og þar yfir daginn. Yfirleitt vaknaði hann um leið og ég lagði hann frá mér. Ég hefði getað kýlt manneskjurnar sem spurðu hvort ég legði mig ekki bara með honum á daginn. Svo fóru lúrarnir upp í 45 mínútur. Skárra, en það er samt frekar erfitt að vinna upp langvarandi svefnleysi með hálftímadúr.

Og, svo veit maður nákvæmlega ekkert hvað maður er að gera. Ekki neitt. Eða, ekki ég. Maður þreifar í blindni, reynir að ráða í grátinn, sinna köllunum. Og stundum grætur maður sjálfur, af algjörri uppgjöf og botnlausri þreytu. Og veltir því fyrir sér hvort maður er með fæðingarþunglyndi og meingallaður af því að maður er ekki yfirkominn af sælu og eilífri ást hverja mínútu.

Nú hljómar þetta  allt eins og ég sé Morticia Adams og borði kettlinga í morgunmat og sé bara almennt vanþakklát og neikvæð og glötuð týpa. Ég er það ekki, ég lofa. Ég vil bara skrifa þetta, segja eins og er, gangast við eigin ráðaleysi og vonleysi og öllum dökku tilfinningunum sem ég upplifði þessa fyrstu, erfiðu mánuði.

Ég vil bara segja það. Muna það. Af því það er að gleymast og ef ég verð svo heppin að fá að endurtaka leikinn held ég að það sé hollt að geta rifjað upp fyrir sjálfri mér að þetta var víst líka ofsalega erfitt þegar Bessi var nýfæddur. Og það líður hjá, í alvörunni, og allt verður unaðslegt.

Bessi4

Ég stóð mig að því um daginn að hugsa að ég vildi helst að Bessi eignaðist minnst tvö systkini. Og samt ekki, því eiginlega langar mig ekkert í önnur börn, mig langar bara í Bessa aftur. Tvo Bessa í viðbót, lágmark.

Og svo brosti ég að sjálfri mér. Dauðþreytta konan sem hafði ekki orku til að ná í hrökkbrauð er greinilega svo til gleymd.

Merkt , , , ,

Ljúfa líf, ljúfa líf

Hvað haldiði, ég er komin aftur. Í borgina, í netsamband, í hversdaginn. Og ég nýt þess alla leið fram í fingurgóma. Ég sver það, ég er með svona vellíðunartilfinningu í öllum líkamanum. Meira að segja táneglurnar eru einhvern veginn malandi af sælu.

Ég er algjörlega sannfærð um að það gerir manni ekkert nema gott að fara aðeins út fyrir þægindarammann. Lifa án alls þess lúxus sem við erum orðin svo vön í okkar daglega lífi að við gerum okkur ekki grein fyrir því að hann sé einmitt, lúxus. (Þetta hljómar voðalega heilagt, en ég tók  með mér bæði matvinnsluvél og blandara vestur, bara svo því sé haldið til haga. Ég er enginn jógi sko.) Ég meina það. Dvöl okkar fyrir vestan núna var öll í sumarbústaðafíling, eins og sumarbústaðir voru þegar ég var lítil. Sem sé ekki með leðursófasetti og flatskjá, heldur gömlu leirtaui úr öllum áttum, engri brauðrist og sængurfötum sem það var einhvern veginn alltaf einhver smá bústaðalykt af. Þannig stemning. Ekkert útvarp, engin brauðrist, ekkert internet, engin þvottavél. Sem þýddi að ég hlustaði meira á tónlist, eða sat úti á palli og hlustaði á sönginn í fjöllunum og gjálfrið í öldunum, og bauð mér í þvottavélakaffi hingað og þangað. Í staðinn fyrir að hanga á internetinu á kvöldin hékk ég yfir garðvegginn á tali við nágrannana, með kaffibolla eða rauðvínsglas. Og fann upp hugtakið rústaðbrauð, yfir sneiðarnar sem voru ristaðar undir grillinu í ofninum.

En jafn hollt og gott og það er að vera þvottavélar- og internetlaus í tvo mánuði get ég ekki lýst því hvað það er yndislegt að koma heim aftur. Í internet, samstætt leirtau, velilmandi þvott, fjölskyldumyndir, bókahillurnar… Neglurnar syngja, ég er að segja ykkur það. Það þrátt fyrir að Klapparstígurinn sé eitt flakandi sár vegna vegavinnu og gröfur og loftpressur hamist fyrir utan gluggann minn allan daginn. Og þrátt fyrir að á framkvæmdalista dagsins sé að fara með bílinn í bremsuklossaskipti og sækja sendingu í flugfraktina. Ekki mest spennandi í heimi, en ég brosi nú samt hringinn.

Ah, ljúfa líf, ljúfa líf.

Myndin er ein af grilljón sem ég hef pinnað á Pinterest, en upphaflega héðan.

Merkt , , ,

Úr ævintýraheimi

Það er eitthvað við þessa mynd, sem ég fann á síðasta (örstutta) innliti mínu á Etsy, sem heillar mig alveg. Gjörsamlega. Upp úr skónum og niður í stígvélin.

Þetta dýr, vísundurinn, er eins og eitthvað úr ævintýri. Narníu. Ég eins og bíð þess að hann snúi höfðinu og ávarpi mig. Og þar með er ég orðin forvitin um mýtur og goðsagnir um vísunda…

Merkt , , , ,
Auglýsingar