Af draugaborg og konu með silfurhár

Harmleikir – bæði þeir skálduðu og raunverulegu – eiga greiða leið að hjarta mínu. Kannski hafði  Aristóteles ýmislegt til síns máls varðandi kaþarsis; útrásina sem slíkir leikir veita okkur. Ég veit það ekki. Það er hið mannlega sem höfðar til mín. Og maðurinn er einhvern veginn aldrei jafn berskjaldaður, jafn ber og mannlegur og þegar lífið breytist í harmleik á svipstundu. Þá sýnir hann sínar allra bestu hliðar; ótrúlegt hugrekki, fórnfýsi og manngæsku sem blæs manni í brjóst endurnýjaða trú á heiminn og mannkynið. Harmleikurinn afhjúpar líka skuggahliðarnar. Allt það myrka, vonda, ljóta sem á sér líka bólfestu í mannskepnunni og brýst oft fram við slíkar aðstæður.

Þetta heillar mig. Maðurinn og allt hans skrýtna, góða, vonda, myrka, ljósa litróf heillar mig.

Ég hnaut um þessa grein á ferðavefnum Global Grasshopper; lista yfir áfangastaði í Evrópu þar sem sorgin er aðalaðdráttaraflið. Mig langar á þessa tvo. Annars vegar í draugaborgina Pripyat sem var rýmd 36 tímum eftir kjarnorkuslysið í Chernobyl. Íbúarnir héldu að þeir myndu snúa aftur eftir örfáa daga, en þeir komu aldrei til baka. Tíminn stoppaði. Um götur borgarinnar ganga villt dýr, húsin morkna og sovétáróðurinn sem má sjá út um allt er smátt og smátt að flagna af. Parísarhjólið í skemmtigarðinum sem átti að opna nokkrum dögum eftir að slysið varð hefur ekki enn farið jómfrúrferðina.

Mig hefur líka lengi langað til Auschwitz-Birkenau, þó ég viti vel að ég eigi eftir að þurfa marga daga til að jafna mig eftir heimsókn þangað.

Þegar ég var í menntaskóla í Svíþjóð fengum við heimsókn frá eftirlifanda; pólskri konu sem sagði okkur frá því hvernig fjölskyldu henni var smalað saman, tvístrað og þau flutt í mismunandi búðir. Söguna af mömmu hennar og hárlitnum mun ég muna til æviloka, hugsa ég.

Gyðingarnir í þorpinu þeirra höfðu fengið ávæning af því sem átti sér stað, vissu að hermennirnir nálguðust. Þeir vissu líka að fólki var skipt upp í hópa eftir aldri, og höfðu óstaðfestan, nagandi grun um hvað henti þá sem dæmdir voru „of gamlir“. Móðir þessarar konu skartaði síðu, silfurgráu hári sem aðrar konur í bænum öfunduðu hana af. Hún óttaðist að hárið, þetta fallega hár sem hún hafði safnað svo lengi og hirti svo vel, yrði henni að falli. Nóttina sem hermennirnir komu í bæinn lokaði hún sig inni á baði með dökkan hárlit og faldi silfrið í hárinu, litaði það hrafnsvart eins og hár dætra sinna. Faðirinn var unglegri, ekki enn orðinn silfraður, og hafði því ekki sömu áhyggjur.

Gyðingunum var smalað saman daginn eftir, látnir hnipra sig saman á íþróttavelli bæjarins með örfáar pjönkur í poka. Svo var þeim skipt upp. Hermennirnir gengu um, pikkuðu í axlir og drógu gamla fólkið afsíðis. Fjölskyldan beið með stein í maganum, eins og allar hinar. Mamman fékk að vera og þau vörpuðu öndinni léttar. Dagurinn leið, það dimmdi, fólkið húkti og hjúfraði sig saman og beið þess sem verða vildi.

Undir kvöld fór að rigna.

Svipurinn á andliti þessarar konu, þegar hún lýsti því hvernig hárliturinn rann  í dökkum taumum niður andlitið á mömmu hennar, er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Alltaf muna. Við grétum öll með henni þegar regnið jókst. Hermennirnir komu. Þeir tóku konuna með dökku tártaumana og silfraða hárið og dóttir hennar sá hana aldrei aftur.

Svo ég vil fara til Auschwitz-Birkenau. Og ég veit að ég verð ómöguleg í marga, marga daga á eftir. En ég vil ekki gleyma. Ég vil alltaf muna þessar mæðgur, og í gegnum þær alla hina.

Auglýsingar
Merkt , ,

2 hugrenningar um “Af draugaborg og konu með silfurhár

  1. Sæl nafna. Fannst ég verða fyrir kurteisisakir að þakka fyrir rafrænu heimsóknirnar í bloggheima þína. Nýt þess að kíkja við. Bestu kveðjur, Sunna.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: