Greinasafn flokks: Óskasteinninn

Óskalistinn og hið óvænta

Já jæja.

Þá eru ekki nema hvað, þrír mánuðir síðan ég ýjaði að því að hér væru einhver stórtíðindi sem ekki mætti segja frá. Sem var alveg rétt. Nú má ég kjafta – eða treysti mér til, öllu heldur. (Ekki það, ég hugsa að vel stærsti hluti lesendahóps þessa litla bloggs viti allt um málið nú þegar og hafi hlustað á mig kvarta og kveina síðustu vikur og mánuði.) En. Tata!

Haldiði ekki að Bessinn okkar Huginn sé að verða stóri bróðir? Ojújú. Lífið tekur stundum af manni völdin og þetta litla líf mætir í heiminn í mars. Meðgangan er rúmlega hálfnuð og ég get sagt að hún er gjörólík þeirri fyrri, af þeirri ástæðu einni að ég hef engan tíma til að hugsa sérstaklega um hana – ég er önnum kafin við að elta Bessa og skila skólaverkefnum. Og svo hef ég líka verið frekar upptekin í öðru persónulegu verkefni, sem ég vil ekki segja frá alveg, alveg, alveg strax, en felur líka í sér stórtíðindi. Og hefur heltekið mig þannig að mig dreymir ekki annað.

Það var nú það sko! Og skýringin á fallega tanntökuleikfanginu á myndinni hér að ofan. Sem er einn af ótal nýjum munum sem ég hef hnotið um á Etsy upp á síðkastið, þegar ég lýg því að sjálfri mér að ég þurfi nú nauðsynlega smá pásu frá lærdómi og að það sé tilvalið að sækja mér jólagjafainnblástur… Hér á eftir fylgja fleiri dæmi – allar myndir linkaðar við uppsprettuna!

 

Dásemdar fiftís náttlampi.

Plakat með mynd af metrókerfinu í Moskvu. Ég elska þessa liti!

Blóma- eða fjaðravasi úr gömlum tilraunaglösum og tilheyrandi statífi. Því miður ekki heimsendur út fyrir Bandaríkin, annars væri ég líklega búin að kaupa hann…

Einn af mörgum dásamlegum, útskornum fuglum í þessari verslun. Myndi sóma sér gríðarvel í barnaherberginu…

Gamaldags stjörnukort. Mér finnst þetta óskaplega fallegt . Og hægt að velja um ljósan eða dökkan við.

Ég er svolítið viðkvæm fyrir of væmnum – eða uppþvottalögslegum – ilmkertum. Þetta finnst mér hljóma ofboðslega vel. Því miður ekki sent út fyrir Bandaríkin. Bú!

Og loks, þessi armbönd, með mikilvægum dagsetningum í rómverskum tölustöfum.

Ég var rétt í þessu að uppgötva að fæðingardagur Bessa yrði ansi snotur: XX X MMXII. Næsti áætlaði dagur, öllu flóknari: XIV III MMXIV.

Ef einhver er jafn Etsy-sjúkur og ég má sá hinn sami auðvitað fylgjast með mér þar sem ég fer hamförum á favortite-takkanum. Hér er ég.

En þið? Og eigið þið uppáhöld á Etsy?

 

Auglýsingar
Merkt , ,

Myrkraverk og fögur flúr

Ég er allt í einu, á svona síðustu tveimur árum, farin að dufla við þá hugmynd að fá mér tattú. Ég á vinkonur með afskaplega fín og flott, en hef samt aldrei tengt við hugmyndina svona fyrir sjálfa mig. Fyrr en núna. Hugmyndina sko. Nú á ég náttúrulega eftir að hugsa um þetta í nokkur ár og melta og finna og skoða og efast og gleyma og byrja að hugsa upp á nýtt. Já, stundum er erfitt að vera vog.

Þegar ég rakst á þessar myndir á netinu fékk ég samt óneitanlega fiðring. Mikið sem mér finnst þetta falleg tattú. Blackwork heitir tæknin víst, þar sem eingöngu er notaður svartur litur og gjarnan sóttur innblástur í gamlar húðflúrshefðir, Maori-fólksins til dæmis. Þessi hér eru gerð af listamönnum á stofunni 2spirittattoo í San Francisco – öll nema sunshine-flúrið af henni Roxx.

Kannski ég ætti að heimsækja hana? (Og leyfa henni að hlæja að mér þegar ég bið um eitthvað sem er svona fersentimetri að stærð?)

Það er spurning hvort ég stingi kannski tánum í vatnið og æfi mig, með svona skammtímatattúum frá Tattly. Sniðugt fyrir svona commitment phobics, sjáiði. Og töluvert fallegt líka.

Merkt , , ,

Nærfataskúffan: sorgarsaga

Triumph shapewear

Mikið, mikið, mikið væri ég til í að eignast eintak af þessari fegurð, sem ofurmódelið huggulega Helena Christensen hannar fyrir nærfatamerkið Triumph (og fæst hér). Það hefur nú ekkert verið neitt sérlega hátt skrifað  fyrir hönnun í mínum bókum hingað til, en þetta finnst mér óskaplega fallegt – rétt eins og Shadow Creatures nærfötin sem ég skal eignast einhvern daginn. Ég get reyndar ekki stært mig af því að hafa haft hönnun í hávegum í mínum nærfatainnkaupum hingað til; sá heiður að sjá mér fyrir undirfötum hefur helst fallið í skaut (hah!) ódýrum sænskum keðjum. Þrír fyrir einn-karfan og ég erum bestu vinir.

Endurnýjun nærfataskúffunnar er hins vegar ofarlega á mínum forgangslista þessa dagana. Undirfötin mín eru nefnilega ekkert svakalega flatterandi eftir að hafa togast og teygst með mér í gegnum meðgöngu . Og það er engin sérstök vítamínsprauta fyrir sálina – hvað þá rómantíkina – að klæðast úr sér gengnum HM-brókum sem voru keyptar fyrir fimm árum, á kropp sem enn hafði ekki kynnst þeim fjölmörgu lystisemdum sem barnsburður hefur í för með sér. Ég hef nú aldrei getað grobbað mig af þvottabrettismaga – minn hefur alltaf verið meira svona eins og þvottapoki – en þessa dagana er hann alveg sérlega mjúkur og kósí. Og röndóttur. Sem er allt hið besta mál, en hins vegar er grámóskulegi T-strengurinn sem nær varla upp yfir mjaðmabein ekkert að gera mér neina greiða.

Sum sé, mig langar mikið í þessi nærföt. Og tek glöð á móti öllum ábendingum um önnur falleg, flatterandi hversdagsnærföt fyrir konur með mjúka maga og kannski dálítið léttari veski en svo að þær hafi efni á mörgum svona settum…

Merkt , , ,

Allir elska ull

 

 

Það jaðrar við að vera ósmekklegt hvað mig langar í þessa tölvutösku. Sú sem ég læt mig hafa að stinga djásninu mínu í svona dags daglega er úr einhverju sægrænu frauðplastsdrasli og skartar, eftir um fjögurra ára notkun, bæði  kaffiblettum og puttaförum sem fara ekki fet, sama hvað ég reyni að losna við þau. Þetta djásn, aftur á móti, er gert úr gömlu Pendleton-ullarteppi, en ég er agalega hrifin af þeim. Svo er hún fóðruð að auki til að tryggja öryggi tölvunnar. Fæst í þessari Etsy-búð hér, sem er reyndar líka með frekar snotur pennaveski úr Pendletonum. Já, og hulstur fyrir iPad og Kindle og svo framvegis og framvegis… Allir elska ull, er það ekki? Líka tæknin!

Merkt , ,

Elsku Etsy, pt.1

Þær eru ófáar, tímagleypasíðurnar á internetinu góða. Ég get týnt nokkrum tímum í einu í að rápa á milli verslana á Etsy. Þegar ég finn verslun sem mér finnst æði kíki ég nefnilega alltaf á hvaða vörur og verslanir hún hefur merkt sem uppáhalds – og þannig koll af kolli þangað til ég ranka allt í einu við mér og á að vera löngu farin að sofa. Þessir gripir hafa ratað í mín uppáhöld á Etsy upp á síðkastið – og sumt jafnvel á Pinterest, sem er önnur og ekki síðri tímagleypasaga. (Hér er ég annars á Pinterest)

Juniper Green Leather Bangles with Gold or Silver Tubes - Leatherwraps

Leðurarmbönd frá versluninni Leatherwraps.

Expired Two - InTheGreyprintshop

Draumalandslag frá InTheGreyprintshop.

Cosmos Two Pack Ursa Major and Ursa Minor - lovecalifornia

Bjarnarpúðar með stjörnumerkjunum Litla birni og Stóra birni frá versluninni love, california. Ég er nefnilega orðin frekar veik fyrir öllu bangstengdu síðan sonur minn fékk nafnið Bessi.

Gemstone Nail Polish Black Onyx - GemstoneNailPolish

Naglalakk með ónyx frá Gemstone Nail Polish. Þessi seljandi býr til naglalökk með muldum eðalsteinum! Mér finnst það magnað. Þetta væri mjög skemmtileg gjöf, maður gæti þá valið bæði lit og stein með eiginleikum sem henta viðtakandanum.

Crow 16 k gold beak - Porcelainskulls

Krákukúpa úr postulíni með 18k gull-goggi frá Beetle and Flor.

Anatolian Turkish Rug Pillow Cover - mothersatelier

Púði úr endurunninni (hvað eru mörg n í því?) tyrkneskri kilim-mottu frá mother’s atelier.

Merkt , , ,

Ef ég ætti óskastein…

etsy1

…myndi ég óska mér þessarar hálsfestar frá Emily Green, til sölu á Etsy. Ó, svo Sunnuleg. Svo væri ekkert verra ef fötin fylgdu líka. Ókeitakkbless.

Merkt , ,
Auglýsingar