Sestu hjá mér

Síðustu daga hef ég hangið á Blandinu (sem ég kalla ennþá Barnaland, er ég ein um það?) í von um að finna þar sófa fyrir risið okkar huggulega. Eða sko, risið sem verður vonandi huggulegt núna alveg á næstunni, þegar það fær loksins einhverja lágmarks athygli. Það mætti algjörum afgangi þegar við hreiðruðum um okkur á Klapparstíg. Þar er núna einhvers konar óskilgetið afsprengi sófa og sumarbústaðabedda með ljótasta áklæði sem ég hef á ævi minni séð, keyptur á þrjú þúsund krónur í algjörri skítareddingu kortér í fæðingu. Eða svona hérumbil. Ég er hins vegar á höttunum eftir kúrisófa sem við fjölskyldan litla getum kúldrast og knúsast í næstu árin, og hann má gjarnan vera aðeins meira fyrir augað en þessi vanskapnaður sem nú á heima í risinu. Kúrisófann hef ég ekki enn fundið á Blandinu.

Í staðinn hef ég fundið sófa sem mig langar í niður í borðstofu/stofu/altmúligt rýmið okkar á neðri hæðinni. Þennan fína gula hérna að ofan fann ég á heimasíðu verslunarinnar Módern, sem ég hef reyndar aldrei gerst svo fræg að heimsækja. Coogee heitir gripurinn, frá franska merkinu Sentou. Hann er líka til gullfallega blár og grár, tveggja og þriggja sæta.

Ég asnaðist til að halda svo áfram að skoða svona puntsófa, sem myndu smellpassa niður í opna rýmið okkar, þar sem við verjum bróðurparti daganna. Hugsiði ykkur bara, að hreiðra um sig í einhverjum af þessum sófum, með morgunkaffibollann og blaðið á meðan Bessi æfir sig í að velta sér á alla kanta á teppi á gólfinu. Og sólin skín og helgarblómin standa enn keik og það er plata á fóninum sem snýr sér sjálf við og nuddkonan mín er á leiðinni upp stigann og barnið er farið að sofa í ellefu tíma samfleytt á nóttunni. Hvað, ég er að láta mig dreyma hérna! Puntsófi er að minnsta kosti engan veginn í forgangi á innkaupalista heimilisins, svo ég fæ bara útrás hér í staðinn…

Þessi er frá Ilvu, líka til skærbleikur (ólíklegt að ég fái það í gegn…) og fjólublár. Hann er samt þriggja sæta og því líklega ívið stór.

Wilmot-sófinn frá Habitat finnst mér ægilega fínn.

Þessi er líka ansi snotur, með líflegri púðum en þessum litlu pullum þarna, en hann er uppseldur hjá Tekk Company. Sem ég hef nota bene ekki heldur heimsótt síðustu tíu árin eða svo. Ég ætti kannski að fara að víkka sjóndeildarhringinn út fyrir Ikea og flóamarkaðina? Jæja, aftur í blandið.

Auglýsingar
Merkt , , ,

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: