Mánaðarskipt greinasafn: mars 2013

Með blóm í eyrunum

Ég veit fullvel að ég á aldrei eftir að leggjast í þessa framkvæmd sjálf, en ég pinnaði þetta samt á ljóshraða. . Svo er nú ekki víst að þetta sé alveg það praktískasta, en fegurðin… hún er óumdeilanleg.  Gerðu-það-sjálf iPhone-hulstur með pressuðum blómum. Nefnilega.

Hugmyndasmiðurinn heitir Clare McGibbon og vinnur fyrir Etsy. Hún deilir þessu verkefni á Etsy-blogginu, sjá hér. Allar myndir eru fengnar að láni þaðan.

Skref 1, raða blómum á hvítt hulstur.

Skref 2, líma þau á.

Skref 3, blanda resín og hella yfir (eða kvoðu? hvað kallar maður þetta?).

Og voila.

Mun ítarlegri leiðbeiningar á Etsy-blogginu. Þar er líka að finna alls konar annað skemmtilegt, svo ég mæli eindregið með innliti!

Auglýsingar
Merkt , , ,

Fimm

uploadNei, nú þarf einhver að fara að taka í taumana. Ég lofa og sver að það eru ekki nema hámark tíu dagar síðan ég skrifaði hérna lítinn fjögurramánaðapóst. Hvernig getur það verið að barnið sé fimm mánaða í dag, strax?

Ég hef því miður ekki staðið við þau áform að hefja dagbókarritun um Bessann minn (skamm, Sunna, skamm), svo ég endurtek leikinn bara og skrifa til hans hér í staðinn.

Fimm mánuðir.

Fimm mánuðir, Bessi minn Huginn, síðan þú komst. Fyrir akkúrat fimm mánuðum síðan vorum við að skrönglast upp tröppurnar heima. Þrjár hæðir:  fyrst ellefu tröppur, svo fimmtán og aftur fimmtán. Þetta vissi ég, eftir að hafa talið þær í huganum síðustu vikurnar fyrir komu þína, þegar grindin mín og þunginn þinn gerðu að verkum að hver búðarferð varð ákveðin sigurför.

Upp og inn komumst við. Svo stóðum við og horfðust í augu, ég og pabbi þinn, og svo á þig, þar sem þú svafst værum svefni í impróvíseraða heimfarardressinu í bílstólnum. Í augnablik féllust okkur hendur. Hvað gerist nú? Hvað nú, þegar stundin er komin, þessi sem við höfum beðið eftir, látið okkur dreyma um og talið niður í, eins og tröppurnar? Hvað nú, þegar við eigum þig og þú okkur og það er ekki eftir neinu að bíða lengur?

Svo tókum við eitt skref enn, inn í nýja lífið sem er alveg eins og samt allt annað. Skriðum upp í rúm, sofnuðum, vöknuðum til þín, elskuðum þig og höfum haldið því áfram alveg síðan.

Og í dag ertu fimm mánaða. Augun þín eru síbreytileg, eins og mín. Dökk, brún, græn, grá; dröfnótt eins og fuglsegg eða brún eins og karamella sem sýður. Þig kitlar alveg sérstaklega undir hægri handlegg og þú hlærð og rymur ef ég kyssi þig þar. Meira ef pabbi kyssir þig, því skeggið kitlar svo skemmtiega. Þú æfir þig stöðugt í að sitja og ert orðinn eldklár í að velta þér yfir á magann, en samt bara í aðra áttina. Og ekki til baka. Það þarf því að fara í ófáar björgunaraðgerðir yfir daginn, þegar þú ert fastur á maganum og grautfúll.

Þú ert orðinn svo forvitinn um allt í kringum þig og langar að bragða á öllum heiminum; símanum mínum, kaffinu, tölvunni, hálsmeninu, sleifinni, dótinu, blóminu, pastanu. Bráðum færðu að smakka smá mat. Við getum ekki beðið eftir að fá að kynna þig fyrir honum.

Þú ert aðeins orðinn feiminn við annað fólk og veist alveg hvað þú átt að gera þegar ég sveifla myndavélinni í kringum þig; brosir eftir pöntun. Þú burrar með vörunum og blæst slefbubblur og vaknar ekki lengur hundrað sinnum á nótt. Bara tvisvar. Og þú ert ennþá, alltaf, algjörlega ómótstæðilegur dúllurass, með allar þínar fellingar og mjúka maga.

 

 

Merkt

Ljúflingurinn Paul

sweet1

Ljúflingurinn Paul, eða Sweet Paul eins og hann kallar sig, heldur úti ansi hreint fagurri heimasíðu. Hún byrjaði sem öllu umsvifaminna blogg fyrir nokkrum árum síðan, og mig rámar í hana þannig. Paul, sem er norskur að uppruna en býr og starfar í New York, er „craft“- (hvað heitir það á íslensku?) og matarstílisti og byrjaði að blogga til þess að geta deilt verkum sínum með aðeins stærri hóp en annars fékk notið þeirra. Bloggið vatt upp á sig þannig að úr varð ársfjórðungslegt rit, Sweet Paul Magazine, þar sem hann fær til liðs við sig fjöldann allan af hæfileikaríku fólki. Afraksturinn er svona þokkaleg innblásturssprengja fyrir fólk eins og mig, sem kann að meta punt og fínerí, blóm og kökur og allt sem er huggulegt í lífinu.

Nýjasta ritið kom út nú fyrir helgi. Það má lesa á netinu hér, eða, ef maður er alveg æstur, panta í áþreifanlegra formi. Ég mæli með því, svona með rjúkandi kaffibolla og helst einhverju sætu við höndina. Annars þolir maður ekki við. Ekki ég, að minnsta kosti. En svo er ég líka týpan sem vil helst fá eftirrétt eftir morgunmatinn.

sweet2

springdesk1imac

Merkt , , , , , ,

What the

Þessi síða er að drepa mig úr fyndni, það er bara þannig. Whatthefuckshouldimakefordinner.com. Brillíant.

fuckingprawns

 

fuckingjambalaya

fuckingwildmushroom

 

Híhíhí.

Merkt ,

Útópían

sól

Þessi orð eru skrifuð í sólskini úti á svölum. Hér sit ég á trébekk, með kaffibolla mér við hlið og fuglasöng í eyrum, á meðan Bessinn sefur. Í sólskini úti á svölum. Ég vildi bara vera viss um að þið hefðuð náð þessu. Í dag er ég útó-pía, það er ekki annað hægt þegar veðrið er svona dásamlegt og barnið sefur og kaffið er heitt. eins gott að njóta á meðan það varir.

Annars er ég ekkert að missa mig í útópíunni svona alla jafna. Ég er meira svona innó. (Augljóslega er ég líka húmorískt undrabarn. Ég ætti að fara að selja inn í Klapparstígshöllina.) Mér finnst dálítið fyndið hvað lífið breytist við að eignast barn – og þá meina ég ekki þetta hefðbundna „nú snýst lífið um einhvern annan“-dæmi. Það breytist nefnilega líka á sama hátt og þegar maður eignast nýjan bíl og fer allt í einu að sjá þá tilteknu bíltegund úti um allt. Eða, fyrr svona innó-píur; þegar mann langar hrikalega í einhverja svakalega flotta skó en hefur engan veginn efni á þeim. Og fer að sjá þá úti um allt.

Nú sé ég verðandi mæður, foreldra, ömmur og afa alls staðar. Og það í nýju ljósi. Á meðan ég ruggaði Bessa í vagninum hér uppi á svölum sá ég til dæmis par um fimmtugt koma út úr húsi ofar í götunni. Konan hélt á ungabarni í bílstól, maðurinn á ömmustól. Það sem ég sá: dauðuppgefnu foreldrana sem báðu um pössun í smá stund til að ná að sofa aðeins, hlaða batteríin bara örlítið svo þau geti kannski klárað heila setningu án þess að missa þráðinn á leiðinni að punktinum. Á kassanum í Bónus um daginn var pólskur maður á undan mér (ef ég hafði rétt fyrir mér varðandi hvaða mál hann talaði við afgreiðsludömuna, það er að segja. Pólskukunnátta mín takmarkast við orðið nibieski. Sem þýðir blár. Mjög gagnlegt.). Hann var að kaupa þrjár snuddur. Ég var að kaupa júmbóbleyjupakka. Við svona kinkuðum kolli til hvors annars í algerum skilningi. Hans barn var pottþétt heima, grátandi, af því að snuddurnar tvær sem voru til gufuðu upp á einhvern dularfullan hátt og munu ekki finnst fyrr en undir haust, þegar þær birtast allt í einu með svona kristallaða rykskurn á miðju stofugólfi. Ef fólki finnst þetta með sokkana og þvottavélina merkilegt get ég sagt að snuddur og geymslustaðir þeirra eru ekki síður spennandi rannsóknarefni.

Ég get líka sagt ykkur að ég mun aldrei aftur á ævi minni nota bílflautu, annað en þegar ég rek mig í hana (gerist stundum) eða kannski ef ég sofna fram á hana (gæti gerst). Um daginn var ég hársbreidd frá því að lemja í húddið á bíl sem þeytti flautuna við hliðina á mér, með barnavagn og rauð augu. Hvað er fólk að meina? En svo sussaði ég reyndar líka á mann sem bað um hundraðkall í láni í einhverjum steggjunargjörningi á Laugaveginum. Svo kannski er ég almennt frekar tæp bara og ekki alveg dómbær á eðlilega hegðun. Hóst. Hver sussar á fólk? Í alvörunni.

En í dag er ég sem sagt útó-pían. Og hún sussar ekki. Nei, hún drekkur kaffi í sólskini á svölunum og myndi ekki blása úr nös þó hún ætti fimm börn í viðbót því þau eru svo æjjjjðisleg. Eruð þið að lesa mig?

Merkt ,

Seint á föstudagskvöldi…

Föstudagskvöld

…spyr ég: er eðlilegt að verja bróðurparti kvölds í að barma sér yfir bágum svefni barnsins, en standa sig svo að því að íhuga alvarlega hvort maður eigi ekki bara að læðast inn og rétt kyssa hann smá á kinnarnar, þó hann sé sofandi, þó hann geti vaknað, bara af því að hann er svo hrikalega sætur og maður saknar hans strax, þó hann hafi bara sofið í tvo og hálfan tíma? Barnið sem vekur mann að jafnaði um það bil sjö sinnum á nóttu? (Og ég skammast mín ekki fyrir að viðurkenna að mér er ekki efst í huga að kyssa hann á kinnarnar í sjötta vakni.) Er þetta ekki til marks um að eitthvað sé úr lið í höfðinu á manni?

p.s. Ég náði að hemja mig.

Merkt ,

Hellisbúabrauð

Hér er ætlunin að skrifa um hellisbúabrauð. Brauðið af framkvæmdalistanum sem ég er búin að baka, ekki bara einu sinni heldur tvisvar! Hipp hipp og margfalt húrra fyrir mér. Og brauðinu. En fyrst verð ég bara að koma því á framfæri hvað ég er ofboðslega alsæl með að hvorki ég né Atli vinnum hefðbundna 9 til 5 vinnu. Ég er vissulega í fæðingarorlofi núna, en svona alla jafna meina ég. Eftir að hafa fórnað laugardagsfríkvöldi til að redda einhverjum málum í vinnunni bauðst Atla að fá frí á mánudag og þriðjudag, sem þýddi að fyrirvaralaust var hann kominn í fimm daga frí. Mér líður eins og það hafi verið mánuður. Við erum búin að koma alls konar í verk, hvíla okkur, knúsast, hitta skemmtilegt fólk og hafa það dásamlegt. Þessi tvö ár sem ég var hefðbundin níutilfimm launamanneskja gerðist það að minnsta kosti ekki oft að fólk fengi alveg óvart svona bónusfrí. Onei.

En brauð var það, já. Gott brauð. Svakalega gott brauð.

IMG_4561

Uppskriftin er fengin af uppáhaldsheilsublogginu. Ég hef áður smakkað svona hellisbúabrauð – sem hentar sem sagt þeim sem aðhyllast paleo-mataræðið og neyta því ekki kornmetis (ef ég skil þetta rétt. Ég er allt of mikill kolvetnafíkill til að detta í hug að reyna að sleppa þeim…). Uppistaðan í því var sú sama og hér, fræ og hnetur, en það var hins vegar bundið saman með eggjum. Það var mjög gott, en eggjabragðið fór samt ekkert fram hjá manni. Og ég er að minnsta kosti ekkert alltaf í stuði fyrir egg. Í þessu brauði er það hins vegar psyllium-fræskurnin sem heldur herlegheitunum saman.

Já, psyllium. Einnig þekkt sem Husk. Náttúrulega hægðatregðulyfið. Jebb. Að þessu komst ég þegar ég mundi loks eftir því að koma við í Heilsuhúsinu á leið minni heim og versla það eina sem mig vantaði til bakstursins. Psyllium-fræskurnin er sem sagt afskaplega góð fyrir meltinguna og sé hún tekin inn svona ein og sér er mælt með því að fólk drekki afar vel af vatni með. Þessu brauði fylgdu nú ekki sömu fyrirmæli, en í því er reyndar ansi vel af vatni. Og ég get vottað að brauðið hefur ekkert sett meltingu heimilismeðlima hér á bæ úr skorðum.

IMG_4565

Ég var eflaust páfagaukur í fyrra lífi því mér finnast fræ og hnetur með því betra í heimi hér. Það þarf þess vegna ekki að koma mikið á óvart að mér finnist brauðið gott. Sérstaklega ristað. Það er unaðslegt ristað. Ég hef hingað til prófað að gera það með heslihnetum og brasilíuhnetum og heslihneturnar höfðu vinninginn í þeirri viðureign, en mig grunar að möndlurnar komi ansi sterkar inn líka. Mig grunar líka að það sé hægt að leika sér ansi mikið með þessa uppskrift svona eftir því sem er til í skápunum hverju sinni. Næst ætla ég að prófa að setja eitthvað krydd í það. Kannski broddkúmen. Mmm. 

Hér er uppskriftin, aðferð fyrir neðan. Ég mæli eindregið með því að þið prófið. Það tekur tíu mínútur að hræra í það og svo er bara að bíða á meðan vatnið vinnur vinnuna sína, bindur allt saman og leysir næringarefnin enn betur úr læðingi. Ég mæli svo líka með því að þið gefið mér háa fimmu í hugskeyti fyrir að geta strokað eitt atriði út af listanum.

Hellis-stærra

Blandið öllum þurrefnum saman í sílikonbrauðformi. Blandið vatni, olíu og hlynsírópi saman í öðru íláti og hellið svo yfir þurrefnablönduna. Hrærið varlega þar til allt er orðið blautt og „klesst“. Jafnið út með skeið og látið standa í allt frá tveimur tímum upp í heila nótt. Ég lét mitt bara standa á eldhúsborðinu í nokkra tíma og gekk úr skugga um að brauðið héldi lögun sinni þegar ég togaði formið aðeins frá. Hitið ofn í 175°C og bakið í 20 mínútur, takið þá úr forminu og bakið áfram í 30-40 mínútur, eða þar til holt hljóð heyrist úr brauðinu þegar bankað er í það. Látið kólna áður en það er skorið.

Bon appetit!

Merkt , , ,

Áfram, mars: framkvæmdalisti

the artifacts of morning

Mynd héðan.

Nýr mánuður er genginn í garð. (Og gott betur en það auðvitað, en getum við bara þóst að það sé fyrsti í dag? Max annar? Ókei takk. Ég er pínu viðkvæm. Bessi uppgötvaði píkuskrækinn, hæsta c sem hægt er að ímynda sér, og beitir honum nú alveg óhikað við hvert tækifæri. Hljóðhimnan mín getur ekki verið annað en teygð, toguð og jafn illa farin og sokkabuxurnar sem ég þrjóskaðist við að nota á meðgöngunni. Geðheilsan líka.)

Núnú.

Ég er með svona rúllandi lista af hlutum sem mig langar að gera og prófa og elda. Helsti gallinn á þessum lista er sá að hann er bara geymdur í höfðinu á mér. Þar sem ég er álíka skýr í hugsun og meðalmygluð pera þessa dagana kemur það því eflaust ekki mikið á óvart að góðum hluta listans er aldrei hrint í framkvæmd. Sem dæmi: mig hefur lengi langað að prófa að búa til drykk sem ég „pinnaði“ fyrir margt löngu síðan. Til þess þarf rósmarínsíróp. Ég hef farið í á að giska 40 búðarferðir með þeim góða ásetningi að kaupa nú rósmarín til að gera sírópið, en komið heim með basilíku eða bara negul. Eða, ef ég á að segja alveg satt, bara rískökur með súkkulaði og kannski enn einn klósettpappírspakkann.

Í morgun tók ég mér hins vegar tak og skrifaði lista yfir alla þessa hluti. Eða sko, þá hluti sem ég man einmitt núna. Og svo ætla ég meira að segja að taka þetta skrefinu lengra og setja mér aktúal tímamarkmið. Hér er sem sagt það sem mig langar að gera, framkvæma, elda, prófa, prjóna, í mars:

+ klára eyrnabandið sem ég er að prjóna.

+ koma fallega stjörnuhiminsplakatinu okkar, sem er alveg að molna í sundur, yfir á blindramma.

+ baka paleo-brauðið sem er bara úr hnetum, fræjum og vatni.

+ gera rósmarínsírópið og blanda blessaðan drykkinn loksins.

+ búa til saltskrúbbinn sem hljómar svo agalega vel.

+ fara á bókasafnið og sækja mér vænan stafla af ljóðabókum. Gerður Kristný, Gyrðir og Sjón eru á listanum mínum. Fleiri?

+ byrja að skrifa niður allt það ótalmarga sem Bessi lærir og gerir á hverjum degi, því ég veit að ég vil muna það. Líka píkuskrækina.

Svona, er þetta ekki ágætis listi og góður ásetningur fyrir mánuðinn?

Merkt , ,

A go go

Smá japanskt æði svona í helgarbyrjun. Ég fann þetta dásamlega vídeó á Vimeo og endaði á því að horfa á allt sem listakonan, Shishi Yamazaki, hefur sett þar inn. Hún. Er. Æði. Vá hvað ég er hrifin af stílnum hennar, sixtís-legri tónlistinni, dansinum… Ég dýrka þetta. YA-NE-SEN a Go Go er víst byggt á henni sjálfri að dansa í ýmsum hverfum Tókýó. Bjóddu mér upp, segi ég nú bara.

Nýjasta myndbandið er bara nokkurra vikna og hluti af útskriftarverkefni hennar frá listaháskóla í Tókýó. Það er gjörsamlega gloríus líka. Algjört augnakonfekt. Sjá hér.

Og þar með tralla ég áfram inn í helgina mína – sem hófst raunar á útikvöldi foreldranna, með sushiáti, drykk á Loftinu, blaðri og bulli á meðan Bessinn hegðaði sér eins og það fyrirmyndarbarn sem hann er hjá frænku sinni og steinsofnaði bara eftir pöntun. Jess! Það er vor í lofti, nýir og bjartari tímar framundan… Er það ekki bara?

 

Merkt , , , , ,

Silki

silki

Síðustu vikur hefur lestur góðra bóka heldur setið á hakanum hjá mér. Mér finnst einhvern veginn svolítið erfitt að sökkva mér í lestur þegar ég veit að það er bara tímaspursmál hvenær barnið galar á athygli mína og þegar drengurinn er sofnaður að kvöldi hafa bíómyndir og internetið haft vinninginn. Illska Eiríks Arnar, sem ég fékk í jólagjöf og hlakka mikið til að lesa, bíður því enn í plastinu heilum tveimur mánuðum eftir jól  – örlög sem ég get ábyrgst að jólabók hefur aldrei hlotið á mínu heimili áður. Þessir tímar stuttra frístunda og örlítillar athyglisröskunar (hæ, brjóstaþoka) hafa hins vegar haft þau jákvæðu áhrif að ég hef enduruppgötvað ljóðabækurnar mínar. Það er enginn vandi að ná að lesa ljóð – og njóta þess – á meðan barnið skoðar sig í leikspeglinum eða tekur stutta kríu.

Í jólagjöf fékk ég líka ljóðabók Gerðar Kristnýjar, Strandir, og ég er búin að lesa hana gjörsamlega upp til agna. Næst á dagskrá er ferð á bókasafnið til að ná mér í Blóðhófni og fleira góðgæti úr hennar smiðju – ég var stormandi hrifin af ljóðunum hennar og langar í meira. Eitt þeirra, sem ættað er frá indverskum ströndum, fékk mig til að lygna aftur augunum og brosa. Ég er hrifnust af ljóðum sem kalla fram skýra mynd í huganum, og það er sko nóg af þeim í bókinni hennar Gerðar Kristnýjar. Þetta færði mig á svipstundu aftur til Jodphur eða Varkala, ég fann lyktina af reykelsisbúntunum, heyrði kliðinn af markaðinum og skerandi flautið í einhverju rikshawinu. Og sá litina liðast fyrir augum mér, allt silkið og saríana í einni stórri flóðbylgju af leikandi litum.

Ljóðið er svona:

Silki

Sjölin svífa
niður úr hillum
og setjast í
lófa mína

„Ekta silki,“
segir kaupmaðurinn
Hann bregður upp eldspýtu og svíður af kögri

„Sko! Lyktar eins og brennt mannshár – alveg ekta!“

Hann skrökvar aldrei, trúir á Jesú
– bendir á kross
fyrir aftan sig –
og ólst upp á munaðarleysingjahæli
móður Teresu

Það var hún sem
kenndi honum að
segja satt

Hún gleymdi samt að
temja honum kurteisi
því þegar ég
hleypi sjölunum
aftur upp í hillur
steypast yfir mig
bengölsk blótsyrði

En nú get ég
hvenær sem er
brennt lokk
úr hári mínu
og fundið angan af
indversku silki

– Gerður Kristný,
úr ljóðabókinni Strandir

Mæli hiklaust með henni!

Merkt , , , ,
Auglýsingar