Útópían

sól

Þessi orð eru skrifuð í sólskini úti á svölum. Hér sit ég á trébekk, með kaffibolla mér við hlið og fuglasöng í eyrum, á meðan Bessinn sefur. Í sólskini úti á svölum. Ég vildi bara vera viss um að þið hefðuð náð þessu. Í dag er ég útó-pía, það er ekki annað hægt þegar veðrið er svona dásamlegt og barnið sefur og kaffið er heitt. eins gott að njóta á meðan það varir.

Annars er ég ekkert að missa mig í útópíunni svona alla jafna. Ég er meira svona innó. (Augljóslega er ég líka húmorískt undrabarn. Ég ætti að fara að selja inn í Klapparstígshöllina.) Mér finnst dálítið fyndið hvað lífið breytist við að eignast barn – og þá meina ég ekki þetta hefðbundna „nú snýst lífið um einhvern annan“-dæmi. Það breytist nefnilega líka á sama hátt og þegar maður eignast nýjan bíl og fer allt í einu að sjá þá tilteknu bíltegund úti um allt. Eða, fyrr svona innó-píur; þegar mann langar hrikalega í einhverja svakalega flotta skó en hefur engan veginn efni á þeim. Og fer að sjá þá úti um allt.

Nú sé ég verðandi mæður, foreldra, ömmur og afa alls staðar. Og það í nýju ljósi. Á meðan ég ruggaði Bessa í vagninum hér uppi á svölum sá ég til dæmis par um fimmtugt koma út úr húsi ofar í götunni. Konan hélt á ungabarni í bílstól, maðurinn á ömmustól. Það sem ég sá: dauðuppgefnu foreldrana sem báðu um pössun í smá stund til að ná að sofa aðeins, hlaða batteríin bara örlítið svo þau geti kannski klárað heila setningu án þess að missa þráðinn á leiðinni að punktinum. Á kassanum í Bónus um daginn var pólskur maður á undan mér (ef ég hafði rétt fyrir mér varðandi hvaða mál hann talaði við afgreiðsludömuna, það er að segja. Pólskukunnátta mín takmarkast við orðið nibieski. Sem þýðir blár. Mjög gagnlegt.). Hann var að kaupa þrjár snuddur. Ég var að kaupa júmbóbleyjupakka. Við svona kinkuðum kolli til hvors annars í algerum skilningi. Hans barn var pottþétt heima, grátandi, af því að snuddurnar tvær sem voru til gufuðu upp á einhvern dularfullan hátt og munu ekki finnst fyrr en undir haust, þegar þær birtast allt í einu með svona kristallaða rykskurn á miðju stofugólfi. Ef fólki finnst þetta með sokkana og þvottavélina merkilegt get ég sagt að snuddur og geymslustaðir þeirra eru ekki síður spennandi rannsóknarefni.

Ég get líka sagt ykkur að ég mun aldrei aftur á ævi minni nota bílflautu, annað en þegar ég rek mig í hana (gerist stundum) eða kannski ef ég sofna fram á hana (gæti gerst). Um daginn var ég hársbreidd frá því að lemja í húddið á bíl sem þeytti flautuna við hliðina á mér, með barnavagn og rauð augu. Hvað er fólk að meina? En svo sussaði ég reyndar líka á mann sem bað um hundraðkall í láni í einhverjum steggjunargjörningi á Laugaveginum. Svo kannski er ég almennt frekar tæp bara og ekki alveg dómbær á eðlilega hegðun. Hóst. Hver sussar á fólk? Í alvörunni.

En í dag er ég sem sagt útó-pían. Og hún sussar ekki. Nei, hún drekkur kaffi í sólskini á svölunum og myndi ekki blása úr nös þó hún ætti fimm börn í viðbót því þau eru svo æjjjjðisleg. Eruð þið að lesa mig?

Auglýsingar
Merkt ,

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: