Greinasafn flokks: Sagt, skrifað og skapað

Áfram, mars: framkvæmdalisti

the artifacts of morning

Mynd héðan.

Nýr mánuður er genginn í garð. (Og gott betur en það auðvitað, en getum við bara þóst að það sé fyrsti í dag? Max annar? Ókei takk. Ég er pínu viðkvæm. Bessi uppgötvaði píkuskrækinn, hæsta c sem hægt er að ímynda sér, og beitir honum nú alveg óhikað við hvert tækifæri. Hljóðhimnan mín getur ekki verið annað en teygð, toguð og jafn illa farin og sokkabuxurnar sem ég þrjóskaðist við að nota á meðgöngunni. Geðheilsan líka.)

Núnú.

Ég er með svona rúllandi lista af hlutum sem mig langar að gera og prófa og elda. Helsti gallinn á þessum lista er sá að hann er bara geymdur í höfðinu á mér. Þar sem ég er álíka skýr í hugsun og meðalmygluð pera þessa dagana kemur það því eflaust ekki mikið á óvart að góðum hluta listans er aldrei hrint í framkvæmd. Sem dæmi: mig hefur lengi langað að prófa að búa til drykk sem ég „pinnaði“ fyrir margt löngu síðan. Til þess þarf rósmarínsíróp. Ég hef farið í á að giska 40 búðarferðir með þeim góða ásetningi að kaupa nú rósmarín til að gera sírópið, en komið heim með basilíku eða bara negul. Eða, ef ég á að segja alveg satt, bara rískökur með súkkulaði og kannski enn einn klósettpappírspakkann.

Í morgun tók ég mér hins vegar tak og skrifaði lista yfir alla þessa hluti. Eða sko, þá hluti sem ég man einmitt núna. Og svo ætla ég meira að segja að taka þetta skrefinu lengra og setja mér aktúal tímamarkmið. Hér er sem sagt það sem mig langar að gera, framkvæma, elda, prófa, prjóna, í mars:

+ klára eyrnabandið sem ég er að prjóna.

+ koma fallega stjörnuhiminsplakatinu okkar, sem er alveg að molna í sundur, yfir á blindramma.

+ baka paleo-brauðið sem er bara úr hnetum, fræjum og vatni.

+ gera rósmarínsírópið og blanda blessaðan drykkinn loksins.

+ búa til saltskrúbbinn sem hljómar svo agalega vel.

+ fara á bókasafnið og sækja mér vænan stafla af ljóðabókum. Gerður Kristný, Gyrðir og Sjón eru á listanum mínum. Fleiri?

+ byrja að skrifa niður allt það ótalmarga sem Bessi lærir og gerir á hverjum degi, því ég veit að ég vil muna það. Líka píkuskrækina.

Svona, er þetta ekki ágætis listi og góður ásetningur fyrir mánuðinn?

Auglýsingar
Merkt , ,

A go go

Smá japanskt æði svona í helgarbyrjun. Ég fann þetta dásamlega vídeó á Vimeo og endaði á því að horfa á allt sem listakonan, Shishi Yamazaki, hefur sett þar inn. Hún. Er. Æði. Vá hvað ég er hrifin af stílnum hennar, sixtís-legri tónlistinni, dansinum… Ég dýrka þetta. YA-NE-SEN a Go Go er víst byggt á henni sjálfri að dansa í ýmsum hverfum Tókýó. Bjóddu mér upp, segi ég nú bara.

Nýjasta myndbandið er bara nokkurra vikna og hluti af útskriftarverkefni hennar frá listaháskóla í Tókýó. Það er gjörsamlega gloríus líka. Algjört augnakonfekt. Sjá hér.

Og þar með tralla ég áfram inn í helgina mína – sem hófst raunar á útikvöldi foreldranna, með sushiáti, drykk á Loftinu, blaðri og bulli á meðan Bessinn hegðaði sér eins og það fyrirmyndarbarn sem hann er hjá frænku sinni og steinsofnaði bara eftir pöntun. Jess! Það er vor í lofti, nýir og bjartari tímar framundan… Er það ekki bara?

 

Merkt , , , , ,

Silki

silki

Síðustu vikur hefur lestur góðra bóka heldur setið á hakanum hjá mér. Mér finnst einhvern veginn svolítið erfitt að sökkva mér í lestur þegar ég veit að það er bara tímaspursmál hvenær barnið galar á athygli mína og þegar drengurinn er sofnaður að kvöldi hafa bíómyndir og internetið haft vinninginn. Illska Eiríks Arnar, sem ég fékk í jólagjöf og hlakka mikið til að lesa, bíður því enn í plastinu heilum tveimur mánuðum eftir jól  – örlög sem ég get ábyrgst að jólabók hefur aldrei hlotið á mínu heimili áður. Þessir tímar stuttra frístunda og örlítillar athyglisröskunar (hæ, brjóstaþoka) hafa hins vegar haft þau jákvæðu áhrif að ég hef enduruppgötvað ljóðabækurnar mínar. Það er enginn vandi að ná að lesa ljóð – og njóta þess – á meðan barnið skoðar sig í leikspeglinum eða tekur stutta kríu.

Í jólagjöf fékk ég líka ljóðabók Gerðar Kristnýjar, Strandir, og ég er búin að lesa hana gjörsamlega upp til agna. Næst á dagskrá er ferð á bókasafnið til að ná mér í Blóðhófni og fleira góðgæti úr hennar smiðju – ég var stormandi hrifin af ljóðunum hennar og langar í meira. Eitt þeirra, sem ættað er frá indverskum ströndum, fékk mig til að lygna aftur augunum og brosa. Ég er hrifnust af ljóðum sem kalla fram skýra mynd í huganum, og það er sko nóg af þeim í bókinni hennar Gerðar Kristnýjar. Þetta færði mig á svipstundu aftur til Jodphur eða Varkala, ég fann lyktina af reykelsisbúntunum, heyrði kliðinn af markaðinum og skerandi flautið í einhverju rikshawinu. Og sá litina liðast fyrir augum mér, allt silkið og saríana í einni stórri flóðbylgju af leikandi litum.

Ljóðið er svona:

Silki

Sjölin svífa
niður úr hillum
og setjast í
lófa mína

„Ekta silki,“
segir kaupmaðurinn
Hann bregður upp eldspýtu og svíður af kögri

„Sko! Lyktar eins og brennt mannshár – alveg ekta!“

Hann skrökvar aldrei, trúir á Jesú
– bendir á kross
fyrir aftan sig –
og ólst upp á munaðarleysingjahæli
móður Teresu

Það var hún sem
kenndi honum að
segja satt

Hún gleymdi samt að
temja honum kurteisi
því þegar ég
hleypi sjölunum
aftur upp í hillur
steypast yfir mig
bengölsk blótsyrði

En nú get ég
hvenær sem er
brennt lokk
úr hári mínu
og fundið angan af
indversku silki

– Gerður Kristný,
úr ljóðabókinni Strandir

Mæli hiklaust með henni!

Merkt , , , ,

Artifact Uprising: gerðu ljósmyndabók á netinu

Ég hef lengi ætlað mér að búa til ljósmyndabók úr einhverjum af þeim skrilljón og þremur ljósmyndum sem ég á hérna í tölvunni minni. Mér líður stundum eins og hún sé tifandi tímasprengja: hvað ef einhver brýst inn og stelur henni eða hún bara geispar golunni, eins og tölvur gera jú stundum? Þar með myndu tvö löng Asíuferðalög og fyrstu fjórir mánuðir Bessa bara hverfa. Það er hörmuleg, hræðileg tilhugsun.

Það er ár og öld síðan ég halaði niður Blurb-forritinu með það í huga að fara að klambra saman bók, en svo varð einhvern veginn aldrei af því. Kannski af því að ég opnaði forritið og skildi ekki strax hvernig það virkar. Nú held ég að ég hafi fundið enn betri kost. Artifact Uprising gerir manni kleift að hanna bækurnar beint á netinu, verðið sýnist mér vera alveg hreint ágætt og miðað við það sem maður sér af lokaútkomunni á síðunni þeirra eru þetta mjög fallegar bækur.

Það er hægt að panta hefðbundnar ljósmyndabækur, en svo er líka boðið upp á sérstakar instagram-bækur, sem er nú ekki ósniðugt. Ég held að ég sé ekki ein um að teygja mig  frekar í símann en myndavélarhlunkinn, þó ég sé nú stöðugt að reyna að taka mig á í þeim efnum.

 

Ég kíkti á kennslumyndböndin þeirra tvö á Vimeo (hér og hér) og fæ ekki betur séð en að sýstemið sé afskaplega aðgengilegt og auðvelt í notkun. Þá er það ákveðið. Ég SKAL ganga í þetta mál.

Merkt , , ,

The Scared is scared

 

Ó, en sú dásemd.Stuttmyndin The Scared is scared er afrakstur þess þegar kvikmyndagerðarkonan Bianca Giaever spurði sex ára gamla stelpu um hvað hún myndi gera kvikmynd. Þetta er útkoman: átta mínútur af æði, fullkomlega þess virði að gleðjast yfir með morgunkaffinu. Hér á Vimeo.

Merkt , , , ,

Kjúklingur með plómum

Ég er viðþolslaus, mig langar í Bíó Paradís að sjá þessa dásemd eigi síðar en akkúrat núna. Núna! Guðminngóðurjedúdda hvað þetta lítur óborganlega vel út. Marjane Satrapi heillaði mig upp úr skónum með teiknimyndinni Persepolis, sem mér fannst algerlega frábær. Kjúklingur með plómum er  leikin, en miðað við stikluna alveg ofboðslega visúalt falleg. Jeminneini. Ég er með svona Amelie-hjartslátt, þið vitið, sem maður fær þegar maður horfir á einhverja mynd sem fær hjartað til að syngja. Lalalalatída!

