Átta mánuðir og gleymdar konur

Bessi1

Viðvörun: Hér kemur maraþonfærsla. Reimið skóna.

Það er svolítið síðan Bessi minn Huginn sýndi sig á Hugskotinu. Það er mál að bæta úr því, ekki satt?

Bessi3

Draumadrengurinn minn með djúpu augun er orðinn átta mánaða og eiginlega fullorðinn. Finnst mér, þegar ég hugsa um allt sem hefur gerst á síðustu vikum. Hann situr hnarreistur á gólfinu, bröltir í sífellu upp á hnén en lyppast þó enn sem komið er alltaf niður á magann aftur. Ég er ekkert með skeiðklukkuna á lofti hvað varðar framvindu skriðmála – mér segir svo hugur að þegar drengurinn komist á ferð komist ég ekki á klóið í næði næstu mánuðina, svo mér liggur ekkert á. Mín vegna má hann alveg sitja á bossanum aðeins áfram.

Unaðsbolla Ottesen skartar nú tveimur tönnum í efri gómi og þær litu dagsins ljós með furðulitlum pirringi og raski. Hann hámar í sig graut, ávaxtamauk, grænmetismauk og nú síðast grænmetis- og kjötmauk af mikilli áfergju. Japlar á rískökumolum og bruðum eins og enginn sé morgundagurinn, hallar undir flatt, hefur mikinn húmor fyrir bjánaganginum í móður sinni og fer allur á ið um leið og pabbi hans birtist í dyragættinni.

Eftir Svíþjóðarferð okkar mæðginanna í maílok, og hvatningarræðu frá ömmunni,  voru svefnmálin tekin föstum tökum. Það tók heilar tvær nætur að venja barnið á að sofa í 11 tíma án þess að rumska. Og jeminn hvað það birti til í heiminum við þær breytingar! Móðirin er töluvert mikið skemmtilegri manneskja eftir 8 tíma samfelldan svefn en 6 tíma svefn með þremur vöknum.

Í stuttu máli er Bessinn okkar fullkomnasta og dásamlegasta og fyndnasta og skemmtilegasta barn í veröldinni.

Bessi2

Hann er átta og hálfs mánaðar gamall, ég elska hann út af lífinu. Og. Mér líður loksins eins og mér aftur.

Hér kemur játning: Síðasta eina og hálfa ár var líklega erfiðasti tími ævi minnar. Unglingssunna myndi kannski mótmæla þeirri staðhæfingu og minna á tímabilið þegar sálin var voðalega aum og allt var ómögulegt, lærin svo þykk og hakan svo skrýtin og allt það. En ég blæs á það.

Ég var ekki ein af konunum sem finnst meðgangan það allra dásamlegasta sem fyrir þær hefur komið, verður tíðrætt um bleik ský, kvenleika og einn og annan einhyrning. Ég var frekar í nashyrningagírnum. Pirruð, þung á mér, orkulaus og viðkvæm. Mér fannst vægast sagt óþægilegt að allt í einu var eins og líkami minn væri orðinn einhver almenningseign. Það þótti sjálfsagt að horfa á hann og tala um hann eins og hann tilheyrði ekki mér lengur. „Voðalega ertu stór, ertu viss um að þau séu ekki tvö, jeminn þú ert alveg að springa,“ er rulla sem ég þarf ekkert að heyra aftur í bráð. Þessi skipti þarna á síðustu mánuðunum dugðu mér alveg.

Og svo kom hann, Bessi, dásemdin mín eina.

Bessi nýr

Ég las þessa grein hérna í gær (eftir að hafa rekist á hana á Cup of Jo), um hvernig maður virðist vera líffræðilega prógrammaður til þess að gleyma því hvað fyrstu mánuðirnir með kornabarn eru  erfiðir. Ég get tekið heilshugar undir það, því ég finn þetta gerast hjá mér núna. Minningarnar frá fyrstu vikunum og mánuðunum eru orðnar ansi bleiktóna, eru að renna saman í snoturt mjólkurilmandi collage með mjúkri lýsingu. Fullkomni drengurinn minn sefur í vöggu, liggur á bringu mér, svo smár og ilmandi og yndislegur. Hinar eru samt þarna ennþá, að dofna og hverfa; þessar erfiðu, dökku, dauðdauðdauðdauðþreyttu.

Ég segi eins og greinarhöfundur: ég vissi alveg að fyrstu mánuðirnir yrðu erfiðir, bara ekki hvernig. Svefnleysið. Ó, svefnleysið. Það er andstyggilegt. Algjörlega andstyggilegt. Ég var svo þreytt að dagana sem Atli var að vinna, og þeir eru um 14 tíma langir, borðaði ég stundum ekki. Ég var of þreytt til að höndla að búa mér til mat. Of þreytt til að fara niður í þvottahús að sækja þvottinn. Of þreytt til að svara í símann. Of þreytt. Sumar nætur vakti ég töluvert meira en ég svaf og fyrstu vikurnar svaf barnið ekki meira en nokkrar mínútur hér og þar yfir daginn. Yfirleitt vaknaði hann um leið og ég lagði hann frá mér. Ég hefði getað kýlt manneskjurnar sem spurðu hvort ég legði mig ekki bara með honum á daginn. Svo fóru lúrarnir upp í 45 mínútur. Skárra, en það er samt frekar erfitt að vinna upp langvarandi svefnleysi með hálftímadúr.

Og, svo veit maður nákvæmlega ekkert hvað maður er að gera. Ekki neitt. Eða, ekki ég. Maður þreifar í blindni, reynir að ráða í grátinn, sinna köllunum. Og stundum grætur maður sjálfur, af algjörri uppgjöf og botnlausri þreytu. Og veltir því fyrir sér hvort maður er með fæðingarþunglyndi og meingallaður af því að maður er ekki yfirkominn af sælu og eilífri ást hverja mínútu.

Nú hljómar þetta  allt eins og ég sé Morticia Adams og borði kettlinga í morgunmat og sé bara almennt vanþakklát og neikvæð og glötuð týpa. Ég er það ekki, ég lofa. Ég vil bara skrifa þetta, segja eins og er, gangast við eigin ráðaleysi og vonleysi og öllum dökku tilfinningunum sem ég upplifði þessa fyrstu, erfiðu mánuði.

Ég vil bara segja það. Muna það. Af því það er að gleymast og ef ég verð svo heppin að fá að endurtaka leikinn held ég að það sé hollt að geta rifjað upp fyrir sjálfri mér að þetta var víst líka ofsalega erfitt þegar Bessi var nýfæddur. Og það líður hjá, í alvörunni, og allt verður unaðslegt.

Bessi4

Ég stóð mig að því um daginn að hugsa að ég vildi helst að Bessi eignaðist minnst tvö systkini. Og samt ekki, því eiginlega langar mig ekkert í önnur börn, mig langar bara í Bessa aftur. Tvo Bessa í viðbót, lágmark.

Og svo brosti ég að sjálfri mér. Dauðþreytta konan sem hafði ekki orku til að ná í hrökkbrauð er greinilega svo til gleymd.

Auglýsingar
Merkt , , , ,

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: