Silki

silki

Síðustu vikur hefur lestur góðra bóka heldur setið á hakanum hjá mér. Mér finnst einhvern veginn svolítið erfitt að sökkva mér í lestur þegar ég veit að það er bara tímaspursmál hvenær barnið galar á athygli mína og þegar drengurinn er sofnaður að kvöldi hafa bíómyndir og internetið haft vinninginn. Illska Eiríks Arnar, sem ég fékk í jólagjöf og hlakka mikið til að lesa, bíður því enn í plastinu heilum tveimur mánuðum eftir jól  – örlög sem ég get ábyrgst að jólabók hefur aldrei hlotið á mínu heimili áður. Þessir tímar stuttra frístunda og örlítillar athyglisröskunar (hæ, brjóstaþoka) hafa hins vegar haft þau jákvæðu áhrif að ég hef enduruppgötvað ljóðabækurnar mínar. Það er enginn vandi að ná að lesa ljóð – og njóta þess – á meðan barnið skoðar sig í leikspeglinum eða tekur stutta kríu.

Í jólagjöf fékk ég líka ljóðabók Gerðar Kristnýjar, Strandir, og ég er búin að lesa hana gjörsamlega upp til agna. Næst á dagskrá er ferð á bókasafnið til að ná mér í Blóðhófni og fleira góðgæti úr hennar smiðju – ég var stormandi hrifin af ljóðunum hennar og langar í meira. Eitt þeirra, sem ættað er frá indverskum ströndum, fékk mig til að lygna aftur augunum og brosa. Ég er hrifnust af ljóðum sem kalla fram skýra mynd í huganum, og það er sko nóg af þeim í bókinni hennar Gerðar Kristnýjar. Þetta færði mig á svipstundu aftur til Jodphur eða Varkala, ég fann lyktina af reykelsisbúntunum, heyrði kliðinn af markaðinum og skerandi flautið í einhverju rikshawinu. Og sá litina liðast fyrir augum mér, allt silkið og saríana í einni stórri flóðbylgju af leikandi litum.

Ljóðið er svona:

Silki

Sjölin svífa
niður úr hillum
og setjast í
lófa mína

„Ekta silki,“
segir kaupmaðurinn
Hann bregður upp eldspýtu og svíður af kögri

„Sko! Lyktar eins og brennt mannshár – alveg ekta!“

Hann skrökvar aldrei, trúir á Jesú
– bendir á kross
fyrir aftan sig –
og ólst upp á munaðarleysingjahæli
móður Teresu

Það var hún sem
kenndi honum að
segja satt

Hún gleymdi samt að
temja honum kurteisi
því þegar ég
hleypi sjölunum
aftur upp í hillur
steypast yfir mig
bengölsk blótsyrði

En nú get ég
hvenær sem er
brennt lokk
úr hári mínu
og fundið angan af
indversku silki

– Gerður Kristný,
úr ljóðabókinni Strandir

Mæli hiklaust með henni!

Auglýsingar
Merkt , , , ,

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: