Greinasafn flokks: Hönnun og herlegheit

Gimsteinasápur

Ókei, ég er búin að vera með í bígerð hérna vikum saman svona óskalistapóst. (Já, það tekur mig margar vikur að skrifa bloggfærslur. Ekki dæma mig). Ég ætla meira að segja að æfa mig í að splæsa myndum saman í fótósjopp og alltsaman. Búið ykkur undir mikilfengleika og/eða að fara illilega hjá ykkur. Fótosjopphæfileikar mínir eru mjög takmarkaðir svo ekki sé meira sagt, en mig langar mikið að þroska þá aðeins. Svona aðeins lengra en „hvernig kveikir maður á þessu?“.

En. Etsy sendir mér reglulega svona „dót sem við höldum að þér finnist fínt“-tölvupósta. Ef ég vissi ekki þegar að þessar tölvur vita mun meira um okkur en mæður okkar væri ég farin að trúa á tilvist Guðs, því mér finnst undantekningalaust eiginlega bara allt fínt. Í nýjasta póstinum kom þetta. Gimsteinasápur. Og fínt er úrdráttur aldarinnar, svo ég beinþýði enskan frasa.

Ég sá í hendi mér að umræddur óskalisti myndi fljótt umbreytast í níuhundruð myndir af þessari dýrð, svo það væri alveg eins gott að slengja þessu bara inn svona. Vesgú, níuhundruð myndir af sápum. Já, ókei, eða þrjár.

Ju. Fyrsta skref er bara að henda út sorglega gamla sturtuklefanum og búa til baðkar, því svona sápur á að nota í baði. Við kertaljós. Ég verð í bandi eftir fimm ár, þegar það er orðið raunhæft.

Auglýsingar
Merkt , ,

Lykke & Other Stories

Það er ágætt fyrir budduna mína, og í beinu framhaldi aðbúnað barna minna og óektamanns, að & Other Stories sé ekki til á Íslandi. Kannski sér í lagi nú, þegar afrakstur samvinnu Lykke Li og merkisins er væntanlegur í verslanir. Forvitnir fengu smá smjörþef af línunni með þessu oggulitla en mjög svo huggulega myndbandi í gær.

Ég fæ svona suð í tærnar af hrifningu, þið vitið? Línan ku vera óskalisti Lykke Li sjálfrar, klassískar, svartar flíkur með beinum, einföldum línum. Svona maskúlína, mætti segja. (Ég segi mjög vonda brandara, já.)

Lykke er í mínum bókum með flottari konum í heimi hér, hún er töffa alteregóið mitt, konan sem ég væri ef ég hefði tíma og efni og kraftinn til. (Í staðinn held ég áfram að rokka mínu tætta, upplitaða sumarhári og sjö ára gömlum hlírabolum úr HM. Þetta er ekki tískublogg, ef einhver skyldi halda það.)

Ég meina jeminn. 

 

Þessi síðasta er nú alveg til þess fallin að blása tattúpælingum húsfreyjunnar byr undir báða vængi. Hm. 

Ég hlakka mikið til að sjá afraksturinn, þó ekki væri nema til að geta beint dagdraumunum í einhvern góðan farveg. 

I’m thinking of you but not in a creepy way

Ég hnaut um tækifæriskortin hennar Emily McDowell á Etsy fyrir löngu síðan, hló upphátt og forwardaði á alla sem ég þekki. Næstum. 

 

 

Hún gerir líka þetta hérna, sem ég trúi í hjarta mínu að súmmeri upp nokkurn veginn öllum langtímasamböndum fólks undir fertugu í heiminum:

Talandi um það er ég alltaf að daðra við að bannlýsa síma og tölvur úr svefnherberginu. Það heyrir reyndar til algjörra undantekninga að tölvurnar fái að koma upp í rúm að kvöldi til, mér til mikillar ánægju. Það er verra með símann. Ég ánetjaðist mínum þegar ég þurfti að halda mér vakandi yfir ungabörnum heilu og hálfu næturnar og ég er eitthvað voðalega háð því að hafa hann alveg við hliðina á mér. Sem er absúrd, það er ekki eins og ég sé að bíða eftir símtali frá Hvíta húsinu eða sætasta strák sem ég hef séð. (Sá sefur við hliðina á mér.)

