Foreldraverðlaunin, framhaldssaga

ulfurmamma

Mitt daglega líf lítur einhvern veginn svona út þessa dagana.

06.00-07.15. Ræs. Dagana sem ég er farin á fætur klukkan 05 eitthvað vil ég bara ekki tala um. Og dagarnir sem við sofum lengur en þetta eru svo sjaldgæfir hvítir hrafnar að ég er hrædd um að ef ég minnist orði á þá fælist þeir, fljúgi á brott, kúki á húsið mitt á fluginu og komi aldrei aftur. Ræsið felst yfirleitt í því að Bessi kallar og vill fara á fætur. Sem hann/við og gerum. Bessi hefst handa við að lita „krana byggja húsið“ og við hin hlýðum fyrirmælum hans. Með nokkurri list er hægt að tæla hann til að fá hreina bleyju og fara í föt. Að meðaltali inniheldur morgunn 1,8 grátköst.

08.30 fer Bessi í leikskólann og faðir hans til vinnu. Úlfur leggur sig oftast upp úr þessu í tvo tíma og oftar en ekki legg ég mig líka, af þeirri hressu ástæðu að ég er þá búin að vakna 3-4 sinnum yfir nóttina til að sinna þessum dýrum mínum. Þar sem það eru nú rúm tvö ár síðan ég svaf síðast heila nótt (ólétta-lítiðbarn-ólétta-lítiðbarn) held ég líka að ég falli í flokkinn þarna um langþreytu. Mögulega. Smá.

11.00-13.30 Við Úlfur vöknum, hann fær að drekka, ég fæ morgunmat og kaffi ef ég er heppin. Ég reyni að koma einhverju í verk. Stundum set ég í þvottavél. Kannski get ég þurrkað af í einu herbergi, eða, á lúxusdögum, þrifið baðherbergið. Aðra daga fer ég jafnvel í sturtu. Allt af ofangreindu er framkvæmt með misósátt barn á kantinum, sem finnst fásinna að móðir þess þurfi að gera eitthvað svona asnalegt eins og að þvo sér um hárið. Óheppinn hann, því allir aðrir í heiminum eru mjög fylgjandi því að þunnhærða konan fái að lífga upp á klessta greiðsluna mjög reglulega. Svo fær Úlfur mauk að borða, annan sopa og fer aftur út í vagn að lúra.

13.30 – 15.45. Úlfur sefur. Ég reyni að gera eitthvað af viti – undirbúa kvöldmat, til dæmis, svo kvöldrútínan með tvö misósátt börn verði aðeins auðveldari. Já, úps, eða senda tölvupóstinn til leikskólans sem ég gleymdi að senda í morgun. Eða, guð, átti ég ekki að vera búin að læra eitthvað fyrir skólann? Úbb, hvenær vökvaði ég blómin síðast? Umm, hvenær borðaði ég síðast? Aha, ég á eftir að hengja úr vélinni! Nema að nei, Úlfur sefur úti á svölum og ég þori ekki út ef ég skyldi nú vekja hann… Eða bíddu við, vekja hann? Klukkan er að verða fjögur, við þurfum að fara að sækja Bessa! Ég verð að vekja hann!

16.00-16.15, sæki Bessa á nýja leikskólann, spyr titrandi röddu hvernig dagurinn hafi verið, er fullvissuð um að Bessi standi sig mjög vel (nema þegar ég spyr stelpuna sem setur upp meðaumkunar-sorgarsvip og segir að æææ hann eigi nú svolítið bágt. Dreptu mig.). Við spásserum um hverfið, leitum að kisum, förum á róló eða bröllum eitthvað annað.

17.00 Atli kemur heim. Við taka þrír óralangir tímar. Klukkan sex er Úlfur orðinn ómögulegur af þreytu og pirringi, fær graut. Bessi er orðinn svangur og pirraður líka, svo töfragjörningurinn mata-Úlf-og-halda-Bessa-góðum-og-elda-kvöldmatinn er framkvæmdur undir ljúfum tónum tveggja ósáttra barna. Hálftíma síðar borðum við, þá er Úlfur að nálgast sturlun af þreytu. Svo fær hann pela og gjörningurinn ganga-frá-eftir-kvöldmat (sena sem er alltaf eins og spastískar risaeðlur hafi komið saman til að snæða) er framkvæmdur á meðan Bessi reynir annað hvort að setja nýtt met í væligráti (þessi sem er mjög óekta en sker í hlustirnar) eða slasa sig alvarlega með príli á húsgögnum.

20.00 Drengir komnir í náttföt og upp í rúm eftir tannburstun (líka þekkt sem pyntingar), lestur og söng. Bessi mótmælir smá, foreldrum hans til gríðarlegrar ánægju, en sofnar undantekningalaust sjálfur á endanum. Úlfur sofnar örsjaldan sjálfur, þarf oftar smá knúsi-ruggi-aðstoð.

20.05 Við hrynjum í sófann, búin á því eftir átökin. Þá á bara eftir að skúra eldhús og borðstofu, brjóta saman þvottafjallið í stofunni og hvernig var með þvottinn í vélinni, þarf ekki að hengja hann út? Og jú, gott ef ég átti ekki einmitt að skila skólaverkefni, eða bíddu… Yfirleitt endar þetta á að við gerum einhver húsverk af veikum mætti og störum svo ósjáandi augum inn í internettómið á meðan við hlustum á sjónvarpsdagskrána á rúv.

22.00-23.00 Skríðum í rúmið. Sofnum. Nema ég, þegar ég er ofsaþreytt, sofna ekki. Það er mjög gaman. Og svo vaknar Úlfur og svo Bessi og svo Úlfur…

Heillandi líf, eins og þið heyrið.

Nú er því svo farið að ég er ekki manneskjan sem brosi hringinn og hjala um eintóma gleði og lífsins sælu hvað viðkemur litlum börnum. Ekki misskilja, ég dýrka strákana mína og finnst þeir langsamlega best lukkuðu manneskjur í heimi. Kalt mat. En ég viðurkenni líka mjög fúslega að það er margt mjög mikið meira gefandi en að eiga í tveggja klukkutíma samræðum við pirrað ungabarn, hvers orðaforði nær bara til „brrrrr“ og „baabbababa“. Ég upplifi mig hins vegar reglulega líka verulega mislukkaða fyrir vikið. Mér líður eins og ég ætti að stara djúpt í augun á Úlfi alla daga frá morgni til kvölds, kyrjandi barnavísur og sveiflandi þroskaleikföngum á meðan ég fer með margföldunartöfluna og sem skemmtisögu um lotukerfið. Í staðinn er ég oftar en ekki að reyna að borða hádegismat og brjóta saman þvott í einu, vissulega kyrjandi barnavísur, en það ofan í umkvartanir hans vegna þess að hann er eina ferðina enn búinn að velta sér á magann þrátt fyrir að hann vilji alls ekki vera á maganum. Ég upplifi mig líka mislukkaða þegar mér tekst ekki að vinda ofan af sjötta geðvonskukasti Bessa þann daginn með yfirvegun og útsjónarsemi, heldur enda á því að fórna höndum yfir organdi barni sem finnst ótækt að það megi ekki borða saltstangir í kvöldmatinn og stynja „Þetta er bara svona!“

Ég held, ég vona og trúi, að ég sé ekki ein. Ekki ein um að finnast ég ekki alveg vera að sópa að mér foreldraverðlaununum. Og ég veit að fyrir mína parta finnst mér afskaplega hressandi að lesa um aðra mislukkaða, eða mislukkulega, foreldra. Svo að því sögðu, og af því að þetta uppeldisstúss er nokkurn veginn allt sem ég geri þessa dagana, bjó ég hér til nýjan efnisflokk. Hann heitir Foreldraverðlaunin. Við þá sem vilja fylgjast með ósigrum mínum í öldusjó barnauppeldis segi ég bara stay tuned. Af nógu er að taka.

Auglýsingar
Merkt , , ,

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: