Greinasafn flokks: Ilmurinn úr eldhúsinu

Sumar í skál

Ég er á Flateyri. Hér er enn snjór í sköflum. Jess.

Ég er opinberlega komin með nóg af þessu vetrarveseni og til í sumarið. Núna. Mig langar í nýjar freknur og að svitna aðeins á nefinu undan sólgleraugunum, sitja á pallinum við Sveinshús og spjalla og sötra svaladrykk eða sleikja í mig ís eins og makindalegur köttur.

Mmm. Ís. Sumar í skál.

Tveimur dögum áður en við fórum úr Reykjavíkinni uppgötvuðum við Atli að það er svona frosin-jógúrt-sjoppa í göngufæri við okkur. Við grétum bitrum tárum ofan í dásamlega jógúrtina yfir því að við værum að fara og yrðum að vera án hennar í sumar. Eftir að hafa fundið afsökun til að fara þangað þrisvar á þessum tveimur dögum ákvað ég snarlega að líta á það blessun að við værum að fara – annars værum við bæði líklega nú þegar búin að bæta á okkur eins og fimm kílóum.

Roasted Strawberry Coconut Milk popsicle

Og nú sit ég hér, í snjónum á Flateyri, og læt mig dreyma um frosna jógúrt og heimagerða kókosmjólkuríspinna og bananabláberjaís og allt þetta fáránlega girnilega sem ég hef pinnað eða búkkmarkað í gegnum tíðina og skrolla nú í gegnum og slefa yfir. 

Ég hugsa að ég splæsi í ísvél á eldhúshjálpina mína þegar við komum heim aftur. Já.

Myndir eru linkaðar við upprunafærslur. Hvert og eitt þessara blogga er svo alveg gjörsamlega þess virði að týna sér í. Hvað hafið þið betra við tímann að gera? Ég er í þessum skrifuðum orðum límd við Oh, Ladycakes. (Ekki bara svona áhugavert-límd, meira svona æ-úps-tungan–föst-við-tölvuskjáinn límd. Eða næstum því. Ég meina, hvaða rugl er þetta?)

Ís.

Mmmm.

Auglýsingar
Merkt , , , ,

What the

Þessi síða er að drepa mig úr fyndni, það er bara þannig. Whatthefuckshouldimakefordinner.com. Brillíant.

fuckingprawns

 

fuckingjambalaya

fuckingwildmushroom

 

Híhíhí.

Merkt ,

Hellisbúabrauð

Hér er ætlunin að skrifa um hellisbúabrauð. Brauðið af framkvæmdalistanum sem ég er búin að baka, ekki bara einu sinni heldur tvisvar! Hipp hipp og margfalt húrra fyrir mér. Og brauðinu. En fyrst verð ég bara að koma því á framfæri hvað ég er ofboðslega alsæl með að hvorki ég né Atli vinnum hefðbundna 9 til 5 vinnu. Ég er vissulega í fæðingarorlofi núna, en svona alla jafna meina ég. Eftir að hafa fórnað laugardagsfríkvöldi til að redda einhverjum málum í vinnunni bauðst Atla að fá frí á mánudag og þriðjudag, sem þýddi að fyrirvaralaust var hann kominn í fimm daga frí. Mér líður eins og það hafi verið mánuður. Við erum búin að koma alls konar í verk, hvíla okkur, knúsast, hitta skemmtilegt fólk og hafa það dásamlegt. Þessi tvö ár sem ég var hefðbundin níutilfimm launamanneskja gerðist það að minnsta kosti ekki oft að fólk fengi alveg óvart svona bónusfrí. Onei.

En brauð var það, já. Gott brauð. Svakalega gott brauð.

IMG_4561

Uppskriftin er fengin af uppáhaldsheilsublogginu. Ég hef áður smakkað svona hellisbúabrauð – sem hentar sem sagt þeim sem aðhyllast paleo-mataræðið og neyta því ekki kornmetis (ef ég skil þetta rétt. Ég er allt of mikill kolvetnafíkill til að detta í hug að reyna að sleppa þeim…). Uppistaðan í því var sú sama og hér, fræ og hnetur, en það var hins vegar bundið saman með eggjum. Það var mjög gott, en eggjabragðið fór samt ekkert fram hjá manni. Og ég er að minnsta kosti ekkert alltaf í stuði fyrir egg. Í þessu brauði er það hins vegar psyllium-fræskurnin sem heldur herlegheitunum saman.

Já, psyllium. Einnig þekkt sem Husk. Náttúrulega hægðatregðulyfið. Jebb. Að þessu komst ég þegar ég mundi loks eftir því að koma við í Heilsuhúsinu á leið minni heim og versla það eina sem mig vantaði til bakstursins. Psyllium-fræskurnin er sem sagt afskaplega góð fyrir meltinguna og sé hún tekin inn svona ein og sér er mælt með því að fólk drekki afar vel af vatni með. Þessu brauði fylgdu nú ekki sömu fyrirmæli, en í því er reyndar ansi vel af vatni. Og ég get vottað að brauðið hefur ekkert sett meltingu heimilismeðlima hér á bæ úr skorðum.

IMG_4565

Ég var eflaust páfagaukur í fyrra lífi því mér finnast fræ og hnetur með því betra í heimi hér. Það þarf þess vegna ekki að koma mikið á óvart að mér finnist brauðið gott. Sérstaklega ristað. Það er unaðslegt ristað. Ég hef hingað til prófað að gera það með heslihnetum og brasilíuhnetum og heslihneturnar höfðu vinninginn í þeirri viðureign, en mig grunar að möndlurnar komi ansi sterkar inn líka. Mig grunar líka að það sé hægt að leika sér ansi mikið með þessa uppskrift svona eftir því sem er til í skápunum hverju sinni. Næst ætla ég að prófa að setja eitthvað krydd í það. Kannski broddkúmen. Mmm. 

Hér er uppskriftin, aðferð fyrir neðan. Ég mæli eindregið með því að þið prófið. Það tekur tíu mínútur að hræra í það og svo er bara að bíða á meðan vatnið vinnur vinnuna sína, bindur allt saman og leysir næringarefnin enn betur úr læðingi. Ég mæli svo líka með því að þið gefið mér háa fimmu í hugskeyti fyrir að geta strokað eitt atriði út af listanum.

Hellis-stærra

Blandið öllum þurrefnum saman í sílikonbrauðformi. Blandið vatni, olíu og hlynsírópi saman í öðru íláti og hellið svo yfir þurrefnablönduna. Hrærið varlega þar til allt er orðið blautt og „klesst“. Jafnið út með skeið og látið standa í allt frá tveimur tímum upp í heila nótt. Ég lét mitt bara standa á eldhúsborðinu í nokkra tíma og gekk úr skugga um að brauðið héldi lögun sinni þegar ég togaði formið aðeins frá. Hitið ofn í 175°C og bakið í 20 mínútur, takið þá úr forminu og bakið áfram í 30-40 mínútur, eða þar til holt hljóð heyrist úr brauðinu þegar bankað er í það. Látið kólna áður en það er skorið.

Bon appetit!

Merkt , , ,

Start as you mean to go on

morgunmatur

Morgunmatur: mikilvægasta máltíð dagsins, segja þeir. Og ég er loksins sammála. Eftir að hafa reynt að pína þennan þýðingarmikla málsverð ofan í mig árum saman, þrátt fyrir að algeran skort á matarlyst á morgnana, virðist gæfan hafa snúist mér í hag. Kannski er ég orðin fullorðin. Og kannski lærði ég bara að gera svo hrikalega girnilegan morgunverð að það er ógerningur að fúlsa við honum.

Ég sver að þetta er það besta í heimi og hlægilega þægilegt í framkvæmd líka. Gerðu hafragraut. Þegar hann er tilbúinn, taktu hann af hellunni og hrærðu út í hann einni matskeið af hnetusmjöri og smá kanilklípu. Sáldraðu yfir hann frosnum bláberjum (íslensk eru langsamlega best, en bónusberin duga). Stráðu því yfir sem þér finnst gott og gerir þér gott. Ég nota möluð hörfræ, því þannig nýtast þau líkamanum betur, chia-fræ, valhnetur og tvær döðlur sem ég klíp í sundur í hæfilega bita. Hollt og yfirgengilega gott.

Og þá getur dagurinn ekki annað en orðið góður, þegar maður byrjar hann á því að nostra svona við eigin líkama – ekki síst bragðlauka. Ekki satt?

Merkt ,

Óðinsgötufrúin

Nammi!

Ég er líklega síðasta manneskjan í þetta partí, en ég er mætt! Ég hunskaðist loksins í miðbæjarútibú Frú Laugu, á Óðinsgötunni, í þeim erindagjörðum að næla mér í nokkrar af sikileysku blóðappelsínunum sem fólk er svo hrifið af. Það var sem sé ekkert spaug hvað þær eru góðar. Við keyptum tvær moro og tvær tarocco og stundum svo af ánægju þegar heim var komið. Ég er á leiðinni aftur í dag til að kaupa umtalsvert meira magn! Meira moro fyrir mig. Ég sver það, þetta er svona eins og að borða hollan Haribó-hlaupbangsa, nema betra.

Mér þykir annars frekar vænt um Frú Laugu, líður svolítið eins og ég þekki hana. Sem er frekar absúrd pæling, en samt. Til að byrja með er upprunalega verslunin til húsa á stað sem ég þekki eins og lófann á mér. Ég er úr Laugarnesinu og mitt hangs fyrir utan Laugalækinn er talið í árum, ekki dögum. Skalli, 10-11, bakaríið, skrýtna búðin sem seldi sjö hundruð tegundir af strokleðrum, allt var þetta á Laugalæknum. Augljóslega heitasti staðurinn í bænum! Og svo heitir verslunin Lauga, eins og amma mín góð sem mér þykir svo undurvænt um. Þið heyrið það, við Lauga erum meant to be.

Merkt , ,

Náttúrulegur nammigrís

nammi5

Ég heiti Sunna og ég er gotteríisgrís. Ég er fyrir löngu búin að gefa þá von upp á bátinn að það muni nokkru sinni breytast. Í hvert skipti sem ég heyri tölur yfir hvað Íslendingar innbyrða af sælgæti, gosi og öðru sukki á ári hverju fæ ég sting í magann og kreisti aftur augun og fer að telja kindur eða rifja upp trúarjátninguna – allt til að forðast að hugsa um hversu stórum hluta þeirrar neyslu ég er ábyrg fyrir, svona prívat og persónulega! Í seinni tíð hef ég þó smátt og smátt fikrað mig fjær blandípokanu og nær náttúrulegri sætindum. Og hér er lausnin á sætindalöngun komin. Þetta náttúrulega nammi er svo gott að það skákar öllum bingókúlum og hlaupböngsum þessa heims.

nammi2

Grunnuppskriftin er héðan. Ég hef svo fiktað dálítið í henni eftir því hvað ég hef átt í skápunum hverju sinni.

Að þessu sinni var hún svona:

1 bolli blandaðar valhnetur og kasjúhnetur (líklega 70% valhnetur)

1 + 1/3 bolli ferskar döðlur

1 tsk vanilla

1 klípa sjávarsalt (smakkið til!)

3 msk gott kakó

2 msk kakónibbur

Aðferðin gerist ekki einfaldari: blandið öllu saman í matvinnsluvél þar til úr verður klístrað deig. Ég nota yfirleitt fersku döðlurnar með steinunum í – sem ég fjarlægi auðvitað – en hef líka notað þær í pokunum frá Himneskri hollustu. Þá þarf líklega að bæta smá vatni út í svo deigið loði saman, en bara örlitlu í einu. Annars skiptir höfuðmáli að nota gott kakó! Ég kaupi Green & Black’s í Heilsuhúsinu.

nammi4

Rúllið litlar kúlur úr deiginu og setjið í lítil konfektform. Eða, raðið á bökunarpappír og setjið í eitthvað geymsluílát, ef þið gleymduð að kaupa formin eins og ég. Geymið í ísskáp og laumist samviskulaust í dunkinn þegar sætindaþörfin lætur á sér kræla.

nammi3

nammi6

Bon appetit!

Merkt , , ,

Grænn janúar: granateplagrín

Granatmyntukínóa

Ég þarf ekki að vera ólétt til að fá skyndilega óstjórnlega löngun í einhvern ákveðinn mat. (Ég er að horfa á ykkur, grænu frostpinnar.) Um daginn varð ég allt í einu illa haldin af granateplaþrá. Ég hafði held ég aldrei borðað granatepli fyrr en þau dúkkuðu upp í hverju einasta ávaxtasalati sem við pöntuðum okkur á Indlandi í fyrra. Og ég borðaði svona þrjú salöt á dag síðustu vikurnar okkar, á ströndinni í Góu. Mögulega tengdist það því að ég var einmitt ólétt, án þess að vita af því, og þar sem ég hafði að mestu leyti lifað á hvítu hveiti og brasolíu vikurnar þar á undan hafði líkaminn mögulega smá þörf fyrir bætiefni. Ég fékk hreinlega ekki nóg af ferskum ávöxtum, og granateplin voru algerlega punkturinn yfir i-ið. Þegar þau eru fersk eru þessir litlu gimsteinar alveg passlega fastir undir tönn, sætsúrir og safaríkir. Og svo gera þeir bókstaflega allan mat girnilegan.

Ég gerði mér þess vegna sérstaklega ferð í Hagkaup, birgði mig upp af granateplum og át svo þetta kínóasalat í öll mál í nokkra daga. Það varð eitthvað svona rauð-grænt jólaþema, alveg óvart. Spínat, gúrka, mynta, granetepli og radísur og svo nokkrar ristaðar möndlur og smá vinagretta (gott orð). Dýrlegt. Og nú þarf ég ekki að borða annað granatepli fyrr en á næsta ári.

Er ég annars ein um svona æði? Eða eru fleiri sem fá svona dillur?

Merkt , ,

Grænn janúar: litaglatt grjónasalat

Grjónasalat 2
Það tókst! Ég náði mynd af kvöldmatnum mínum. Þremur, meira að segja. Þessi var reyndar líka af hvað-er-til-í-ísskápnum týpunni, en með hýðishrísgrjónum í stað hins hefðbundna pasta. Þar sem sambýlingurinn vinnur kokkavaktir er ég oftar en ekki ein heima með Bessann á kvöldin og því ekki alltaf mikill tími til stefnu til að elda og borða kvöldmat. Að fenginni reynslu reyni ég ekki lengur við rétti sem krefjast viðveru við eldavélina (já, ég er að horfa á þig, brennda lasagna/pizza/grautur). Helst verður eitthvað af salatætt fyrir valinu, því hvað sem öllu líður er ómögulega hægt að brenna það við. Þetta hér er alveg tilvalinn réttur fyrir grasekkjukvöldin mín. Hann er útúrsnúningur á Besta linsusalati í heimi (af bloggi sem ég gersamlega dái og dýrka – stútfullt af fáránlega góðum, hollum uppskriftum og fróðleik); ég notaði grjón í stað linsubauna af illri nauðsyn.

Grjónasalat

Ég gerði þennan rétt fyrst í sumar. Þá útbjó ég stóra uppskrift og borðaði yfir fjóra daga. Mig minnir að það hafi svo liðið tveir dagar áður en ég gerði aðra risauppskrift. Þetta er það gott. (Mögulega var ég með eilítið skrýtnar óléttutengdar matarvenjur, en ég skrifa þetta alfarið á gæðin!) Það góða við þetta salat er að það er hægt að snúa út úr því á alla vegu – bæta því grænmeti út í sem maður er hrifinn af eða á til hverju sinni – og svo geymist það líka alveg ljómandi vel ef maður setur ferska grænmetið bara út í jafnóðum.

Þið finnið upphaflegu uppskriftina á MyNewRoots – blogginu (sjá link að ofan). Ég gerði eftirfarandi: Skipti linsunum út fyrir soðin hýðishrísgrjón. Bætti út í þurrkuðum trönuberjum og kapers, en sleppti lauknum í þetta skiptið af ótta við að Bessinn mótmælti. Svo hreinsaði ég grænmetisskúffuna: henti út í snjóbaunum, gulri papriku, gúrku, tómat, sellerí, nokkrum ólífum, graskersfræjum og saxaðri steinselju. Þar sem litli maðurinn var farinn að ókyrrast aðeins slumpaði ég á dressinguna, en ég mæli með því að þið mælið í hana, að minnsta kosti í fyrsta skiptið. Hún er svo brjálæðislega góð! Mína vantaði örlítið upp á í þetta skiptið, en hún var ljúffeng engu að síður. Grunnurinn er ósköp einföld vinaigretta með sinnepi, en út í hana er svo bætt broddkúmeni, möluðum kóríander, túrmeriki og cayenne-pipar. Ég hef yfirleitt látið þar við sitja, en í upphaflegu uppskriftinni er líka smá negull, múskat og kanill. Guðdómlegt.

Grjónasalat 3

Ég hvet ykkur til að prófa – og skrolla aðeins í gegnum síðuna ef ykkur vantar heilsusamlegan innblástur. Verðukkuraðþví.

Merkt ,

Grænn janúar

Bessi 9 jan

Hér í Klapparstígshöllinni, eins og á svo mörgum öðrum bæjum, er hafið janúarátak eftir lystisemdir aðventunnar og hátíðanna. Í kjólinn eftir meðgöngu og jólin, svo að segja. Ég fer mér nú samt afar rólega og miða svona frekar að því innbyrða meira af káli og minna af konfekti en að ætla að hrista af mér sjö kíló á kortéri. Brauð og pasta var líka sent í frí í bili, að ósk sambýlingsins sem innbyrðir ansi mikið magn af brauði-með-einhverju-á þegar hann vantar orku í vinnunni. Þar sem við settumst niður að snæðingi eitthvert kvöldið um daginn og áttuðum okkur á því að við höfðum ekkert kjöt innbyrt í nokkra daga, án þess að taka eftir því, ákváðum við að eiga grænan janúar. Hér heima verður sumsé ekkert eldað nema grænmetisfæði.

Ég er þrælspennt fyrir þessu, aðallega þeirri áskorun að fara að elda aðeins meðvitaðri grænmetisrétti. Þó hér sé oft kjötlaust fæði á borðum er það oft eftir uppskriftinni hvað-er-til-í-ísskápnum plús pasta. Nú langar mig að verða nýjungagjarnari. Í gær gerði ég útgáfu af þessu hér. Mitt varð að avókadó-byggottó með sólþurrkuðum tómötum og klettasalati, borið fram með alltmúlígt-salati. Nú hlakka ég til að fara að skoða fleiri uppskriftir. Eitthvað tvist á vetrarsalatinu hennar Rachel Khoo úr The Little Paris Kitchen (sem er æði!) verður eflaust gert fljótlega. Uppskriftin hennar (sem er númer 21 á þessum playlista) kallar að vísu á geitaostsrjóma sem samræmist ekki endilega aðhaldinu, en það hlýtur að vera hægt að komast einhvern veginn í kringum það…

Hvernig tengist myndefnið þessu, spyrjið þið? Jú, ég gerði tilraun til að mynda þessa byggottó-matseld mína. Hún fór ekkert allt of vel; í fyrsta lagi var birtan eins og í meðalsvartholi og í öðru lagi ákvað barnið að þetta pjatt væri ekki að hans skapi og heimtaði athygli. Valið stóð því á milli þess að taka myndir af matnum eða klára hann. Þar sem ég hafði lítinn áhuga á að verða hungurmorða var myndataka flautuð af. Í staðinn er því boðið upp á mynd af Bessa að borða dýr, sem hann ætlar að halda áfram í janúar. Vonandi gengur myndataka betur næst.

Ég get einnig splæst í eina rándýra af absúrd góða morgunmatnum, sem hefur leyst ristaða brauðið af hólmi: hafragrautur með hör- og chiafræjum, döðlum, valhnetum og önfirskum bláberjum. Nammigott.

Grautum þetta í gang!

Merkt , ,

Velkomin, lokað

Ég er með dálítið matreiðslubókablæti. Sem kemur svo sem ekki á óvart, í ljósi þess að mér finnst gaman að elda mat og enn skemmtilegra að borða hann, hef áhuga á ljósmyndun og er þeirrar skoðunar að bóklaust líf sé lítils virði.

Skemmtilegastar finnast mér yfirleitt bækur þar sem mótar fyrir einhverri sögu á bak við uppskriftirnar eða bókina sjálfa. Ég er þess vegna nokkuð viss um að þessi myndi falla í kramið. Í henni er að finna uppskriftir frá mörgum frægustu veitingastöðum heims, en ekki af víðfrægum og rómuðum matseðlunum. Í staðinn gefa matreiðslumennirnir uppskriftir að týpískum staffamat á þeirra stað, og það vita þeir sem hafa unnið í veitingabransanum að staffamatur getur verið dýrlega góður og mjög… áhugaverður. Uppistaðan er enda yfirleitt það sem gengur af í eldhúsinu þá og þá vikuna. Sumarið sem ég vann í Iðnó, fyrir svo mörgum árum síðan að það er næstum því sárt að hugsa um það, var til dæmis nokkrum sinnum boðið upp á hreindýralasagna – sem mínir (óþroskuðu?) bragðlaukar kunnu ekkert endilega að meta.

Í þessari bók, Come In, We’re Closed,  kennir hins vegar ýmissa grasa: Þar er að finna bibimbap, maki-rúllur, rækju og andouille-pylsu gumbo og svo framvegis og framvegis og framvegis. Hverri uppskrift fylgir líka dálítið innlit á staðinn og miðað við umsagnirnar sem hún fær á Amazon er þessi textahluti bókarinnar alveg sérlega vel heppnaður. Maður fær þannig ekki bara uppskriftirnar, heldur líka góða tilfinningu fyrir lífinu á bak við tjöldin á þessum rómuðu veitingastöðum.

Hljómar spennó, þykir mér…

Merkt , ,
Auglýsingar