Gimsteinasápur

Ókei, ég er búin að vera með í bígerð hérna vikum saman svona óskalistapóst. (Já, það tekur mig margar vikur að skrifa bloggfærslur. Ekki dæma mig). Ég ætla meira að segja að æfa mig í að splæsa myndum saman í fótósjopp og alltsaman. Búið ykkur undir mikilfengleika og/eða að fara illilega hjá ykkur. Fótosjopphæfileikar mínir eru mjög takmarkaðir svo ekki sé meira sagt, en mig langar mikið að þroska þá aðeins. Svona aðeins lengra en „hvernig kveikir maður á þessu?“.

En. Etsy sendir mér reglulega svona „dót sem við höldum að þér finnist fínt“-tölvupósta. Ef ég vissi ekki þegar að þessar tölvur vita mun meira um okkur en mæður okkar væri ég farin að trúa á tilvist Guðs, því mér finnst undantekningalaust eiginlega bara allt fínt. Í nýjasta póstinum kom þetta. Gimsteinasápur. Og fínt er úrdráttur aldarinnar, svo ég beinþýði enskan frasa.

Ég sá í hendi mér að umræddur óskalisti myndi fljótt umbreytast í níuhundruð myndir af þessari dýrð, svo það væri alveg eins gott að slengja þessu bara inn svona. Vesgú, níuhundruð myndir af sápum. Já, ókei, eða þrjár.

Ju. Fyrsta skref er bara að henda út sorglega gamla sturtuklefanum og búa til baðkar, því svona sápur á að nota í baði. Við kertaljós. Ég verð í bandi eftir fimm ár, þegar það er orðið raunhæft.

Auglýsingar
Merkt , ,

Foreldraverðlaunin, framhaldssaga

ulfurmamma

Mitt daglega líf lítur einhvern veginn svona út þessa dagana.

06.00-07.15. Ræs. Dagana sem ég er farin á fætur klukkan 05 eitthvað vil ég bara ekki tala um. Og dagarnir sem við sofum lengur en þetta eru svo sjaldgæfir hvítir hrafnar að ég er hrædd um að ef ég minnist orði á þá fælist þeir, fljúgi á brott, kúki á húsið mitt á fluginu og komi aldrei aftur. Ræsið felst yfirleitt í því að Bessi kallar og vill fara á fætur. Sem hann/við og gerum. Bessi hefst handa við að lita „krana byggja húsið“ og við hin hlýðum fyrirmælum hans. Með nokkurri list er hægt að tæla hann til að fá hreina bleyju og fara í föt. Að meðaltali inniheldur morgunn 1,8 grátköst.

08.30 fer Bessi í leikskólann og faðir hans til vinnu. Úlfur leggur sig oftast upp úr þessu í tvo tíma og oftar en ekki legg ég mig líka, af þeirri hressu ástæðu að ég er þá búin að vakna 3-4 sinnum yfir nóttina til að sinna þessum dýrum mínum. Þar sem það eru nú rúm tvö ár síðan ég svaf síðast heila nótt (ólétta-lítiðbarn-ólétta-lítiðbarn) held ég líka að ég falli í flokkinn þarna um langþreytu. Mögulega. Smá.

11.00-13.30 Við Úlfur vöknum, hann fær að drekka, ég fæ morgunmat og kaffi ef ég er heppin. Ég reyni að koma einhverju í verk. Stundum set ég í þvottavél. Kannski get ég þurrkað af í einu herbergi, eða, á lúxusdögum, þrifið baðherbergið. Aðra daga fer ég jafnvel í sturtu. Allt af ofangreindu er framkvæmt með misósátt barn á kantinum, sem finnst fásinna að móðir þess þurfi að gera eitthvað svona asnalegt eins og að þvo sér um hárið. Óheppinn hann, því allir aðrir í heiminum eru mjög fylgjandi því að þunnhærða konan fái að lífga upp á klessta greiðsluna mjög reglulega. Svo fær Úlfur mauk að borða, annan sopa og fer aftur út í vagn að lúra.

13.30 – 15.45. Úlfur sefur. Ég reyni að gera eitthvað af viti – undirbúa kvöldmat, til dæmis, svo kvöldrútínan með tvö misósátt börn verði aðeins auðveldari. Já, úps, eða senda tölvupóstinn til leikskólans sem ég gleymdi að senda í morgun. Eða, guð, átti ég ekki að vera búin að læra eitthvað fyrir skólann? Úbb, hvenær vökvaði ég blómin síðast? Umm, hvenær borðaði ég síðast? Aha, ég á eftir að hengja úr vélinni! Nema að nei, Úlfur sefur úti á svölum og ég þori ekki út ef ég skyldi nú vekja hann… Eða bíddu við, vekja hann? Klukkan er að verða fjögur, við þurfum að fara að sækja Bessa! Ég verð að vekja hann!

16.00-16.15, sæki Bessa á nýja leikskólann, spyr titrandi röddu hvernig dagurinn hafi verið, er fullvissuð um að Bessi standi sig mjög vel (nema þegar ég spyr stelpuna sem setur upp meðaumkunar-sorgarsvip og segir að æææ hann eigi nú svolítið bágt. Dreptu mig.). Við spásserum um hverfið, leitum að kisum, förum á róló eða bröllum eitthvað annað.

17.00 Atli kemur heim. Við taka þrír óralangir tímar. Klukkan sex er Úlfur orðinn ómögulegur af þreytu og pirringi, fær graut. Bessi er orðinn svangur og pirraður líka, svo töfragjörningurinn mata-Úlf-og-halda-Bessa-góðum-og-elda-kvöldmatinn er framkvæmdur undir ljúfum tónum tveggja ósáttra barna. Hálftíma síðar borðum við, þá er Úlfur að nálgast sturlun af þreytu. Svo fær hann pela og gjörningurinn ganga-frá-eftir-kvöldmat (sena sem er alltaf eins og spastískar risaeðlur hafi komið saman til að snæða) er framkvæmdur á meðan Bessi reynir annað hvort að setja nýtt met í væligráti (þessi sem er mjög óekta en sker í hlustirnar) eða slasa sig alvarlega með príli á húsgögnum.

20.00 Drengir komnir í náttföt og upp í rúm eftir tannburstun (líka þekkt sem pyntingar), lestur og söng. Bessi mótmælir smá, foreldrum hans til gríðarlegrar ánægju, en sofnar undantekningalaust sjálfur á endanum. Úlfur sofnar örsjaldan sjálfur, þarf oftar smá knúsi-ruggi-aðstoð.

20.05 Við hrynjum í sófann, búin á því eftir átökin. Þá á bara eftir að skúra eldhús og borðstofu, brjóta saman þvottafjallið í stofunni og hvernig var með þvottinn í vélinni, þarf ekki að hengja hann út? Og jú, gott ef ég átti ekki einmitt að skila skólaverkefni, eða bíddu… Yfirleitt endar þetta á að við gerum einhver húsverk af veikum mætti og störum svo ósjáandi augum inn í internettómið á meðan við hlustum á sjónvarpsdagskrána á rúv.

22.00-23.00 Skríðum í rúmið. Sofnum. Nema ég, þegar ég er ofsaþreytt, sofna ekki. Það er mjög gaman. Og svo vaknar Úlfur og svo Bessi og svo Úlfur…

Heillandi líf, eins og þið heyrið.

Nú er því svo farið að ég er ekki manneskjan sem brosi hringinn og hjala um eintóma gleði og lífsins sælu hvað viðkemur litlum börnum. Ekki misskilja, ég dýrka strákana mína og finnst þeir langsamlega best lukkuðu manneskjur í heimi. Kalt mat. En ég viðurkenni líka mjög fúslega að það er margt mjög mikið meira gefandi en að eiga í tveggja klukkutíma samræðum við pirrað ungabarn, hvers orðaforði nær bara til „brrrrr“ og „baabbababa“. Ég upplifi mig hins vegar reglulega líka verulega mislukkaða fyrir vikið. Mér líður eins og ég ætti að stara djúpt í augun á Úlfi alla daga frá morgni til kvölds, kyrjandi barnavísur og sveiflandi þroskaleikföngum á meðan ég fer með margföldunartöfluna og sem skemmtisögu um lotukerfið. Í staðinn er ég oftar en ekki að reyna að borða hádegismat og brjóta saman þvott í einu, vissulega kyrjandi barnavísur, en það ofan í umkvartanir hans vegna þess að hann er eina ferðina enn búinn að velta sér á magann þrátt fyrir að hann vilji alls ekki vera á maganum. Ég upplifi mig líka mislukkaða þegar mér tekst ekki að vinda ofan af sjötta geðvonskukasti Bessa þann daginn með yfirvegun og útsjónarsemi, heldur enda á því að fórna höndum yfir organdi barni sem finnst ótækt að það megi ekki borða saltstangir í kvöldmatinn og stynja „Þetta er bara svona!“

Ég held, ég vona og trúi, að ég sé ekki ein. Ekki ein um að finnast ég ekki alveg vera að sópa að mér foreldraverðlaununum. Og ég veit að fyrir mína parta finnst mér afskaplega hressandi að lesa um aðra mislukkaða, eða mislukkulega, foreldra. Svo að því sögðu, og af því að þetta uppeldisstúss er nokkurn veginn allt sem ég geri þessa dagana, bjó ég hér til nýjan efnisflokk. Hann heitir Foreldraverðlaunin. Við þá sem vilja fylgjast með ósigrum mínum í öldusjó barnauppeldis segi ég bara stay tuned. Af nógu er að taka.

Merkt , , ,

Lykke & Other Stories

Það er ágætt fyrir budduna mína, og í beinu framhaldi aðbúnað barna minna og óektamanns, að & Other Stories sé ekki til á Íslandi. Kannski sér í lagi nú, þegar afrakstur samvinnu Lykke Li og merkisins er væntanlegur í verslanir. Forvitnir fengu smá smjörþef af línunni með þessu oggulitla en mjög svo huggulega myndbandi í gær.

Ég fæ svona suð í tærnar af hrifningu, þið vitið? Línan ku vera óskalisti Lykke Li sjálfrar, klassískar, svartar flíkur með beinum, einföldum línum. Svona maskúlína, mætti segja. (Ég segi mjög vonda brandara, já.)

Lykke er í mínum bókum með flottari konum í heimi hér, hún er töffa alteregóið mitt, konan sem ég væri ef ég hefði tíma og efni og kraftinn til. (Í staðinn held ég áfram að rokka mínu tætta, upplitaða sumarhári og sjö ára gömlum hlírabolum úr HM. Þetta er ekki tískublogg, ef einhver skyldi halda það.)

Ég meina jeminn. 

 

Þessi síðasta er nú alveg til þess fallin að blása tattúpælingum húsfreyjunnar byr undir báða vængi. Hm. 

Ég hlakka mikið til að sjá afraksturinn, þó ekki væri nema til að geta beint dagdraumunum í einhvern góðan farveg. 

I’m thinking of you but not in a creepy way

Ég hnaut um tækifæriskortin hennar Emily McDowell á Etsy fyrir löngu síðan, hló upphátt og forwardaði á alla sem ég þekki. Næstum. 

 

 

Hún gerir líka þetta hérna, sem ég trúi í hjarta mínu að súmmeri upp nokkurn veginn öllum langtímasamböndum fólks undir fertugu í heiminum:

Talandi um það er ég alltaf að daðra við að bannlýsa síma og tölvur úr svefnherberginu. Það heyrir reyndar til algjörra undantekninga að tölvurnar fái að koma upp í rúm að kvöldi til, mér til mikillar ánægju. Það er verra með símann. Ég ánetjaðist mínum þegar ég þurfti að halda mér vakandi yfir ungabörnum heilu og hálfu næturnar og ég er eitthvað voðalega háð því að hafa hann alveg við hliðina á mér. Sem er absúrd, það er ekki eins og ég sé að bíða eftir símtali frá Hvíta húsinu eða sætasta strák sem ég hef séð. (Sá sefur við hliðina á mér.)

Já. 

Kort, sem sé. Þau eru málið. Ef maður er hins vegar ekki æstur í að panta sér handgerðu kortin hennar Emily alla leið frá Amríku en vantar eitthvað skemmtilegt til að setja utan á pakka mæli ég hundrað prósent með ljósmyndakortunum sem fást á Borgarbókasafninu, með myndum úr safnkosti Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Þau eru æði. Og ljósmyndavefurinn þeirra alveg til þess gerður að fá mann til að gleyma bæði stund og stað og kvöldmatnum í ofninum. 

Skilaboð á miða

ulfur

Það er langt um liðið.

Langt, og samt svo stutt. Tíminn er eins og samanvöðlað blað í vasanum þessa dagana, svona miði sem er óvart búinn að fara sjö hringi í þvottavélinni. Lítil krumpuð kúla sem breytist í heila pappírsörk þegar maður byrjar að slétta úr henni. Eru liðnir fimm mánuðir? Ha?

Kannski er það bara ég sem er samanvöðlaða blaðið, þannig líður mér oftar en ekki. Eins og heilinn í mér sé krumpuð pappírskúla og ef það stóð einhvern tíma eitthvað á blaðinu er það löngu horfið í þeytivindunni.

Lífið er gott, en það er svo sannarlega „intensíft“, eins og vinkona mín orðaði það um daginn. Mjög intensíft. Mér líður svolítið eins og við séum að tækla lífið svona eins og annað fólk tæklar flutninga milli landa, eins og risavaxið vesenisverkefni sem þarf að hjóla í og græja.

Tíminn flýgur, Úlfur er allt í einu næstum fimm mánaða og á sama tíma og mér finnst hann vaxa allt of hratt stend ég mig líka að því að óska þess að tíminn líði enn hraðar. Óska þess að ég gæti spólað yfir þetta endalausa svefnleysi og meðfylgjandi ergelsi og viðkvæmni, spólað fram í aðeins meira sjálfbjarga börn, aðeins meira frelsi, aðeins fleiri stundir af vinkonuhlátri, rómantík eða endurnærandi einveru. (Og svo brosir Úlfur með tilheyrandi slefstraumi og þá vil ég auðvitað ýta strax á pásu, strax strax og hann má aldrei eldast.)

Ég held, og ég ætla að leyfa mér að halda, að það sé þó aðeins farið að rofa til. Að ég, og við Atli bæði, getum mögulega aftur farið að taka einhvern þátt í samfélagi lifandi manna. Máli mínu til stuðnings get ég bent á að það stendur jafnvel til að við förum í bíó í vikunni. (Ég fór síðast í bíó að sjá Svartur á leik, þarna rúmri viku áður en Bessi fæddist. Jájá. Múver og sjeiker, það er ég. )

Nú, og svo er ég að skrifa þetta hér. Ef það telst ekki til stórtíðinda veit ég ekki hvað.

bessi 22

 

New York City Ballet

cityballet

Ég dansaði í nokkur ár. Frá svona tólf ára aldri og til átján, hérumbil. Fyrsta jazzballetttímann var ég pínd í – mömmu leist ekki á hvað ég var farin að ganga unglingsstelpuhokin og asnaleg. Ætli það hafi svo ekki liðið svona tvær vikur þar til ég var orðin teinrétt í baki og enn útskeifari en áður. Ég elskaði dansinn. Elskaði hann.

Ári síðar bættist ballett á stundatöfluna. Ég hef sjaldan verið jafn algjörlega út úr kú í lífinu og í mínum fyrsta balletttíma, umkringd stelpum sem flestar ef ekki allar höfðu dansað einhvern ballett áður. Sumar voru meira að segja að koma úr Listdansskólanum. Ég snéri hins vegar öfugt við stöngina og vissi nákvæmlega ekki neitt hvað ég ætti að gera við handleggina á mér. Og aftur, svona tveimur vikum síðar var ég heilluð. Þá upphófst sorgartímabil þar sem ég grét þann bitra sannleika að ég myndi aldrei verða ballerína, ekki fyrst ég byrjaði svona seint. Talsverður skortur á hæfileikum hafði kannski eitthvað með þau örlög að gera líka, en hvað um það.

Ég fæ í staðinn útrás með því að horfa á aðra og mun hæfileikaríkari dansara. Þessir stuttu þættir hérna, sem Sarah Jessica Parker framleiðir um New York City Ballet fyrir AOL, eru, eins og Kaninn segir, right up my alley.

cityballet2

Og enn og aftur er ég inspíreruð. Þegar ég er hætt að burðast um með þessa risavöxnu kúlu og komin með örlítið skárri hreyfigetu (nú hreyfi ég mig svolítið eins og níræð kona í göngugrind) ætla ég að þefa uppi fullorðinsballett. Ó já. Einn tveir og grand plié. Þangað til mæli ég eindregið og innilega með því að hverfa inn í corps de ballet-inn hjá New York City Ballet. Draumur í dós.

Mottur og merkilegheit

Motta, með höfuðstuðningi, eftir Charlotte Ackemar, nema við Konstfack í Svíþjóð.

Í tilefni þess að ég er ekki heima með eyrnabólguveikt barn, eins og ég var handviss um að myndi verða raunin miðað við slappleika umrædds barns í gærkvöldi, verður hér barasta skellt í eina bloggfærslu. Ég á  í einhverju stórskrýtnu sambandi við þetta litla blogg mitt. Ég hugsa oft í viku  að já, heyrðu, ég ætti nú að skrifa um þetta eða hitt… og svo fer ég að gera eitthvað annað. Leggja mig, oft. Fletta Pinterest. Íhuga að pússa á mér neglurnar (sem naglalakkið frá því í nóvember getur vottað að gerist heldur aldrei). En mér líður hins vegar alveg ofboðslega vel að vita af því hérna, litla horninu mínu. Sem verður kannski aðeins líflegra þegar dagarnir mínir fara aftur að hverfast um hvítvoðung (vonandi sofandi) og mjólkurbletti og vetrarsól og svona notalegt kóma.

En nú, í dag, þetta.

Blaðið Wallpaper hefur þrætt útskriftarsýningar og snuðrað í kennslustofum helstu hönnunarskóla heims og safnað saman yfirliti yfir mest spennandi útskriftarnema í hönnun og fleiri skapandi greinum árið 2014. Greinina má lesa hér.

Ég féll aðallega í stafi yfir hönnunarhlutanum, hlutum eins og mottunni hérna að ofan. Og þessum hér líka…

„Bagshelf“ eftir Grischa Erbe frá HFG Karlsruhe.

Þessi snilld hér að ofan er sem sagt hilla sem maður málar á vegginn hjá sér. Málningin inniheldur járnduft, svo seglar festast við hana. Og svo festir maður snagana og hólfin sem fylgja með alveg eftir sínu höfði. Brilljant.

Útimotta eftir Hönnu Anonen, Aalto University í Finnlandi.

Motta til útinotkunar, kjörin til að lífga upp á og gera kaldar finnskar (eða íslenskar!) svalir hlýlegri. Ég myndi ekki slá hendinni á móti einni svona á mínar – þegar ég er búin að ganga frá kössunum og draslinu sem enn prýðir þær eftir flutningana…

„A Mirror Darkly“ eftir Nick Ross í Konstfack í Svíþjóð.

Og þessi fegurð. Spegill sem sækir í kenningu um að á steinöld hafi vatnsskálar verið notaðar sem speglar. Hvað sér maður í svoleiðis spegli? Heillandi, ekki satt?

„Ceramic Stereo“ eftir Victor Johansson frá Central Saint Martins

Kannski fallegasta græja í heimi?

Merkt , ,

Vetrarflótti

Fragments of Iceland eftir Lea et Nicolas Features á Vimeo

Dásamlega fallegur vetrardagur í dag og hér sit ég og hamast við lærdóm. Náði nú samt labbitúr með uppáhaldsfeðgunum mínum í vetrarsólinni og snjónum sem þekur allt hér í Hveragerðinu góða. Bessi smakkaði snjó í fyrsta sinn og leist ekkert á, ekki fyrr en foreldrarnir smökkuðu líka.

Dásamlega fallegur vetrardagur. En ef þið eruð ekki alveg tilbúin í snjóinn, kuldann, myrkrið, þá er hér stórkostlega fínt myndband til að minna ykkur á að sumarið kemur aftur, með vindinn sem fyllir brjóstið af frelsi og höfuðið af draumum. Dýrlegt. (Takk fyrir tipsið, Helga!)

Nú, aftur lærdómur.

Merkt , , , ,

Óskalistinn og hið óvænta

Já jæja.

Þá eru ekki nema hvað, þrír mánuðir síðan ég ýjaði að því að hér væru einhver stórtíðindi sem ekki mætti segja frá. Sem var alveg rétt. Nú má ég kjafta – eða treysti mér til, öllu heldur. (Ekki það, ég hugsa að vel stærsti hluti lesendahóps þessa litla bloggs viti allt um málið nú þegar og hafi hlustað á mig kvarta og kveina síðustu vikur og mánuði.) En. Tata!

Haldiði ekki að Bessinn okkar Huginn sé að verða stóri bróðir? Ojújú. Lífið tekur stundum af manni völdin og þetta litla líf mætir í heiminn í mars. Meðgangan er rúmlega hálfnuð og ég get sagt að hún er gjörólík þeirri fyrri, af þeirri ástæðu einni að ég hef engan tíma til að hugsa sérstaklega um hana – ég er önnum kafin við að elta Bessa og skila skólaverkefnum. Og svo hef ég líka verið frekar upptekin í öðru persónulegu verkefni, sem ég vil ekki segja frá alveg, alveg, alveg strax, en felur líka í sér stórtíðindi. Og hefur heltekið mig þannig að mig dreymir ekki annað.

Það var nú það sko! Og skýringin á fallega tanntökuleikfanginu á myndinni hér að ofan. Sem er einn af ótal nýjum munum sem ég hef hnotið um á Etsy upp á síðkastið, þegar ég lýg því að sjálfri mér að ég þurfi nú nauðsynlega smá pásu frá lærdómi og að það sé tilvalið að sækja mér jólagjafainnblástur… Hér á eftir fylgja fleiri dæmi – allar myndir linkaðar við uppsprettuna!

 

Dásemdar fiftís náttlampi.

Plakat með mynd af metrókerfinu í Moskvu. Ég elska þessa liti!

Blóma- eða fjaðravasi úr gömlum tilraunaglösum og tilheyrandi statífi. Því miður ekki heimsendur út fyrir Bandaríkin, annars væri ég líklega búin að kaupa hann…

Einn af mörgum dásamlegum, útskornum fuglum í þessari verslun. Myndi sóma sér gríðarvel í barnaherberginu…

Gamaldags stjörnukort. Mér finnst þetta óskaplega fallegt . Og hægt að velja um ljósan eða dökkan við.

Ég er svolítið viðkvæm fyrir of væmnum – eða uppþvottalögslegum – ilmkertum. Þetta finnst mér hljóma ofboðslega vel. Því miður ekki sent út fyrir Bandaríkin. Bú!

Og loks, þessi armbönd, með mikilvægum dagsetningum í rómverskum tölustöfum.

Ég var rétt í þessu að uppgötva að fæðingardagur Bessa yrði ansi snotur: XX X MMXII. Næsti áætlaði dagur, öllu flóknari: XIV III MMXIV.

Ef einhver er jafn Etsy-sjúkur og ég má sá hinn sami auðvitað fylgjast með mér þar sem ég fer hamförum á favortite-takkanum. Hér er ég.

En þið? Og eigið þið uppáhöld á Etsy?

 

Merkt , ,

Eitt ár

Bessi - gemmér

Þetta hnoss er eins árs í dag. Eins árs. Það er alveg absúrd.

Síðustu tvo sólarhringa eða svo hef ég litið oftar á klukkuna en oft áður. Og í hvert skipti hefur hugurinn hvarflað ár aftur í tímann. Á þessum tíma í fyrra gat ég ekki sofið út af einhverri óáran sem ég áttaði mig ekki á að væru hríðar. Á þessum tíma í fyrra voru ljósurnar mínar að koma. Á þessum tíma í fyrra var ég komin ofan í baðið. Á þessum tíma í fyrra klöngraðist ég niður tröppurnar á náttslopp og í boxerbuxum af Atla, dauðþreytt en algjörlega fókuseruð á að klára verkefnið. Á þessum tíma í fyrra varstu lagður í fangið á mér, heitur og sleipur og svo algjörlega, dásamlega þú frá fyrsta augnabliki. Á þessum tíma í fyrra svafstu sæll í glærri vöggu og ég gat ekki hætt að horfa á þig og löngu neglurnar þínar, þó ég ætti að vera steinsofandi eftir erfiðustu átök lífs míns og allt of langa vöku.

Bessi 1

Á þessum tíma, á þessum tíma.

Þetta ár er búið að vera besta og erfiðasta ár lífs míns. Í dag hugsa ég til baka, man alla dagana sem ég hreinlega óskaði mér að árið væri liðið, bara af því að ég hélt ég gæti ekki meira af vöku eða gráti eða ráðaleysi þess tíma. Og í dag óska ég mér frekar að ég gæti spólað til baka og byrjað upp á nýtt, þrátt fyrir alla erfiðu dagana.

Bessinn minn Huginn. Þú ert mér allt.

Bessi - fyrsta kakan

Ég vona og trúi að þú komir jafn dásamlega glaður, blíður, skemmtilegur og hundraðprósentþú út úr næsta ári, þó það verði þér líklega oggulítið erfitt á köflum.

Verði þér að fyrstu möffinskökunni þinni, djásnið mitt og gersemi. Ég get ekki beðið eftir að baka fleiri fyrir þig.

Auglýsingar