Fimm

uploadNei, nú þarf einhver að fara að taka í taumana. Ég lofa og sver að það eru ekki nema hámark tíu dagar síðan ég skrifaði hérna lítinn fjögurramánaðapóst. Hvernig getur það verið að barnið sé fimm mánaða í dag, strax?

Ég hef því miður ekki staðið við þau áform að hefja dagbókarritun um Bessann minn (skamm, Sunna, skamm), svo ég endurtek leikinn bara og skrifa til hans hér í staðinn.

Fimm mánuðir.

Fimm mánuðir, Bessi minn Huginn, síðan þú komst. Fyrir akkúrat fimm mánuðum síðan vorum við að skrönglast upp tröppurnar heima. Þrjár hæðir:  fyrst ellefu tröppur, svo fimmtán og aftur fimmtán. Þetta vissi ég, eftir að hafa talið þær í huganum síðustu vikurnar fyrir komu þína, þegar grindin mín og þunginn þinn gerðu að verkum að hver búðarferð varð ákveðin sigurför.

Upp og inn komumst við. Svo stóðum við og horfðust í augu, ég og pabbi þinn, og svo á þig, þar sem þú svafst værum svefni í impróvíseraða heimfarardressinu í bílstólnum. Í augnablik féllust okkur hendur. Hvað gerist nú? Hvað nú, þegar stundin er komin, þessi sem við höfum beðið eftir, látið okkur dreyma um og talið niður í, eins og tröppurnar? Hvað nú, þegar við eigum þig og þú okkur og það er ekki eftir neinu að bíða lengur?

Svo tókum við eitt skref enn, inn í nýja lífið sem er alveg eins og samt allt annað. Skriðum upp í rúm, sofnuðum, vöknuðum til þín, elskuðum þig og höfum haldið því áfram alveg síðan.

Og í dag ertu fimm mánaða. Augun þín eru síbreytileg, eins og mín. Dökk, brún, græn, grá; dröfnótt eins og fuglsegg eða brún eins og karamella sem sýður. Þig kitlar alveg sérstaklega undir hægri handlegg og þú hlærð og rymur ef ég kyssi þig þar. Meira ef pabbi kyssir þig, því skeggið kitlar svo skemmtiega. Þú æfir þig stöðugt í að sitja og ert orðinn eldklár í að velta þér yfir á magann, en samt bara í aðra áttina. Og ekki til baka. Það þarf því að fara í ófáar björgunaraðgerðir yfir daginn, þegar þú ert fastur á maganum og grautfúll.

Þú ert orðinn svo forvitinn um allt í kringum þig og langar að bragða á öllum heiminum; símanum mínum, kaffinu, tölvunni, hálsmeninu, sleifinni, dótinu, blóminu, pastanu. Bráðum færðu að smakka smá mat. Við getum ekki beðið eftir að fá að kynna þig fyrir honum.

Þú ert aðeins orðinn feiminn við annað fólk og veist alveg hvað þú átt að gera þegar ég sveifla myndavélinni í kringum þig; brosir eftir pöntun. Þú burrar með vörunum og blæst slefbubblur og vaknar ekki lengur hundrað sinnum á nótt. Bara tvisvar. Og þú ert ennþá, alltaf, algjörlega ómótstæðilegur dúllurass, með allar þínar fellingar og mjúka maga.

 

 

Auglýsingar
Merkt

3 hugrenningar um “Fimm

  1. Draumey skrifar:

    Guð minn góður, gætirðu leigt út þessar kinnar barnsins fyrir þurfandi til smá klípinga og kossa?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: