Mánaðarskipt greinasafn: febrúar 2013

Öll dýrin í skóginum

Þó enn sé nú eitthvað í það að Bessinn minn góði flytji yfir í sitt eigið herbergi er ég farin að láta hugann reika um hvernig það gæti litið út þegar þar að kemur. Ég hnaut um þessa síðu ljósmyndarans Sharon Montrose á netinu og varð frekar mikið skotin í myndunum. Nokkrar þeirra eru þegar komnar á veggina í ímyndaða barnaherberginu mínu…

 

 

Ég meina það, er þetta ekki hræðilega sætt?

Á síðunni eru líka aðrar og minna barnalegar myndir og mér finnst fuglamyndirnar eiginlega bara allar flottar. Hrægammasettið er sérlega heillandi, og svo mætti buffalóinn líka alveg gera sig heimakominn á loftinu hjá mér:

Er annars rangt að hlakka alveg verulega til þess að barnið flytji í sitt eigið herbergi? Hann er þannig af guði gerður, þessi elska, að hann rumskar ef við hækkum raddirnar bara rétt upp fyrir hvísl. Ég er farin að sakna þess alveg verulega að geta talað við manninn minn uppi í rúmi á kvöldin. Lesið. Jafnvel, guðhjálpokkur, horft á einn þátt í tölvunni eða svo. Og allt hitt. Þiðvitið. Ef það væri ekki fyrir þá staðreynd að hann er enn að vakna tvisvar til þrisvar á nóttu til að fá sér sopa og barnaherbergið er alveg hinum megin í íbúðinni væri ég eflaust byrjuð að mála…

Segi ég. Svo fæ ég pottþétt svakalegan aðskilnaðarkvíða og þetta endar á því að hann flytur upp í okkar rúm og sefur þar fram að fermingu.

Allavega. Fínar myndir!

Auglýsingar
Merkt , , , , ,

Start as you mean to go on

morgunmatur

Morgunmatur: mikilvægasta máltíð dagsins, segja þeir. Og ég er loksins sammála. Eftir að hafa reynt að pína þennan þýðingarmikla málsverð ofan í mig árum saman, þrátt fyrir að algeran skort á matarlyst á morgnana, virðist gæfan hafa snúist mér í hag. Kannski er ég orðin fullorðin. Og kannski lærði ég bara að gera svo hrikalega girnilegan morgunverð að það er ógerningur að fúlsa við honum.

Ég sver að þetta er það besta í heimi og hlægilega þægilegt í framkvæmd líka. Gerðu hafragraut. Þegar hann er tilbúinn, taktu hann af hellunni og hrærðu út í hann einni matskeið af hnetusmjöri og smá kanilklípu. Sáldraðu yfir hann frosnum bláberjum (íslensk eru langsamlega best, en bónusberin duga). Stráðu því yfir sem þér finnst gott og gerir þér gott. Ég nota möluð hörfræ, því þannig nýtast þau líkamanum betur, chia-fræ, valhnetur og tvær döðlur sem ég klíp í sundur í hæfilega bita. Hollt og yfirgengilega gott.

Og þá getur dagurinn ekki annað en orðið góður, þegar maður byrjar hann á því að nostra svona við eigin líkama – ekki síst bragðlauka. Ekki satt?

Merkt ,

Konudagur og kósíheit

Ég átti framúrskarandi góðan konudag í gær. Við vörðum helginni hjá tengdó í Hveragerði, sem er alltaf eins og að fara í smá lúxusfrí. Við borðuðum góðan mat, spiluðum, spjölluðum, busluðum og nutum þess í botn að leyfa ömmu og afa að leika við Bessa á meðan við notuðum tækifærið og sváfum, flettum blöðum, sváfum aðeins meira, stungum af í nytjamarkaðsrúnt á Selfoss og sveitabíltúr á laugardegi og sváfum svo aðeins til viðbótar. Aðallúxusinn felst í því að Frumskógarnir (hér) eru náttúrulega gistiheimili, svo það fer fáránlega vel um okkur öll.

IMG_1796

Veðrið á heiðinni var… já. Svona.

IMG_1814

Á konudegi fékk ég að sofa fram eftir á meðan strákarnir mínir léku við ömmu og afa. Var svo vakin með kossi, nýjasta Vogue og Retro Stefson plötunni góðu sem mig langaði svo í. Bessinn hélt upp á konudaginn með því að splæsa í 2,5 tíma lúr í vagninum (loooooksiiiiins) og á meðan fórum við í einkaspaið okkar úti í garði. Ég meina það – heitur pottur, gufa og útisturta, hvað þarf maður meira? Ég fór að forskrift svila minns og splæsti í þriggjafasagufu; þrjú sessjón í brennheitri gufunni með kaldri sturtu á milli. Ég sver að ég hef aldrei á ævinni verið jafn hrein og hress.

IMG_1849

Eftir kaffisötur og meira spjall pökkuðum við svo í bílinn (það er alveg út í hött hversu mikið dót fylgir litlu barni. Út í hött.) og brunuðum í humarsúpu á Við fjöruborðið ásamt tengdó.

IMG_1860 copy

IMG_1867

IMG_1872

Þaðan lá leiðin svo heim, þar sem við hjúfruðum okkur í fína nýja (gamla) sófanum okkar og reyndum að horfa á Argo í tilefni dagsins. Það misfórst, svo við reynum bara aftur síðar. Í alla staði unaðslegur dagur og ég er mögulega heppnasta kona á jörðu. 

Merkt , , , ,

Af draugaborg og konu með silfurhár

Harmleikir – bæði þeir skálduðu og raunverulegu – eiga greiða leið að hjarta mínu. Kannski hafði  Aristóteles ýmislegt til síns máls varðandi kaþarsis; útrásina sem slíkir leikir veita okkur. Ég veit það ekki. Það er hið mannlega sem höfðar til mín. Og maðurinn er einhvern veginn aldrei jafn berskjaldaður, jafn ber og mannlegur og þegar lífið breytist í harmleik á svipstundu. Þá sýnir hann sínar allra bestu hliðar; ótrúlegt hugrekki, fórnfýsi og manngæsku sem blæs manni í brjóst endurnýjaða trú á heiminn og mannkynið. Harmleikurinn afhjúpar líka skuggahliðarnar. Allt það myrka, vonda, ljóta sem á sér líka bólfestu í mannskepnunni og brýst oft fram við slíkar aðstæður.

Þetta heillar mig. Maðurinn og allt hans skrýtna, góða, vonda, myrka, ljósa litróf heillar mig.

Ég hnaut um þessa grein á ferðavefnum Global Grasshopper; lista yfir áfangastaði í Evrópu þar sem sorgin er aðalaðdráttaraflið. Mig langar á þessa tvo. Annars vegar í draugaborgina Pripyat sem var rýmd 36 tímum eftir kjarnorkuslysið í Chernobyl. Íbúarnir héldu að þeir myndu snúa aftur eftir örfáa daga, en þeir komu aldrei til baka. Tíminn stoppaði. Um götur borgarinnar ganga villt dýr, húsin morkna og sovétáróðurinn sem má sjá út um allt er smátt og smátt að flagna af. Parísarhjólið í skemmtigarðinum sem átti að opna nokkrum dögum eftir að slysið varð hefur ekki enn farið jómfrúrferðina.

Mig hefur líka lengi langað til Auschwitz-Birkenau, þó ég viti vel að ég eigi eftir að þurfa marga daga til að jafna mig eftir heimsókn þangað.

Þegar ég var í menntaskóla í Svíþjóð fengum við heimsókn frá eftirlifanda; pólskri konu sem sagði okkur frá því hvernig fjölskyldu henni var smalað saman, tvístrað og þau flutt í mismunandi búðir. Söguna af mömmu hennar og hárlitnum mun ég muna til æviloka, hugsa ég.

Gyðingarnir í þorpinu þeirra höfðu fengið ávæning af því sem átti sér stað, vissu að hermennirnir nálguðust. Þeir vissu líka að fólki var skipt upp í hópa eftir aldri, og höfðu óstaðfestan, nagandi grun um hvað henti þá sem dæmdir voru „of gamlir“. Móðir þessarar konu skartaði síðu, silfurgráu hári sem aðrar konur í bænum öfunduðu hana af. Hún óttaðist að hárið, þetta fallega hár sem hún hafði safnað svo lengi og hirti svo vel, yrði henni að falli. Nóttina sem hermennirnir komu í bæinn lokaði hún sig inni á baði með dökkan hárlit og faldi silfrið í hárinu, litaði það hrafnsvart eins og hár dætra sinna. Faðirinn var unglegri, ekki enn orðinn silfraður, og hafði því ekki sömu áhyggjur.

Gyðingunum var smalað saman daginn eftir, látnir hnipra sig saman á íþróttavelli bæjarins með örfáar pjönkur í poka. Svo var þeim skipt upp. Hermennirnir gengu um, pikkuðu í axlir og drógu gamla fólkið afsíðis. Fjölskyldan beið með stein í maganum, eins og allar hinar. Mamman fékk að vera og þau vörpuðu öndinni léttar. Dagurinn leið, það dimmdi, fólkið húkti og hjúfraði sig saman og beið þess sem verða vildi.

Undir kvöld fór að rigna.

Svipurinn á andliti þessarar konu, þegar hún lýsti því hvernig hárliturinn rann  í dökkum taumum niður andlitið á mömmu hennar, er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Alltaf muna. Við grétum öll með henni þegar regnið jókst. Hermennirnir komu. Þeir tóku konuna með dökku tártaumana og silfraða hárið og dóttir hennar sá hana aldrei aftur.

Svo ég vil fara til Auschwitz-Birkenau. Og ég veit að ég verð ómöguleg í marga, marga daga á eftir. En ég vil ekki gleyma. Ég vil alltaf muna þessar mæðgur, og í gegnum þær alla hina.

Merkt , ,

Fjórir

B2

Ég tek mér pásu frá pásunni í dag, bara í dag, því í dag eru fjórir mánuðir frá því að þessi snúður kom inn í líf mitt. Ég er ömurleg í að halda dagbók yfir allt það sem hendir okkur Bessa á hverjum degi. Ætli hún fái ekki bara að verða rafræn. Jú.

Sjáðu, Bessi.

Þarna ertu, splunkunýr, bara sex tíma gamall en samt eins og beint frá eilífðinni, eins og þú hafir alltaf verið til, kannski ævafornt fjall með æðar úr gulli eða kyrrt stöðuvatn sem glitrar af lífi alla leið niður á sandmjúkan botn. Bessi minn Huginn. Íhuguli björninn sem flýgur með mig til endimarka heimsins á hverjum degi og skilar mér aftur í rúmið auðmjúkari, betri, þakklátari fyrir allt það sem lífið hefur gefið mér.

Nú ertu fjögurra mánaða og hjalar út í eitt, skoðar á þér tærnar, vilt frekar sitja en liggja og heldur standa en sitja, þó þú hafir enga líkamsburði til þess enn, bangsi minn góður. Þú teygir þig í allt sem þig langar í og lykur um það lófa af þvílíkri einbeitingu að hjarta mitt syngur. Á hverjum degi gerirðu eitthvað nýtt, á hverjum degi verður heimurinn skemmtilegri og ríkari. Nú ullarðu og frussar, hlærð við og dansar lítinn ræl í rúminu þegar við komum að sækja þig eftir lúrana þína – sem enn eru stuttir og laggóðir. Þú elskar Núma hund og Írisarbangsa og að fara í bað og liggja á gærunni á bossanum og spjalla, en mest af öllu pabba þinn og ömmurnar og afana og fjölskylduna þína sem ber þig á höndum sér – þó þú sígir í með öll þín níu kíló.

Og mig. Þú elskar mig og það er svo langtum meira en endurgoldið, Bessinn minn bollukinn, bangsi minn bestaskinn.

Fjögurra mánaða bollurass.

Ef ég fengi að ráða yrðum við alltaf svona. Kinn við kinn. Hjarta við hjarta.

Til hamingju með mánuðina þína fjóra. Ég elska þig út yfir endimörk heims.

Merkt ,

Love for all

Loveforall

Ég er í sjálfsskipuðu bloggfríi. Móðir mín elskuleg er á landinu og ég ver dögunum í spjall og smá aðstoð og kaffiboð og Bessaklapp og huggulegheit. Og örlitla hjúkrun, þar sem greyinu tókst að verða sér úti um hressa flensu í flugvélinni. Við heyrumst aftur þegar hún fer heim til sín og ég aðlagast móðurlausum hversdegi á ný. Ég ætti að vera orðin vön – nú í janúar voru tíu ár frá því að ég flutti frá Svíþjóð og heim til Íslands, og samt eru dagarnir eftir hún fer heim eða ég fer frá henni alltaf jafn skrýtnir eitthvað. Tíu ár í öðru landi en mamma mín. Það er mjög, mjög langur tími, þykir mér.

Sem sé. Ég er í knúspásu. Þar til ég sný aftur segi ég bara eins og þetta fína skilti, sem vísar veginn að mosku í Fort Cochin í Kerala: Love for all, hatred for none.

Pís át.

Merkt ,

Símalíf vol. 2

Insta 3

Svipmyndir úr símanum frá síðustu dögum – og vikum.

1. Helgartúlipanar. 2. Klassískt barn á klassískri gæru.

3. Þessi augu bræða mig. 4. Sól og skuggi í febrúarvori.

5. Geispandi gæi allt of snemma morguns. 6. Hlýlegt tré í sólinni.

7. Verslunarferð í Frú Laugu á frídegi. 8. Þessi var að uppgötva tærnar á sér, sem eru merkilegt nokk þær fallegustu í heimi.

9. Bauna-avókadó-mangó-kóríander tortillur í kvöldmat. Namm. 10. Blóðappelsínur. Tvöfalt namm.

Merkt , , , ,

Valentínusaruppáhöld

Þingvellir3

Það eru enn einhverjar mínútur eftir af Valentínusardegi og þó ekki hafi verið haldið upp á hann í raunheimum – öðruvísi en að dansa gegn kynbundnu ofbeldi auðvitað! –  má alveg kalla þetta Valentínusarfærslu. Hér eru að minnsta kosti uppáhöldin mín, á þessum degi og alla daga. Frá Þingvallaferð litlu fjölskyldunnar um daginn, þegar það þótti bráðnauðsynlegt að komast aðeins út fyrir borgarmörkin. Almannagjáin var falleg eins og alltaf og við náðum meira að segja að stinga Japanina á lakkskónum af og ná aðeins að vera út af fyrir okkur. Yndislegt. Og blautt.

Þingvellir2

Þingvellir1

Þessir feðgar rokka heiminum mínum. Þannig er nú það.

Nokkur ps:

Ég mæli endalaust mikið með burðarsjalinu sem Bessi lætur fara vel um sig í þarna (þó hann sé reyndar farinn að pirrast eitthvað á síðustu myndinni). Moby-inn hefur bjargað okkur óteljandi sinnum – foreldri hefur hendurnar lausar og barnið hjúfrar sig að bringu og róast. Snilld.

Nei, ég er ekki orðin sjúklega góð í fótósjopp. Ég hef hangið svolítið yfir youtube-tutoriölum (flott beyging, Sunna) þessa gaurs hér. Og hann var svo óskaplega huggulegur að búa til svona action-pakka, sem maður getur sótt sér og notað að vild. Og það besta er að það er hægt að fikta í öllum þrepunum í pakkanum, svo maður lærir nú eitthvað smá líka, notar ekki bara alveg tilbúinn pakka í blindni. Sækist hér.

Og síðasta péessið áður en ég skríð upp í og reyni að sofa úr mér slappleikann sem er að hellast í mig eins og annað heimilisfólk (#plísekkiflensa), ein af mér og Bessa og Moby líka, svo ég fái nú að vera með og líka af því að ég fæ ekki nóg af því að pósta myndum af þessu hjartans barni. Þessi tekin á Ægissíðunni í glampandi sól, á meðan við biðum eftir því að mamma dytti í hús á BSÍ með flugrútunni.

Ægissíða

Merkt , , , ,

Allir elska ull

 

 

Það jaðrar við að vera ósmekklegt hvað mig langar í þessa tölvutösku. Sú sem ég læt mig hafa að stinga djásninu mínu í svona dags daglega er úr einhverju sægrænu frauðplastsdrasli og skartar, eftir um fjögurra ára notkun, bæði  kaffiblettum og puttaförum sem fara ekki fet, sama hvað ég reyni að losna við þau. Þetta djásn, aftur á móti, er gert úr gömlu Pendleton-ullarteppi, en ég er agalega hrifin af þeim. Svo er hún fóðruð að auki til að tryggja öryggi tölvunnar. Fæst í þessari Etsy-búð hér, sem er reyndar líka með frekar snotur pennaveski úr Pendletonum. Já, og hulstur fyrir iPad og Kindle og svo framvegis og framvegis… Allir elska ull, er það ekki? Líka tæknin!

Merkt , ,

Artifact Uprising: gerðu ljósmyndabók á netinu

Ég hef lengi ætlað mér að búa til ljósmyndabók úr einhverjum af þeim skrilljón og þremur ljósmyndum sem ég á hérna í tölvunni minni. Mér líður stundum eins og hún sé tifandi tímasprengja: hvað ef einhver brýst inn og stelur henni eða hún bara geispar golunni, eins og tölvur gera jú stundum? Þar með myndu tvö löng Asíuferðalög og fyrstu fjórir mánuðir Bessa bara hverfa. Það er hörmuleg, hræðileg tilhugsun.

Það er ár og öld síðan ég halaði niður Blurb-forritinu með það í huga að fara að klambra saman bók, en svo varð einhvern veginn aldrei af því. Kannski af því að ég opnaði forritið og skildi ekki strax hvernig það virkar. Nú held ég að ég hafi fundið enn betri kost. Artifact Uprising gerir manni kleift að hanna bækurnar beint á netinu, verðið sýnist mér vera alveg hreint ágætt og miðað við það sem maður sér af lokaútkomunni á síðunni þeirra eru þetta mjög fallegar bækur.

Það er hægt að panta hefðbundnar ljósmyndabækur, en svo er líka boðið upp á sérstakar instagram-bækur, sem er nú ekki ósniðugt. Ég held að ég sé ekki ein um að teygja mig  frekar í símann en myndavélarhlunkinn, þó ég sé nú stöðugt að reyna að taka mig á í þeim efnum.

 

Ég kíkti á kennslumyndböndin þeirra tvö á Vimeo (hér og hér) og fæ ekki betur séð en að sýstemið sé afskaplega aðgengilegt og auðvelt í notkun. Þá er það ákveðið. Ég SKAL ganga í þetta mál.

Merkt , , ,
Auglýsingar