Wanderlust: Seattle til San Francisco

Rainier National Park [EXPLORED #279]

Fyrir utan vinnu hefur síðustu vikuna verið lítill tími aflögu til annars en að sinna hnybbnum dreng (sem hefur hlotið viðurnefnið hákarlinn vegna fjölda tanna sem spýtast nú niður úr gómnum). En annríkið kemur ekki í veg fyrir að hugurinn reiki, ónei. Og minn hugur hefur reikað sérstaklega í eina átt, yfir hálfan hnöttinn hérumbil. Í hjáverkum er ég þess vegna búin að plana fjölskylduferð sem vonandi verður að veruleika á næsta ári. Eða þarnæsta.

Mig hefur lengi langað að fara í road trip um Bandaríkin, eins og svo ótalmarga. Ég nenni hins vegar engan veginn að þeysast áfram og hafa ekki tíma til að bregða út frá ferðaplani, mér alveg hreint svínleiðast þannig ferðir. Atla sömuleiðis. (Bessi hefur ekki tjáð sig um málið þegar þetta er ritað). Við erum þess vegna sammála um að það væri hreinasta bilun að ætla að ná öllum Bandaríkjunum í einu – ja, nema þá við vinnum í sitt hvoru lottóinu og getum tekið ársfrí frá störfum. Sem ég er einmitt alltaf að bíða eftir.

Þessi draumaferð hér yrði því bara fyrsti leggur af mörgum. Mér reiknast til að hægt væri að dóla sér þessa leið í mjög maklegum takti á þremur vikum, með góðum stoppum í borgunum (og jafnvel millilendingu í New York? Hmm.) Planið er svona, en hafa ber í huga að það er enn mjög grófstappað: Flogið til Seattle. Nokkrir dagar í af-jetlöggun og borgarskoðun. Þá er pakkað niður og haldið út í náttúrufegurðina í einhverjum af þjóðgörðum svæðisins. Við gætum skoðað Rainier-þjóðgarðinn (sjá mynd að ofan), til dæmis, og San Juan eyjarnar, sem virðast alveg hreint frekar dásamlegar.

 Og ef maður er á ferðinni í Washingtonríki í maí, mætti jafnvel stoppa á Sasquatch! tónlistarhátíðinni. Hún hljómar eins og eitthvað alveg temmilega frábært. Og staðsetningin, maður, með útsýni yfir Columbia-ánna. Fallegt.

Svo gætum við skoðað hellana við ströndina í Oregon áður en við færum til Portland. Ég veit ekki af hverju, en ég er alveg búin að bíta í mig að það sé borg að mínu skapi. Kannski af því þar er að finna stærstu bókabúð í heimi, Powell’s. Og víðfræga kaffibrennslu, Stumptown. Og Ace-hótelið sem ég væri til í að búa á, bara alltaf. Hljómar nokkuð vel, ekki satt?

Næsta alvöru stopp, samkvæmt þessu grófa plani, væri heimsókn í Redwood þjóðgarðinn í norður-Kaliforníu, til að klappa risafurunum. Ó, risafururnar. Ég verð að fá að hitta þær einhvern tíma á ævinni, þessa ævafornu, þöglu risa. Ég fæ eiginlega gæsahúð bara af því að hugsa um þær.

Del Norte Redwoods - 4x5 HP5+

Og svo Napa-dalurinn og vínsmökkun og lokaáfangastaðurinn sem er ekki síður heillandi, San Francisco. Fisherman’s Wharf og Haight og Mission-hverfin og góður matur og sporvagnar og pastellit hús og brattar götur… Já.
San Francisco

Draumur í dós. Flugmiðarnir eru alls ekki svo dýrir, og svo er þá bara að útvega sér fararskjóta á staðnum. Við höllumst að bílaleigubíl og jafnvel tjaldi meðferðis, þá gætum við gist í einhverjum þjóðgarðanna. Ódýrara en hótelnótt og skemmtileg tilbreyting. Ég hef held ég bara hvergi gist í tjaldi nema á Íslandi, en ku víst vera hægt utan landssteinanna líka.

(Og já, ég er búin að fletta því upp að mýtan um eilífa rigningu í Washington (og jafnvel Oregon) er sönn – en yfir vetrartímann. Ef maður er á ferðinni yfir sumarmánuðina ætti bara að sjást alveg helling til sólar!)

Ah já. Að ári. Eða tveimur.

Og pssst. Myndirnar eru linkaðar við upprunalegar síður.

Auglýsingar
Merkt , , , ,

2 hugrenningar um “Wanderlust: Seattle til San Francisco

  1. Erla skrifar:

    Mig dreymir um að ferðast á vesturströndinni. Ég kíki reglulega hingað inn en kommenta nær aldrei, mjög skemmtilegt blogg. kv. Erla

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: