Greinasafn flokks: Heimurinn fyrir fótum mér

Wanderlust: Seattle til San Francisco

Rainier National Park [EXPLORED #279]

Fyrir utan vinnu hefur síðustu vikuna verið lítill tími aflögu til annars en að sinna hnybbnum dreng (sem hefur hlotið viðurnefnið hákarlinn vegna fjölda tanna sem spýtast nú niður úr gómnum). En annríkið kemur ekki í veg fyrir að hugurinn reiki, ónei. Og minn hugur hefur reikað sérstaklega í eina átt, yfir hálfan hnöttinn hérumbil. Í hjáverkum er ég þess vegna búin að plana fjölskylduferð sem vonandi verður að veruleika á næsta ári. Eða þarnæsta.

Mig hefur lengi langað að fara í road trip um Bandaríkin, eins og svo ótalmarga. Ég nenni hins vegar engan veginn að þeysast áfram og hafa ekki tíma til að bregða út frá ferðaplani, mér alveg hreint svínleiðast þannig ferðir. Atla sömuleiðis. (Bessi hefur ekki tjáð sig um málið þegar þetta er ritað). Við erum þess vegna sammála um að það væri hreinasta bilun að ætla að ná öllum Bandaríkjunum í einu – ja, nema þá við vinnum í sitt hvoru lottóinu og getum tekið ársfrí frá störfum. Sem ég er einmitt alltaf að bíða eftir.

Þessi draumaferð hér yrði því bara fyrsti leggur af mörgum. Mér reiknast til að hægt væri að dóla sér þessa leið í mjög maklegum takti á þremur vikum, með góðum stoppum í borgunum (og jafnvel millilendingu í New York? Hmm.) Planið er svona, en hafa ber í huga að það er enn mjög grófstappað: Flogið til Seattle. Nokkrir dagar í af-jetlöggun og borgarskoðun. Þá er pakkað niður og haldið út í náttúrufegurðina í einhverjum af þjóðgörðum svæðisins. Við gætum skoðað Rainier-þjóðgarðinn (sjá mynd að ofan), til dæmis, og San Juan eyjarnar, sem virðast alveg hreint frekar dásamlegar.

 Og ef maður er á ferðinni í Washingtonríki í maí, mætti jafnvel stoppa á Sasquatch! tónlistarhátíðinni. Hún hljómar eins og eitthvað alveg temmilega frábært. Og staðsetningin, maður, með útsýni yfir Columbia-ánna. Fallegt.

Svo gætum við skoðað hellana við ströndina í Oregon áður en við færum til Portland. Ég veit ekki af hverju, en ég er alveg búin að bíta í mig að það sé borg að mínu skapi. Kannski af því þar er að finna stærstu bókabúð í heimi, Powell’s. Og víðfræga kaffibrennslu, Stumptown. Og Ace-hótelið sem ég væri til í að búa á, bara alltaf. Hljómar nokkuð vel, ekki satt?

Næsta alvöru stopp, samkvæmt þessu grófa plani, væri heimsókn í Redwood þjóðgarðinn í norður-Kaliforníu, til að klappa risafurunum. Ó, risafururnar. Ég verð að fá að hitta þær einhvern tíma á ævinni, þessa ævafornu, þöglu risa. Ég fæ eiginlega gæsahúð bara af því að hugsa um þær.

Del Norte Redwoods - 4x5 HP5+

Og svo Napa-dalurinn og vínsmökkun og lokaáfangastaðurinn sem er ekki síður heillandi, San Francisco. Fisherman’s Wharf og Haight og Mission-hverfin og góður matur og sporvagnar og pastellit hús og brattar götur… Já.
San Francisco

Draumur í dós. Flugmiðarnir eru alls ekki svo dýrir, og svo er þá bara að útvega sér fararskjóta á staðnum. Við höllumst að bílaleigubíl og jafnvel tjaldi meðferðis, þá gætum við gist í einhverjum þjóðgarðanna. Ódýrara en hótelnótt og skemmtileg tilbreyting. Ég hef held ég bara hvergi gist í tjaldi nema á Íslandi, en ku víst vera hægt utan landssteinanna líka.

(Og já, ég er búin að fletta því upp að mýtan um eilífa rigningu í Washington (og jafnvel Oregon) er sönn – en yfir vetrartímann. Ef maður er á ferðinni yfir sumarmánuðina ætti bara að sjást alveg helling til sólar!)

Ah já. Að ári. Eða tveimur.

Og pssst. Myndirnar eru linkaðar við upprunalegar síður.

Auglýsingar
Merkt , , , ,

Brúðkaupablætið

Ég er með smá brúðkaupablæti. Svona smá. Laumuskoða brúðarkjóla á Pinterest og dáist að skreytingum á bloggum og rissa upp lagalista í hausnum á meðan ég bíð eftir strætó. Þetta er allt mjög þeoretískt samt, ég er í rauninni ekki beint að hugsa um sjálfa mig í þessum aðstæðum heldur meira svona hvað þetta er nú allt voðalega skemmtilegt og gaman. Ef eða þegar að mér kemur á ég eflaust eftir að verða svo illa þjökuð af valkvíða að athöfnin fer fram í kyrrþey í hesthúsi einhvers staðar.

Það eina sem ég er búin að bíta í mig að ég myndi vilja gera er að einmitt afþakka mjög pent öll kaffistell og blómavasa en skrá mig (ókei þá, okkur!) á eina af þessum bráðsniðugu hveitibrauðsdagasíðum. Óskaplega er hveitibrauðsdagar annars óþjált orð. Hunangstunglið hljómar nú betur, er það ekki?

Ég sá hugmyndina fyrir einhverjum árum síðan hjá henni Joönnu (sem ég virðist nú vísa í í hverri færslu, sorrí með það) og fannst hún framúrskarandi. Miklu skemmtilegra og persónulegra en að gefa bara peninga upp í ferð.

Síðurnar (eins og til dæmis þessi hér) virka þannig að parið skráir sig og tínir síðan til ýmislegt sem það vill gera í brúðkaupsferðinni sinni. Segjum að áfangastaðurinn sé Ítalía. Gestir geta þá til dæmis valið að gefa hálfan flugmiða, eða skoðunarferð um Róm, leigu á vespum í einn dag, tvær chianti-flöskur, tvo gelato-ísa, lestarmiða, nótt á hótelsvítu, ilmkerti til að taka með… Jú neim itt. Fólk kaupir eitthvað af þessu á síðunni og parið fær aurana, en líka persónuleg skilaboð frá gefanda. Svo fer það í draumaferðina sína og upplifir eitthvað nýtt í boði vina og fjölskyldu á hverjum degi.

Ef þetta er ekki brilljant hugmynd þá veit ég ekki hvað. Og fyrir mína parta myndi ég miklu, miklu heldur vilja fara í ógleymanlega ferð sem allir sem ég elska eru einhvern veginn innviklaðir í, en að eignast stell af Iittalaglösum.

(Þetta ber þó ekki að túlka sem svo að ég taki ekki á móti Iittalaglösum svona alla jafna, ef einhver er ólmur í að gefa mér slík. Ég er alveg til í þau sko. Ha?)

Merkt , , , ,

Af draugaborg og konu með silfurhár

Harmleikir – bæði þeir skálduðu og raunverulegu – eiga greiða leið að hjarta mínu. Kannski hafði  Aristóteles ýmislegt til síns máls varðandi kaþarsis; útrásina sem slíkir leikir veita okkur. Ég veit það ekki. Það er hið mannlega sem höfðar til mín. Og maðurinn er einhvern veginn aldrei jafn berskjaldaður, jafn ber og mannlegur og þegar lífið breytist í harmleik á svipstundu. Þá sýnir hann sínar allra bestu hliðar; ótrúlegt hugrekki, fórnfýsi og manngæsku sem blæs manni í brjóst endurnýjaða trú á heiminn og mannkynið. Harmleikurinn afhjúpar líka skuggahliðarnar. Allt það myrka, vonda, ljóta sem á sér líka bólfestu í mannskepnunni og brýst oft fram við slíkar aðstæður.

Þetta heillar mig. Maðurinn og allt hans skrýtna, góða, vonda, myrka, ljósa litróf heillar mig.

Ég hnaut um þessa grein á ferðavefnum Global Grasshopper; lista yfir áfangastaði í Evrópu þar sem sorgin er aðalaðdráttaraflið. Mig langar á þessa tvo. Annars vegar í draugaborgina Pripyat sem var rýmd 36 tímum eftir kjarnorkuslysið í Chernobyl. Íbúarnir héldu að þeir myndu snúa aftur eftir örfáa daga, en þeir komu aldrei til baka. Tíminn stoppaði. Um götur borgarinnar ganga villt dýr, húsin morkna og sovétáróðurinn sem má sjá út um allt er smátt og smátt að flagna af. Parísarhjólið í skemmtigarðinum sem átti að opna nokkrum dögum eftir að slysið varð hefur ekki enn farið jómfrúrferðina.

Mig hefur líka lengi langað til Auschwitz-Birkenau, þó ég viti vel að ég eigi eftir að þurfa marga daga til að jafna mig eftir heimsókn þangað.

Þegar ég var í menntaskóla í Svíþjóð fengum við heimsókn frá eftirlifanda; pólskri konu sem sagði okkur frá því hvernig fjölskyldu henni var smalað saman, tvístrað og þau flutt í mismunandi búðir. Söguna af mömmu hennar og hárlitnum mun ég muna til æviloka, hugsa ég.

Gyðingarnir í þorpinu þeirra höfðu fengið ávæning af því sem átti sér stað, vissu að hermennirnir nálguðust. Þeir vissu líka að fólki var skipt upp í hópa eftir aldri, og höfðu óstaðfestan, nagandi grun um hvað henti þá sem dæmdir voru „of gamlir“. Móðir þessarar konu skartaði síðu, silfurgráu hári sem aðrar konur í bænum öfunduðu hana af. Hún óttaðist að hárið, þetta fallega hár sem hún hafði safnað svo lengi og hirti svo vel, yrði henni að falli. Nóttina sem hermennirnir komu í bæinn lokaði hún sig inni á baði með dökkan hárlit og faldi silfrið í hárinu, litaði það hrafnsvart eins og hár dætra sinna. Faðirinn var unglegri, ekki enn orðinn silfraður, og hafði því ekki sömu áhyggjur.

Gyðingunum var smalað saman daginn eftir, látnir hnipra sig saman á íþróttavelli bæjarins með örfáar pjönkur í poka. Svo var þeim skipt upp. Hermennirnir gengu um, pikkuðu í axlir og drógu gamla fólkið afsíðis. Fjölskyldan beið með stein í maganum, eins og allar hinar. Mamman fékk að vera og þau vörpuðu öndinni léttar. Dagurinn leið, það dimmdi, fólkið húkti og hjúfraði sig saman og beið þess sem verða vildi.

Undir kvöld fór að rigna.

Svipurinn á andliti þessarar konu, þegar hún lýsti því hvernig hárliturinn rann  í dökkum taumum niður andlitið á mömmu hennar, er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Alltaf muna. Við grétum öll með henni þegar regnið jókst. Hermennirnir komu. Þeir tóku konuna með dökku tártaumana og silfraða hárið og dóttir hennar sá hana aldrei aftur.

Svo ég vil fara til Auschwitz-Birkenau. Og ég veit að ég verð ómöguleg í marga, marga daga á eftir. En ég vil ekki gleyma. Ég vil alltaf muna þessar mæðgur, og í gegnum þær alla hina.

Merkt , ,

Útþráin

Víetnam1

Í dag er ég haldin útþrá. Dagurinn er yndislega fallegur, sólbjart og kalt veður, Esjan glampandi hvít með rjúkandi snjótopp og borgin upp á sitt besta. Mig langar samt út. Til Víetnam, kannski, til að borða sterkan kjúkling með chillí og sítrónugrasi og drekka tónik með því það er svo sérkennilega gott í hita og raka. Grafa tærnar í hvítum sandi og hlaupa svo út í volgan sjó, busla með Bessa í fjöruborði og telja nýjar freknur þegar heim er komið. Mig langar að silast áfram eftir götum Saigon, þar sem verkamenn sofa í hópum hér og þar, og taka til fótanna þegar himnarnir opnast og úrhellið steypir sér yfir borgina. Drekka sterkt víetnamskt kaffi og brosa á móti öllum sem hamast við að brosa til mín, spila yatzi og hlæja og fitja upp á nefið yfir ruslalyktinni og hlaupa frá ágengustu götusölunum.

Víetnam3

Víetnam4

Víetnam6

Víetnam5

Já. Í dag langar mig út í heim.

Merkt , ,

Fyrir ári síðan…

Cochin krydd jan 12

… tók ég þessa mynd í Cochin í Kerala á Indlandi. Það var um það bil fjörutíu stiga hiti, við höfðum verið á ferðinni í tæpan mánuð og áttum enn næstum tvo eftir í ryki og hita og mannmergð og áreiti. Tvo mánuði enn af hælsærum og svita og kuldaskjálfta í næturlestunum og chai-drykkju og thali-áti og ævintýrum og uppákomum, árekstrum og átökum og, svo, í lokin, óléttu.

Ó, Indland. Mikið ertu langt í burtu núna.

Það sem er hins vegar ekki langt í burtu eru myndirnar 930 sem ég á eftir að sortera og gera eitthvað við. Ja, 929 núna. Það væri kannski ráð að fara að gera eitthvað í þeim efnum.

Merkt , , ,
Auglýsingar