Ég er líka alveg stormandi hrifin af því þegar fólk notar sína eigin reynslu í sköpunarverk sín, þorir að segja sínar eigin sögur. Mér finnst það oft verða svo hjartnæmur, fallegur skáldskapur. Í mínum huga er það alltaf ákveðinn skáldskapur að segja sögur, líka ævisögur. Persepolis var sjálfsævisaga, en Kjúklingur með plómum er saga frænda Marjane, fiðluleikarans Nasser Ali Khan sem leggst í rúmið eftir að fiðlans hans brotnar.

Og svo dauðlangar mig líka að lesa Embroideries, sem fjallar um kynreynslu íranskra kvenna, skyldmenna Marjane. Hversu spennandi er það ekki?

En fyrst, kjúklingurinn.

Hver vill koma með mér í bíó, alternatívt passa Bessann?

Merkt , ,

Ævintýri og miðnætursund

Já góðan daginn. Hér er viðburðarík helgi að baki og svo einn frekar öfugsnúinn mánudagur. (Ég svaf ágætlega í nótt svo ég vil nota tækifærið og biðja manninn sem var á loftpressunni undir svölunum mínum í allan gærdag afsökunar. Ég vona að þú sért hættur að hiksta núna.) Ég hef ákveðið að líta svo á að vikan hefjist bara hér og nú. Ég rífstarta með síðasta kaffinu (Hæ Bónus, sjáumst á eftir!) og nokkrum uppáhaldsorðum sem ég hef sankað að mér á Pinterest.

Adventure - by 48 Savy Sailors

by Danielle Burkleo at Take Heart

By Gemma Goode on DeviantART

Macheete Poster by Yawn

When you get into a tight place greeting card - by Local Wisdom Cards on Etsy

P.s. Myndirnar eru linkaðar við upphaflegar færslur, ekki bara Pinterest. Blaðamanninum í mér finnst nefnilega  skipta máli að halda því til haga hver á og sagði og gerði hvað. Höfundarréttur og internetið er allt saman frekar klístrað mál (stikkí bissniss, sko) en það er nú lágmark að reyna að finna uppsprettuna, ekki satt? Og að linka á Pinterest er í mínum bókum svona svipað og að setja Wikipedia-heimild í heimildaskrá í meistararitgerð. Ósmart. Vægast sagt. Ókeihættaðvælabless.

Merkt , , , , ,

Hugrekki og hjartans mál

pink day ♥♥

Nú er ég búin að gleyma hvenær ég sá og heyrði Brene Brown og TED-fyrirlesturinn hennar fyrst, en ég varð hugfangin. Ég hef horft á hann þrisvar sinnum síðan og meira að segja bloggað um hann áður, á litla vanrækta enskublogginu mínu (hér). Í heimi sem mér finnst stundum eins og snúist um að virka sem mest töff og ósæranlegur talar Brene Brown um mikilvægi þess að vera samkvæmur sjálfum sér og að hafa hugrekki til að vera auðsærður, eða „vulnerable“. Kona að mínu skapi, enda er ég ekki beint þekkt fyrir harða skel. Og svo er hún hrikalega skemmtileg líka.

Eitt kvót úr þessum frábæra fyrirlestri:

“The word courage originally came into the English language from Latin, cor. Meaning heart. It’s original definition was “to tell the story of who you are, with your whole heart”. “

Fallegt? Fyrirlesturinn má sjá hér og ég mæli sterklega með því að þið gefið Brene tuttugu mínútur af tíma ykkar í dag. Gott fyrir hjartað og sálina og hláturtaugina líka. Mína, að minnsta kosti.

Myndin héðan.

Merkt , , , ,

Ó, Lena

„It’s interesting how we often can’t see the ways in which we are being strong—like, you can’t be aware of what you’re doing that’s tough and brave at the time that you’re doing it because if you knew that it was brave, then you’d be scared.“ – Lena Dunham

Vil bara segja: hún er frábær. Frábær, framúrskarandi, falleg, flott og sjúklega f-ing hæfileikarík. Ég á enn eftir að sjá fyrsta þáttinn af annarri seríu af Girls, svo ekki kjafta frá! Og ég á alveg pottþétt eftir að næla mér í eintak af bókinni víðfrægu, þegar hún kemur út.

Mynd héðan

Merkt , ,

Lofaðu mér

Lítið og ó svo fallegt sunnudagsljóð á jafn fallegum degi. Tumblerinn hans Tyler Knott er kominn í bókamerkin mín – hann er hreinlega stútfullur af fallegum orðum. Maðurinn skrifar eina hæku á dag og gott betur en það. Hann er ótrúlegur. Ég gæti gleymt mér tímunum saman í hugarheimi hans.

Merkt , , , ,
Auglýsingar