Greinasafn flokks: Ást í netheimum

Sumar í skál

Ég er á Flateyri. Hér er enn snjór í sköflum. Jess.

Ég er opinberlega komin með nóg af þessu vetrarveseni og til í sumarið. Núna. Mig langar í nýjar freknur og að svitna aðeins á nefinu undan sólgleraugunum, sitja á pallinum við Sveinshús og spjalla og sötra svaladrykk eða sleikja í mig ís eins og makindalegur köttur.

Mmm. Ís. Sumar í skál.

Tveimur dögum áður en við fórum úr Reykjavíkinni uppgötvuðum við Atli að það er svona frosin-jógúrt-sjoppa í göngufæri við okkur. Við grétum bitrum tárum ofan í dásamlega jógúrtina yfir því að við værum að fara og yrðum að vera án hennar í sumar. Eftir að hafa fundið afsökun til að fara þangað þrisvar á þessum tveimur dögum ákvað ég snarlega að líta á það blessun að við værum að fara – annars værum við bæði líklega nú þegar búin að bæta á okkur eins og fimm kílóum.

Roasted Strawberry Coconut Milk popsicle

Og nú sit ég hér, í snjónum á Flateyri, og læt mig dreyma um frosna jógúrt og heimagerða kókosmjólkuríspinna og bananabláberjaís og allt þetta fáránlega girnilega sem ég hef pinnað eða búkkmarkað í gegnum tíðina og skrolla nú í gegnum og slefa yfir. 

Ég hugsa að ég splæsi í ísvél á eldhúshjálpina mína þegar við komum heim aftur. Já.

Myndir eru linkaðar við upprunafærslur. Hvert og eitt þessara blogga er svo alveg gjörsamlega þess virði að týna sér í. Hvað hafið þið betra við tímann að gera? Ég er í þessum skrifuðum orðum límd við Oh, Ladycakes. (Ekki bara svona áhugavert-límd, meira svona æ-úps-tungan–föst-við-tölvuskjáinn límd. Eða næstum því. Ég meina, hvaða rugl er þetta?)

Ís.

Mmmm.

Auglýsingar
Merkt , , , ,

Draumar og daguerrotýpur

 

Ég á að vera að vinna og ég er að fara að vinna, en ég bara varð. Manneskjan sem stofnaði tumblerinn My Daguerreotype Boyfriend – Where Early Photography Meets Extreme Hotness á skilið að fá vörubílshlass af blómum og eilífðaráskrift að háum fimmum, bara fyrir þennan titil. 

Og svo eru það myndirnar. Vá. Algjörlega upplagt tækifæri til að týna sér aðeins í draumaheimi. 

 

Myndunum fylgir svo  yfirleitt örlítil saga um ævi og örlög myndefnisins, sem er alla jafna frekar heillandi. Ég mæli alveg með því að gleyma sér þarna í nokkrar mínútur ef ykkar hjörtu eru jafn svag fyrir fjallmyndarlegum, gengnum mönnum og mitt… 

Merkt , , ,

What the

Þessi síða er að drepa mig úr fyndni, það er bara þannig. Whatthefuckshouldimakefordinner.com. Brillíant.

fuckingprawns

 

fuckingjambalaya

fuckingwildmushroom

 

Híhíhí.

Merkt ,

Níu til fimm og ást við fyrstu sýn

Þetta er Sandra. Hún er sænsk, vinnur sem textasmiður á auglýsingastofu og skrifar eitt allra vinsælasta blogg Svíþjóðar. Sandra og ég höfum þekkst í nokkur ár, nema að hún þekkir mig ekki neitt. Ég les hins vegar bloggið hennar daglega og hef gert í langa tíma. Ég hef fylgt henni í gegnum tvær ástarsorgir, flutning frá Stokkhólmi til New York, nýjar vinnur, ferðalög til Frakklands og Mexíkó og Japans og Rússlands og ég veit ekki hvað, í endalaus partí og í bíó og heim til nýrra vina á nýjum stöðum og sólin sest einhvern veginn aldrei yfir húsþökunum á Manhattan. Nú er Sandra, sem er ekki orðin þrítug og samt búin að prófa og gera svo ótalmargt, að skipta aftur um gír; fara frá New York, sem hún elskar svo heitt, til Parísar, til að prófa að gera ekkert annað en blogga og skrifa bækur eins og klassíski fátæki listamaðurinn. Ég er, á einhvern snareinkennilegan hátt, stolt af henni. Það er efni í sálgreiningu fyrir áhugasama.

Ég fékk nokkrar myndir lánaðar af blogginu hennar fína, góða og tengi þær að vanda allar við upprunalegar færslur.

Fyrir utan hvað hún er naskur ljósmyndari og fundvís á fallega hluti elskar hún fögur orð, eins og ég. Eins og þau á síðustu myndinni. Niotillfem, hér.

Textinn á plakatinu á efstu myndinni fær hjartað mitt alltaf til að slá aðeins hraðar og er kannski einstaklega viðeigandi á þessum fallega vetrardegi:

In the midst of winter,

I found there was,

within me,

an invincible summer.

Ó, fegurð.

Merkt , , , , ,

Ást í netheimum: Elsa Billgren

En annan söndag - Elsa Billgren

Ég hafði hugsað mér að gera Ást í netheimum að smá seríu og deila nokkrum af uppáhaldsbloggunum mínum. Eða kannski mörgum. Því þau eru firnamörg. Mér finnst nefnilega svo dásamlega gaman að fikra mig áfram eftir bloggum eins og stíg; finna eitthvað sem mér líkar við og láta þann bloggara benda mér áfram að sínum uppáhöldum. Hinir alþjóðlegu bloggheimar státa nefnilega af litlum samfélögum – nokkurs konar afmörkuðum, stafrænum hverfum. Þar býr fólk sem hefur svipaðan smekk og dáist hvert að öðru. Maður getur eiginlega séð það fyrir sér veifa hvort öðru yfir götuna eða spjalla yfir rjúkandi kaffibolla. Ef maður er svo heppinn að finna réttan stíg ratar maður inn í hverfi sem er eins og manns eigið, eins og maður sé að koma heim. Og finnur lyktina af kaffinu.

Ég var þegar búin að skrifa um Mariu á Hickory and Juniper. Næst er Elsa Billgren. Kannski hefði ég átt að byrja á henni. Elsa skrifar nefnilega allralangmestbestauppáhaldsbloggið mitt í heiminum. Og ég vil að sem allra flestir viti af því. 

Torsdagsprep - Elsa Billgren

Eins og mörg blogganna sem ég les er þetta á sænsku. Elsa er sumsé sænsk. Hún er sænsk og rauðhærð og góður ljósmyndari og frábær penni og stöðug uppspretta hugmynda og innblásturs. Hún er 27 ára gömul og þegar búin að gera meira en mig dreymir um að koma í verk fyrir fertugt, eða bara nokkurn tíma: hún er einn þáttastjórnanda hönnunarþáttarins Äntligen hemma, er sérfræðingur í öllu sem viðkemur vintage-klæðnaði, er að fara að gefa út bók á næstu vikum og safnar gömlum brúðarkjólum sem hún leigir síðan út. Konan er ótrúleg. Hún kemur fram í útvarpsþáttum og sjónvarpi og kann að dekra við sjálfa sig og drekkur spennandi drykki og borðar á spennandi stöðum.

Og myndirnar. Maður minn:

saker och ting - Elsa Billgren

Thursday - Elsa Billgren

I <3 Paris saturday - Elsa Billgren

blackberry pizza and dessert - Elsa Billgren

I <3 Paris, friday I - Elsa Billgren

Saturday breakfast - Elsa Billgren

Elsa býr í lítilli íbúð í Stokkhólmi með svörtum ketti, bleiku píanói og eiginmanninum sem hún kallar úlfinn (Vargen), eldar girnilegasta mat í geimi, dýrkar París og skilur þýsku. Hún skrifar um ástina, vináttu, að líða vel í eigin skinni og allt mögulegt annað, bæði það sem er skemmtilegt og snúið í lífinu. Það allra besta við hana er kannski sambandið á milli hennar og tryggs lesendahóps. Ég held ég viti engan annan hóp sem þykir svona vænt um bloggarann „sinn“. Og öfugt.

friday outfit - Elsa Billgren

Elsa skrifar stutta samantekt á ensku við hverja bloggfærslu og svo má náttúrulega alltaf notast við google translate. Eða bara falla í stafi yfir myndum og geta í eyðurnar. Eða fara að læra sænsku. Elsa og bloggið hennar er bara fínasta ástæða til þess.

Sem sagt. Mæli endalaust mikið með. Aftur: hér.

Allar myndir fengnar að láni frá Elsu og linkaðar við bloggfærslurnar. 

Merkt , , , ,

Lofaðu mér

Lítið og ó svo fallegt sunnudagsljóð á jafn fallegum degi. Tumblerinn hans Tyler Knott er kominn í bókamerkin mín – hann er hreinlega stútfullur af fallegum orðum. Maðurinn skrifar eina hæku á dag og gott betur en það. Hann er ótrúlegur. Ég gæti gleymt mér tímunum saman í hugarheimi hans.

Merkt , , , ,

Hikkoría og einir

Ég elska þegar ég rekst á blogg sem smellpassar svo við minn smekk að mér líður eins og ég hafi hitt fyrir gamlan og góðan vin, frekar en alveg óþekkta manneskju í öðru landi. Kannist þið ekki við það? Ég álpaðist inn á bloggið  Hickory and Juniper eftir einhverjum krókaleiðum og það var svolítið eins og að koma heim til bestu vinkonu minnar sem ég vissi ekki að ég ætti.

Maria Confer í býr í Minnesota og bloggar um daglegt líf sitt og hversdagsævintýri, en einna helst um húsið sem hún og eiginmaður hennar eru að gera upp og öll diy-prójektin sem þau hafa tekist á hendur í tengslum við það. Ég er ekkert lítið inspíreruð! Fiffuðu IKEA-stólarnir mættu alveg flytja heim til mín og þetta ísskápsmeikóver er stórsniðugt. Ég á eina rúllu af veggfóðri sem ég fékk á gjafverði á flóamarkaði á Ísafirði. Ætli þetta væri verðugt hlutverk fyrir hana?

Nú ætla ég að halda áfram að lesa mig aftur á bak í gegnum bloggið hennar og bæta henni á leslistann minn góða. Og láta mig dreyma um að ég eigi hús frá 1927 sem ég er að gera upp. Jájá.

Allar myndir eign Maria Confer, fengnar að láni frá Hickory and Juniper og linkaðar við færslurnar.  

p.s. Hversu krúttlegt er orðið hikkoría? Ég þarf að fara að koma því að í daglegu tali.

Merkt ,
Auglýsingar