Mánaðarskipt greinasafn: maí 2013

Fallega óreiðan og agustav

Á  daglegum lesrúnti mínum um uppáhaldsbloggin mín (sem ég er með í sérstakri bókamerkjamöppu hérna hjá mér, af því að mér finnst allt of framúrstefnulegt að nota til þess gerðar þjónustur til að fylgjast með framvindu mála í bloggheimum – og þá kæmi heldur ekkert skemmtilega á óvart þegar uppáhaldsbloggarinn er akkúrat búinn að birta nýja færslu… já, ég er kannski dálítið eftir á) hnaut ég um færslu á A Beautiful Mess.  Þær systur Elsie og Emma (ásamt fríðu föruneyti) skrifa þetta litríka blogg, sem er óþrjótandi uppspretta diy-hugmynda og augnayndis. 

Þær efna þarna til happdrættis í samvinnu við hönnunarmerkið agustav, þar sem lesendur geta unnið þetta fína bókahengi. Þar sem augu mín liðu yfir myndina tók einhver lasburða minnisfruma í afkimum heila míns lítinn kipp: „Noh, er þetta ekki bara alveg eins og kápan á… Bíddu… Og…“ Áttablaðarósin, Sakleysingjarnir og Myrká. Ég finn lykt af íslenskri hönnun. Eins og nafnið agustav hefði ekki átt að ýta aðeins við mér. 

Ég er ekkert merkilegri en aðrir sem fá svona smá sæluhroll yfir því sem vel er gert íslenskt. Og þetta finnst mér afskaplega vel gert. Bókahengin eru til í ýmsum útgáfum; styttri og lengri, úr eik, beyki og hnotu til viðbótar við viðinn hér að ofan sem kallast wenge og ég hef ekki hugmynd um hvað er. 

 

Mikið finnst mér þetta fallegt (Og sjáðu, Málverkið!). Nú á ég náttúrulega slíkt magn af bókum að ef ekki væri fyrir umtalsverða og yfirgripsmikla tetrisþjálfun mína á yngri árum (sko mamma, það kom að því að tölvuhangsið nýttist mér!) væri ekki séns að koma þeim fyrir í bókahillunum mínum. Þannig að ég get alveg gleymt þessari útfærslu held ég.

En! Ekki er öll von úti. Agustav gerir nefnilega líka þessi dásamlegu fatahengi. 

 

Hengið kemur með fimm hönkum – fjórum viðarlitum og einum í lit, en mér sýnist nú að það megi líka alveg koma með séróskir um litasamsetningu – sem er hægt að færa fram og til baka að vild.

 

Agalega fínt, þykir mér. 

Fariði svo og gleymið ykkur aðeins hjá þeim systrum. Þar er gott að vera, í fallegu óreiðunni. 

Auglýsingar
Merkt , , , ,

Vor í Nangijala

Hagadalur - Hagadalur

Hagadalur - pósturinn

Mamma mín býr í Nangijala. Svona næstum því. Pínkuponsulitli skánski Vanstad er að minnsta kosti ansi nærri því, sérstaklega á þessum árstíma þegar allt er í blóma og vindurinn feykir með sér skýi af kirsuberjablómum. Ó, Ísland, af hverju ertu svona kalt?

Hagadalur - í blóma

Hagadalur - í Vanstad

Hagadalur - í Vanstad 3

Hagadalur - kýr

Hér er ég. Og Bessi. Í svo góðu yfirlæti að það nær ekki nokkurri átt. Ég er komin með nokkrar freknur og svona næstum því styrkinn sem ég mun þurfa til að lifa af hinn eilífa vetur sem virðist bíða mín á Flateyri. Við snúum aftur þangað eftir viku. Samkvæmt norsku veðurspánni munu samtals tvær gráður taka á móti okkur. Með viðhöfn, vonandi.

Hagadalur - Bessi

Ég rígheld þess vegna í þessa notalegu daga í sænska vorinu á meðan ég get. Með myndaflóði af dásemdum Skáns og heimilisfólks og -dýrs í Hagadal.

Hagadalur - Álfur

Hagadalur - Bessi og hjólbörurnar

Hagadalur - Bessi og amma

Þið hafið mig afsakaða, ég ætla að fara að grafa höfuðið kirfilega í sand. Ég er ansi hrædd um að það sé eina leiðin til að ég fari um borð í blessaða vélina eftir viku.

Merkt , , , , ,

Sumar í skál

Ég er á Flateyri. Hér er enn snjór í sköflum. Jess.

Ég er opinberlega komin með nóg af þessu vetrarveseni og til í sumarið. Núna. Mig langar í nýjar freknur og að svitna aðeins á nefinu undan sólgleraugunum, sitja á pallinum við Sveinshús og spjalla og sötra svaladrykk eða sleikja í mig ís eins og makindalegur köttur.

Mmm. Ís. Sumar í skál.

Tveimur dögum áður en við fórum úr Reykjavíkinni uppgötvuðum við Atli að það er svona frosin-jógúrt-sjoppa í göngufæri við okkur. Við grétum bitrum tárum ofan í dásamlega jógúrtina yfir því að við værum að fara og yrðum að vera án hennar í sumar. Eftir að hafa fundið afsökun til að fara þangað þrisvar á þessum tveimur dögum ákvað ég snarlega að líta á það blessun að við værum að fara – annars værum við bæði líklega nú þegar búin að bæta á okkur eins og fimm kílóum.

Roasted Strawberry Coconut Milk popsicle

Og nú sit ég hér, í snjónum á Flateyri, og læt mig dreyma um frosna jógúrt og heimagerða kókosmjólkuríspinna og bananabláberjaís og allt þetta fáránlega girnilega sem ég hef pinnað eða búkkmarkað í gegnum tíðina og skrolla nú í gegnum og slefa yfir. 

Ég hugsa að ég splæsi í ísvél á eldhúshjálpina mína þegar við komum heim aftur. Já.

Myndir eru linkaðar við upprunafærslur. Hvert og eitt þessara blogga er svo alveg gjörsamlega þess virði að týna sér í. Hvað hafið þið betra við tímann að gera? Ég er í þessum skrifuðum orðum límd við Oh, Ladycakes. (Ekki bara svona áhugavert-límd, meira svona æ-úps-tungan–föst-við-tölvuskjáinn límd. Eða næstum því. Ég meina, hvaða rugl er þetta?)

Ís.

Mmmm.

Merkt , , , ,

Myrkraverk og fögur flúr

Ég er allt í einu, á svona síðustu tveimur árum, farin að dufla við þá hugmynd að fá mér tattú. Ég á vinkonur með afskaplega fín og flott, en hef samt aldrei tengt við hugmyndina svona fyrir sjálfa mig. Fyrr en núna. Hugmyndina sko. Nú á ég náttúrulega eftir að hugsa um þetta í nokkur ár og melta og finna og skoða og efast og gleyma og byrja að hugsa upp á nýtt. Já, stundum er erfitt að vera vog.

Þegar ég rakst á þessar myndir á netinu fékk ég samt óneitanlega fiðring. Mikið sem mér finnst þetta falleg tattú. Blackwork heitir tæknin víst, þar sem eingöngu er notaður svartur litur og gjarnan sóttur innblástur í gamlar húðflúrshefðir, Maori-fólksins til dæmis. Þessi hér eru gerð af listamönnum á stofunni 2spirittattoo í San Francisco – öll nema sunshine-flúrið af henni Roxx.

Kannski ég ætti að heimsækja hana? (Og leyfa henni að hlæja að mér þegar ég bið um eitthvað sem er svona fersentimetri að stærð?)

Það er spurning hvort ég stingi kannski tánum í vatnið og æfi mig, með svona skammtímatattúum frá Tattly. Sniðugt fyrir svona commitment phobics, sjáiði. Og töluvert fallegt líka.

Merkt , , ,

Ég ♥ Flateyri

Flateyri 4

Flateyri 6

Flateyri 7

Á sunnudaginn pökkum við í bílinn, sendum smá bæn til æðri valda þess efnis að Bessinn haldi sönsum, og leggjum í hann á Flateyri, þar sem við ætlum að vera út júní. Ég og Bessi förum reyndar í húsmæðra&barnaorlof til mömmu í Svíþjóð í tvær vikur, en annars er það eyrin. Elsku eyrin.

Flateyri 8

Flateyri 5

Flateyri 1

Nú eru þrjú ár síðan ég kom þangað fyrst, eftir að hafa ráðið mig í sumarvinnu í gamalli bókabúð þar sem notaðar bækur eru seldar eftir vigt og loftið ilmar af menningu. Þið vitið, svona rykfallinni menningu. Og Gufan er alltaf á. Þrjú sumur sat ég í bókabúðinni á daginn, drakk kaffi og hlustaði á útvarp og prjónaði og talaði við gesti sem elska líka bækur; sýndi þeim íbúðina þar sem kaupmannshjónin bjuggu og tíminn hefur staðið í stað; rýndi í litbrigði himinsins; talaði meira og kynntist fastagestum sem ég á eftir að sakna; lærði á gólfið og hvar það brakar; rak nágrannakettina reglulega út þegar þeir höfðu gert sig heimankomna í dýrmætum sófa; og las, las, las, las.

Flateyri 2

Massastaðagrill2

Þetta sumar verður dálítið öðruvísi. Ég verð til dæmis ekki í bókabúðinni, heldur í næsta húsi. Atli verður að vinna á Vagninum og ég verð í Bessaleyfi (get it?). Og ég verð ekki á Vagninum öll kvöld, að súpa á bjór og ræða heimsmálin úti á palli á meðan miðnætursólin neitar að fara að sofa. En ég verð á Flateyri. Þar sem júní er svo bjartur að það er nóg til að halda á manni hita yfir alla hina mánuðina. Þar sem ég þekki hverja holu á veginum út að Klofningi, klettinum þar sem álfarnir hópast að manni og fylla mann orku. Þar sem loftið er ferskast, vatnið tærast, fjöllin sönnust. Og allir dagar eru góðandaginndagurinn.

Massastaðagrill3

Massastaðagrill5

Massastaðagrill

Ó, ég hlakka til. Björtu nætur, fersku vindar, syngjandi strá, skemmtilega fólk, ilmandi blóðberg  – hér kem ég.

Flateyri 9

Merkt , , , ,
Auglýsingar