Mánaðarskipt greinasafn: ágúst 2014

I’m thinking of you but not in a creepy way

Ég hnaut um tækifæriskortin hennar Emily McDowell á Etsy fyrir löngu síðan, hló upphátt og forwardaði á alla sem ég þekki. Næstum. 

 

 

Hún gerir líka þetta hérna, sem ég trúi í hjarta mínu að súmmeri upp nokkurn veginn öllum langtímasamböndum fólks undir fertugu í heiminum:

Talandi um það er ég alltaf að daðra við að bannlýsa síma og tölvur úr svefnherberginu. Það heyrir reyndar til algjörra undantekninga að tölvurnar fái að koma upp í rúm að kvöldi til, mér til mikillar ánægju. Það er verra með símann. Ég ánetjaðist mínum þegar ég þurfti að halda mér vakandi yfir ungabörnum heilu og hálfu næturnar og ég er eitthvað voðalega háð því að hafa hann alveg við hliðina á mér. Sem er absúrd, það er ekki eins og ég sé að bíða eftir símtali frá Hvíta húsinu eða sætasta strák sem ég hef séð. (Sá sefur við hliðina á mér.)

Já. 

Kort, sem sé. Þau eru málið. Ef maður er hins vegar ekki æstur í að panta sér handgerðu kortin hennar Emily alla leið frá Amríku en vantar eitthvað skemmtilegt til að setja utan á pakka mæli ég hundrað prósent með ljósmyndakortunum sem fást á Borgarbókasafninu, með myndum úr safnkosti Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Þau eru æði. Og ljósmyndavefurinn þeirra alveg til þess gerður að fá mann til að gleyma bæði stund og stað og kvöldmatnum í ofninum. 

Auglýsingar

Skilaboð á miða

ulfur

Það er langt um liðið.

Langt, og samt svo stutt. Tíminn er eins og samanvöðlað blað í vasanum þessa dagana, svona miði sem er óvart búinn að fara sjö hringi í þvottavélinni. Lítil krumpuð kúla sem breytist í heila pappírsörk þegar maður byrjar að slétta úr henni. Eru liðnir fimm mánuðir? Ha?

Kannski er það bara ég sem er samanvöðlaða blaðið, þannig líður mér oftar en ekki. Eins og heilinn í mér sé krumpuð pappírskúla og ef það stóð einhvern tíma eitthvað á blaðinu er það löngu horfið í þeytivindunni.

Lífið er gott, en það er svo sannarlega „intensíft“, eins og vinkona mín orðaði það um daginn. Mjög intensíft. Mér líður svolítið eins og við séum að tækla lífið svona eins og annað fólk tæklar flutninga milli landa, eins og risavaxið vesenisverkefni sem þarf að hjóla í og græja.

Tíminn flýgur, Úlfur er allt í einu næstum fimm mánaða og á sama tíma og mér finnst hann vaxa allt of hratt stend ég mig líka að því að óska þess að tíminn líði enn hraðar. Óska þess að ég gæti spólað yfir þetta endalausa svefnleysi og meðfylgjandi ergelsi og viðkvæmni, spólað fram í aðeins meira sjálfbjarga börn, aðeins meira frelsi, aðeins fleiri stundir af vinkonuhlátri, rómantík eða endurnærandi einveru. (Og svo brosir Úlfur með tilheyrandi slefstraumi og þá vil ég auðvitað ýta strax á pásu, strax strax og hann má aldrei eldast.)

Ég held, og ég ætla að leyfa mér að halda, að það sé þó aðeins farið að rofa til. Að ég, og við Atli bæði, getum mögulega aftur farið að taka einhvern þátt í samfélagi lifandi manna. Máli mínu til stuðnings get ég bent á að það stendur jafnvel til að við förum í bíó í vikunni. (Ég fór síðast í bíó að sjá Svartur á leik, þarna rúmri viku áður en Bessi fæddist. Jájá. Múver og sjeiker, það er ég. )

Nú, og svo er ég að skrifa þetta hér. Ef það telst ekki til stórtíðinda veit ég ekki hvað.

bessi 22

 

Auglýsingar