Mánaðarskipt greinasafn: janúar 2014

New York City Ballet

cityballet

Ég dansaði í nokkur ár. Frá svona tólf ára aldri og til átján, hérumbil. Fyrsta jazzballetttímann var ég pínd í – mömmu leist ekki á hvað ég var farin að ganga unglingsstelpuhokin og asnaleg. Ætli það hafi svo ekki liðið svona tvær vikur þar til ég var orðin teinrétt í baki og enn útskeifari en áður. Ég elskaði dansinn. Elskaði hann.

Ári síðar bættist ballett á stundatöfluna. Ég hef sjaldan verið jafn algjörlega út úr kú í lífinu og í mínum fyrsta balletttíma, umkringd stelpum sem flestar ef ekki allar höfðu dansað einhvern ballett áður. Sumar voru meira að segja að koma úr Listdansskólanum. Ég snéri hins vegar öfugt við stöngina og vissi nákvæmlega ekki neitt hvað ég ætti að gera við handleggina á mér. Og aftur, svona tveimur vikum síðar var ég heilluð. Þá upphófst sorgartímabil þar sem ég grét þann bitra sannleika að ég myndi aldrei verða ballerína, ekki fyrst ég byrjaði svona seint. Talsverður skortur á hæfileikum hafði kannski eitthvað með þau örlög að gera líka, en hvað um það.

Ég fæ í staðinn útrás með því að horfa á aðra og mun hæfileikaríkari dansara. Þessir stuttu þættir hérna, sem Sarah Jessica Parker framleiðir um New York City Ballet fyrir AOL, eru, eins og Kaninn segir, right up my alley.

cityballet2

Og enn og aftur er ég inspíreruð. Þegar ég er hætt að burðast um með þessa risavöxnu kúlu og komin með örlítið skárri hreyfigetu (nú hreyfi ég mig svolítið eins og níræð kona í göngugrind) ætla ég að þefa uppi fullorðinsballett. Ó já. Einn tveir og grand plié. Þangað til mæli ég eindregið og innilega með því að hverfa inn í corps de ballet-inn hjá New York City Ballet. Draumur í dós.

Auglýsingar

Mottur og merkilegheit

Motta, með höfuðstuðningi, eftir Charlotte Ackemar, nema við Konstfack í Svíþjóð.

Í tilefni þess að ég er ekki heima með eyrnabólguveikt barn, eins og ég var handviss um að myndi verða raunin miðað við slappleika umrædds barns í gærkvöldi, verður hér barasta skellt í eina bloggfærslu. Ég á  í einhverju stórskrýtnu sambandi við þetta litla blogg mitt. Ég hugsa oft í viku  að já, heyrðu, ég ætti nú að skrifa um þetta eða hitt… og svo fer ég að gera eitthvað annað. Leggja mig, oft. Fletta Pinterest. Íhuga að pússa á mér neglurnar (sem naglalakkið frá því í nóvember getur vottað að gerist heldur aldrei). En mér líður hins vegar alveg ofboðslega vel að vita af því hérna, litla horninu mínu. Sem verður kannski aðeins líflegra þegar dagarnir mínir fara aftur að hverfast um hvítvoðung (vonandi sofandi) og mjólkurbletti og vetrarsól og svona notalegt kóma.

En nú, í dag, þetta.

Blaðið Wallpaper hefur þrætt útskriftarsýningar og snuðrað í kennslustofum helstu hönnunarskóla heims og safnað saman yfirliti yfir mest spennandi útskriftarnema í hönnun og fleiri skapandi greinum árið 2014. Greinina má lesa hér.

Ég féll aðallega í stafi yfir hönnunarhlutanum, hlutum eins og mottunni hérna að ofan. Og þessum hér líka…

„Bagshelf“ eftir Grischa Erbe frá HFG Karlsruhe.

Þessi snilld hér að ofan er sem sagt hilla sem maður málar á vegginn hjá sér. Málningin inniheldur járnduft, svo seglar festast við hana. Og svo festir maður snagana og hólfin sem fylgja með alveg eftir sínu höfði. Brilljant.

Útimotta eftir Hönnu Anonen, Aalto University í Finnlandi.

Motta til útinotkunar, kjörin til að lífga upp á og gera kaldar finnskar (eða íslenskar!) svalir hlýlegri. Ég myndi ekki slá hendinni á móti einni svona á mínar – þegar ég er búin að ganga frá kössunum og draslinu sem enn prýðir þær eftir flutningana…

„A Mirror Darkly“ eftir Nick Ross í Konstfack í Svíþjóð.

Og þessi fegurð. Spegill sem sækir í kenningu um að á steinöld hafi vatnsskálar verið notaðar sem speglar. Hvað sér maður í svoleiðis spegli? Heillandi, ekki satt?

„Ceramic Stereo“ eftir Victor Johansson frá Central Saint Martins

Kannski fallegasta græja í heimi?

Merkt , ,
Auglýsingar