Já. 

Kort, sem sé. Þau eru málið. Ef maður er hins vegar ekki æstur í að panta sér handgerðu kortin hennar Emily alla leið frá Amríku en vantar eitthvað skemmtilegt til að setja utan á pakka mæli ég hundrað prósent með ljósmyndakortunum sem fást á Borgarbókasafninu, með myndum úr safnkosti Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Þau eru æði. Og ljósmyndavefurinn þeirra alveg til þess gerður að fá mann til að gleyma bæði stund og stað og kvöldmatnum í ofninum. 

Mottur og merkilegheit

Motta, með höfuðstuðningi, eftir Charlotte Ackemar, nema við Konstfack í Svíþjóð.

Í tilefni þess að ég er ekki heima með eyrnabólguveikt barn, eins og ég var handviss um að myndi verða raunin miðað við slappleika umrædds barns í gærkvöldi, verður hér barasta skellt í eina bloggfærslu. Ég á  í einhverju stórskrýtnu sambandi við þetta litla blogg mitt. Ég hugsa oft í viku  að já, heyrðu, ég ætti nú að skrifa um þetta eða hitt… og svo fer ég að gera eitthvað annað. Leggja mig, oft. Fletta Pinterest. Íhuga að pússa á mér neglurnar (sem naglalakkið frá því í nóvember getur vottað að gerist heldur aldrei). En mér líður hins vegar alveg ofboðslega vel að vita af því hérna, litla horninu mínu. Sem verður kannski aðeins líflegra þegar dagarnir mínir fara aftur að hverfast um hvítvoðung (vonandi sofandi) og mjólkurbletti og vetrarsól og svona notalegt kóma.

En nú, í dag, þetta.

Blaðið Wallpaper hefur þrætt útskriftarsýningar og snuðrað í kennslustofum helstu hönnunarskóla heims og safnað saman yfirliti yfir mest spennandi útskriftarnema í hönnun og fleiri skapandi greinum árið 2014. Greinina má lesa hér.

Ég féll aðallega í stafi yfir hönnunarhlutanum, hlutum eins og mottunni hérna að ofan. Og þessum hér líka…

„Bagshelf“ eftir Grischa Erbe frá HFG Karlsruhe.

Þessi snilld hér að ofan er sem sagt hilla sem maður málar á vegginn hjá sér. Málningin inniheldur járnduft, svo seglar festast við hana. Og svo festir maður snagana og hólfin sem fylgja með alveg eftir sínu höfði. Brilljant.

Útimotta eftir Hönnu Anonen, Aalto University í Finnlandi.

Motta til útinotkunar, kjörin til að lífga upp á og gera kaldar finnskar (eða íslenskar!) svalir hlýlegri. Ég myndi ekki slá hendinni á móti einni svona á mínar – þegar ég er búin að ganga frá kössunum og draslinu sem enn prýðir þær eftir flutningana…

„A Mirror Darkly“ eftir Nick Ross í Konstfack í Svíþjóð.

Og þessi fegurð. Spegill sem sækir í kenningu um að á steinöld hafi vatnsskálar verið notaðar sem speglar. Hvað sér maður í svoleiðis spegli? Heillandi, ekki satt?

„Ceramic Stereo“ eftir Victor Johansson frá Central Saint Martins

Kannski fallegasta græja í heimi?

Merkt , ,

Úr ævintýraheimi

Það er eitthvað við þessa mynd, sem ég fann á síðasta (örstutta) innliti mínu á Etsy, sem heillar mig alveg. Gjörsamlega. Upp úr skónum og niður í stígvélin.

Þetta dýr, vísundurinn, er eins og eitthvað úr ævintýri. Narníu. Ég eins og bíð þess að hann snúi höfðinu og ávarpi mig. Og þar með er ég orðin forvitin um mýtur og goðsagnir um vísunda…

Merkt , , , ,

Klassískir hipsterar

Hæ!

Hér er ég, á Flateyrinni, netlaus og allslaus. Nei, djók. Alls ekki. En netlaus þó. Elsku Hugskotið verður því vanrækt eitthvað áfram, þar til netmál mín taka breytingum til hins betra.

Örstutt hér og nú, rétt á meðan Bessi sefur fyrir utan gluggann á Vagninum góða og ég sýp á rjúkandi kaffi: mér finnst þessi klassísku hipsteraverk ljósmyndarans Léo Caillards nokkuð mikil snilld bara. Ekki satt?

Caillard, sem vinnur mikið með myndvinnsluforrit, fékk hugmyndina á reglulegu rölti sínu um Louvre-safnið; hvernig nútímaklæðnaður myndi gjörbreyta þessum klassísku myndastyttum. Hann myndaði því stytturnar á safninu og lagði svo af stað í leiðangur um götur Parísar til að finna módel sem samsvöruðu styttunum frægu vel. Þau doblaði hann til að mæta í myndatöku í stúdíói og bregða sér í þessi hipsteraklæði og skeytti svo myndunum saman í eftirvinnslu. Þetta er afraksturinn.

Ég væri bara alveg til í þetta lúkk hér að ofan. Ha, með tambúrínu og barn á kantinum? Ji hvað ég tæki mig vel út. Bessi er náttúrulega skapaður eins og klassískur skúlptúr, með allar sínar vel útilátnu fellingar, og það verður að viðurkennast að ég fell nú svona frekar í endurreisnarstílinn en heróínchic hvað varðar líkamlegt atgervi…  Jamm. Hvað um það, skemmtileg pæling hjá Caillard karlinum.

Merkt , , , , ,

Fallega óreiðan og agustav

Á  daglegum lesrúnti mínum um uppáhaldsbloggin mín (sem ég er með í sérstakri bókamerkjamöppu hérna hjá mér, af því að mér finnst allt of framúrstefnulegt að nota til þess gerðar þjónustur til að fylgjast með framvindu mála í bloggheimum – og þá kæmi heldur ekkert skemmtilega á óvart þegar uppáhaldsbloggarinn er akkúrat búinn að birta nýja færslu… já, ég er kannski dálítið eftir á) hnaut ég um færslu á A Beautiful Mess.  Þær systur Elsie og Emma (ásamt fríðu föruneyti) skrifa þetta litríka blogg, sem er óþrjótandi uppspretta diy-hugmynda og augnayndis. 

Þær efna þarna til happdrættis í samvinnu við hönnunarmerkið agustav, þar sem lesendur geta unnið þetta fína bókahengi. Þar sem augu mín liðu yfir myndina tók einhver lasburða minnisfruma í afkimum heila míns lítinn kipp: „Noh, er þetta ekki bara alveg eins og kápan á… Bíddu… Og…“ Áttablaðarósin, Sakleysingjarnir og Myrká. Ég finn lykt af íslenskri hönnun. Eins og nafnið agustav hefði ekki átt að ýta aðeins við mér. 

Ég er ekkert merkilegri en aðrir sem fá svona smá sæluhroll yfir því sem vel er gert íslenskt. Og þetta finnst mér afskaplega vel gert. Bókahengin eru til í ýmsum útgáfum; styttri og lengri, úr eik, beyki og hnotu til viðbótar við viðinn hér að ofan sem kallast wenge og ég hef ekki hugmynd um hvað er. 

 

Mikið finnst mér þetta fallegt (Og sjáðu, Málverkið!). Nú á ég náttúrulega slíkt magn af bókum að ef ekki væri fyrir umtalsverða og yfirgripsmikla tetrisþjálfun mína á yngri árum (sko mamma, það kom að því að tölvuhangsið nýttist mér!) væri ekki séns að koma þeim fyrir í bókahillunum mínum. Þannig að ég get alveg gleymt þessari útfærslu held ég.

En! Ekki er öll von úti. Agustav gerir nefnilega líka þessi dásamlegu fatahengi. 

 

Hengið kemur með fimm hönkum – fjórum viðarlitum og einum í lit, en mér sýnist nú að það megi líka alveg koma með séróskir um litasamsetningu – sem er hægt að færa fram og til baka að vild.

 

Agalega fínt, þykir mér. 

Fariði svo og gleymið ykkur aðeins hjá þeim systrum. Þar er gott að vera, í fallegu óreiðunni. 

Merkt , , , ,

Með blóm í eyrunum

Ég veit fullvel að ég á aldrei eftir að leggjast í þessa framkvæmd sjálf, en ég pinnaði þetta samt á ljóshraða. . Svo er nú ekki víst að þetta sé alveg það praktískasta, en fegurðin… hún er óumdeilanleg.  Gerðu-það-sjálf iPhone-hulstur með pressuðum blómum. Nefnilega.

Hugmyndasmiðurinn heitir Clare McGibbon og vinnur fyrir Etsy. Hún deilir þessu verkefni á Etsy-blogginu, sjá hér. Allar myndir eru fengnar að láni þaðan.

Skref 1, raða blómum á hvítt hulstur.

Skref 2, líma þau á.

Skref 3, blanda resín og hella yfir (eða kvoðu? hvað kallar maður þetta?).

Og voila.

Mun ítarlegri leiðbeiningar á Etsy-blogginu. Þar er líka að finna alls konar annað skemmtilegt, svo ég mæli eindregið með innliti!

Merkt , , ,

Ljúflingurinn Paul

sweet1

Ljúflingurinn Paul, eða Sweet Paul eins og hann kallar sig, heldur úti ansi hreint fagurri heimasíðu. Hún byrjaði sem öllu umsvifaminna blogg fyrir nokkrum árum síðan, og mig rámar í hana þannig. Paul, sem er norskur að uppruna en býr og starfar í New York, er „craft“- (hvað heitir það á íslensku?) og matarstílisti og byrjaði að blogga til þess að geta deilt verkum sínum með aðeins stærri hóp en annars fékk notið þeirra. Bloggið vatt upp á sig þannig að úr varð ársfjórðungslegt rit, Sweet Paul Magazine, þar sem hann fær til liðs við sig fjöldann allan af hæfileikaríku fólki. Afraksturinn er svona þokkaleg innblásturssprengja fyrir fólk eins og mig, sem kann að meta punt og fínerí, blóm og kökur og allt sem er huggulegt í lífinu.

Nýjasta ritið kom út nú fyrir helgi. Það má lesa á netinu hér, eða, ef maður er alveg æstur, panta í áþreifanlegra formi. Ég mæli með því, svona með rjúkandi kaffibolla og helst einhverju sætu við höndina. Annars þolir maður ekki við. Ekki ég, að minnsta kosti. En svo er ég líka týpan sem vil helst fá eftirrétt eftir morgunmatinn.

sweet2

springdesk1imac

Merkt , , , , , ,

Öll dýrin í skóginum

Þó enn sé nú eitthvað í það að Bessinn minn góði flytji yfir í sitt eigið herbergi er ég farin að láta hugann reika um hvernig það gæti litið út þegar þar að kemur. Ég hnaut um þessa síðu ljósmyndarans Sharon Montrose á netinu og varð frekar mikið skotin í myndunum. Nokkrar þeirra eru þegar komnar á veggina í ímyndaða barnaherberginu mínu…

 

 

Ég meina það, er þetta ekki hræðilega sætt?

Á síðunni eru líka aðrar og minna barnalegar myndir og mér finnst fuglamyndirnar eiginlega bara allar flottar. Hrægammasettið er sérlega heillandi, og svo mætti buffalóinn líka alveg gera sig heimakominn á loftinu hjá mér:

Er annars rangt að hlakka alveg verulega til þess að barnið flytji í sitt eigið herbergi? Hann er þannig af guði gerður, þessi elska, að hann rumskar ef við hækkum raddirnar bara rétt upp fyrir hvísl. Ég er farin að sakna þess alveg verulega að geta talað við manninn minn uppi í rúmi á kvöldin. Lesið. Jafnvel, guðhjálpokkur, horft á einn þátt í tölvunni eða svo. Og allt hitt. Þiðvitið. Ef það væri ekki fyrir þá staðreynd að hann er enn að vakna tvisvar til þrisvar á nóttu til að fá sér sopa og barnaherbergið er alveg hinum megin í íbúðinni væri ég eflaust byrjuð að mála…

Segi ég. Svo fæ ég pottþétt svakalegan aðskilnaðarkvíða og þetta endar á því að hann flytur upp í okkar rúm og sefur þar fram að fermingu.

Allavega. Fínar myndir!

Merkt , , , , ,
Auglýsingar